Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 263 . mál.


446. Breytingartillögur



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1994.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (RG, GuðjG, SP, IBA, LMR).



    Við 7. gr. Greinin falli brott.
    Við 10. gr. Greinin falli brott.
    Við 11. gr.
         
    
    Greinin orðist svo:
                            Á eftir fyrri málslið 34. gr. nýsamþykktra laga um almannatryggingar komi nýr málsliður svohljóðandi: Þó er heimilt að ákveða í reglugerð að sjúkratryggður taki þátt í kostnaði vegna dvalar á sérhæfðum meðferðarstofnunum.
         
    
    Fyrirsögn greinarinnar verði: Um breytingu á lögum um almannatryggingar.
    Við 16. Greinin orðist svo:
                  5. mgr. 24. gr. laganna verður svohljóðandi:
                  Nú ber nauðsyn til að skerða dagvinnutíma starfsmanna vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis og skal þá greiða starfsmönnum þann hluta þeirra atvinnuleysisbóta sem þeir eiga rétt á sem svarar til skerðingar dagvinnutímans, enda taki ráðstafanir þessar almennt til starfsmanna fyrirtækisins eða starfsmanna í einstökum greinum starfsemi þess ef um fleiri en eina er að ræða. Fyrirsjáanlega skerðingu vinnutíma skal atvinnurekandi tilkynna fyrir fram til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og gera ítarlega grein fyrir ástæðum til samdráttar. Tilkynningu skal fylgja skrá um það starfsfólk sem ráðgert er að skerðingin taki til ásamt upplýsingum um dagvinnustundafjölda einstakra starfsmanna hjá fyrirtækinu á síðustu 12 mánuðum áður en til skerðingar kemur, svo og upplýsingum um stéttarfélög viðkomandi. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs staðreynir skrána svo og síðari upplýsingar um það fólk sem skerðingin tekur til og sendir til úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir þau félög sem starfsmenn eru félagar í sem síðan úrskurða um bótarétt. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að synja um greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt þessari málsgrein ef hún telur að fyrirtæki hafi ekki tilgreint nægilegar ástæður til samdráttar. Ekki verða greiddar bætur samkvæmt þessari grein lengur en 30 bótadaga fyrir hvern starfsmann á almanaksári. Komi til uppsagna starfsmanna falla greiðslur niður og eiga þeir ekki bótarétt að nýju fyrr en að loknum uppsagnarfresti.
    Við 20. gr. Við efnismálsgrein a-liðar bætist ný málsgrein er orðist svo:
                  Þrátt fyrir ákvæði 37. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1994 að gera tillögur um ráðstöfun á þessu fjármagni sem sveitarfélögin greiða til sjóðsins, auk allt að 600 m.kr. af öðru ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 1994, til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Á árinu 1994 skal einn fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingu skulu staðfestar af ráðherra.
    Við 30. gr. Nýr málsliður bætist við greinina er orðist svo: Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 5. gr. sömu laga skal innheimta 0,3% af söluvörum landbúnaðarins á árinu 1994 í stað 0,6%.