Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 320 . mál.


511. Tillaga til þingsályktunar

um rannsóknir háhitasvæða í Öxarfjarðarhéraði.

Flm.: Tómas Ingi Olrich, Pálmi Ólason,
Valgerður Sverrisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.

Alþingi ályktar að fela Orkustofnun að kanna til hlítar með borun rannsóknarholu háhitasvæði það sem verulegar líkur eru taldar vera á að sé að finna í söndum Öxarfjarðar og Kelduhverfis.

Greinargerð.
Rannsóknir, sem gerðar hafa verið á vegum Orkustofnunar í Öxarfjarðarhéraði, benda til þess að verulegar líkur séu á því að á söndum Öxarfjarðar og Kelduhverfis sé öflugt háhitasvæði. Hér er um að ræða viðnámsmælingar, mælingar á efnahita, mælingar á útgeislun jarðskjálftaorku og notkun reiknilíkana. Niðurstöður rannsóknanna benda allar í þá átt að miklar líkur séu á því að á austurbakka Bakkahlaups í Kelduhverfi sé háhitasvæði sem sé a.m.k. 10 km 2 stórt. Að hluta til er þetta jarðhitakerfi í setlögum og er það einstætt meðal íslenskra háhitasvæða og því talið varhugavert að yfirfæra reynslu af öðrum háhitasvæðum yfir á svæðið við Bakkahlaup.
Til að ganga úr skugga um það hvort tilgátur um öflugt háhitasvæði á þessum slóðum reynast réttar er talið nauðsynlegt að bora rannsóknarholu á hitasvæðinu við Bakkahlaup, allt að 1.200–1.500 metra djúpa, og hugsanlega aðra rannsóknarholu við Skógalón. Rannsóknarhola við Skógalón gæti jafnframt varpað ljósi á uppruna lífræna gassins sem þar hefur fundist.