Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 324 . mál.


515. Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Guðni Ágústsson.

1. gr.


52. gr. laganna orðast svo:
Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum og tilsvarandi vörum, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, er háður samþykki landbúnaðarráðherra. Hið sama gildir um vörulíki þessara vara. Ráðherra skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni nema þegar um er að ræða innflutning á kartöflum, nýju grænmeti, sveppum og blómum. Ráðherra skal þá leita umsagnar nefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum framleiðenda, tilnefndum af samtökum þeirra, tveimur fulltrúum innflytjenda þessara vörutegunda, tilnefndum af viðskiptaráðherra, og oddamanni, tilnefndum af landbúnaðarráðherra. Skal nefndin láta ráðherra í té rökstudda umsögn um hvort innflutnings sé þörf og hve mikils. Ráðherra getur að fenginni umsögn nefndarinnar ákveðið að innflutningur þessara vara skuli tímabundið vera undanþeginn leyfisveitingu og skal þá kveða á um leyfilegan sölutíma varanna. Sama gildir um aðrar vörur sem greinin tekur til, að fenginni umsögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Innflutningur garðyrkjuafurða skal því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.
Ráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., heimilað innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að enda sé verðjöfnunargjöldum beitt í samræmi við heimildir í milliríkjasamningum. Jafnframt getur ráðherra látið að öðru leyti koma til framkvæmda ákvæði í slíkum samningum, bókunum og viðaukum sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra. Samráð skal haft milli fjármálaráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins um framkvæmd verðjöfnunar þannig að ekki verði raskað samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu landbúnaðarvara og vara sem unnar eru úr hráefnum úr landbúnaði, innan þeirra marka sem áðurgreindir samningar setja.
Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um til hvaða vara og vörulíkja ákvæði 1. og 2. mgr. taka, þar með talið hlutfall hráefna í unnum vörum.
Ráðherra ákveður með reglugerð af hvaða hráefni úr landbúnaði skuli vera heimilt að endurgreiða verðjöfnunargjald við útflutning og hver endurgreiðslufjárhæðin skal vera.

2. gr.


Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.
Frumvarp þetta er lagt fram til að eyða þeirri réttaróvissu sem ríkir varðandi innflutning búvara eftir að dómur Hæstaréttar í „skinkumálinu“ féll. Ríkisstjórnin boðaði í utandagskrárumræðu 24. janúar sl. að samstaða væri um það innan stjórnarflokkanna að viðhalda því banni sem verið hefði á innflutningi búvara að öðru leyti en því sem til kæmi vegna þeirra fjöl- og alþjóðlegu samninga sem við höfum gert þar að lútandi. Fulltrúar beggja stjórnarflokka sögðu að gengið yrði þannig frá málum að landbúnaðarráðherra hefði forræði í málinu og að frumvarp til þess að tryggja þessa málsmeðferð yrði lagt fram daginn eftir (25. janúar).
Það er skemmst frá að segja að ekkert bólar á frumvarpinu í sölum Alþingis. Landbúnaðarnefnd voru á fundi 25. janúar kynnt drög að frumvarpi. Þau frumvarpsdrög gengu í grundvallaratriðum út á það að taka forræðið í málinu af landbúnaðarráðherra en ekki hið gagnstæða eins og haldið hafði verið fram og ljóst er að innan ríkisstjórnarinnar er mikill ágreiningur um málið. Hér virðist vera um að ræða pólitískt úrlausnarefni sem ríkisstjórnin er ófær um að leysa úr.
Vilji Alþingis í málinu lá hins vegar fyrir á vordögum 1993. Þá var ljóst að meiri hluti var fyrir því á Alþingi að afgreiða frumvarp frá ríkisstjórninni um breytingu á búvörulögunum með þeirri breytingartillögu sem lá fyrir frá meiri hluta landbúnaðarnefndar. Forsætisráðherra sleit hins vegar þingi þá til þess að málið kæmi ekki til afgreiðslu. Á fundi landbúnaðarnefndar 25. janúar kom fram sú skoðun lögfræðinganna Tryggva Gunnarssonar og Sveins Snorrasonar að ef þetta hefði verið samþykkt í vor hefðu ekki þurft að koma til þær síendurteknu uppákomur um þessi mál sem þjóðin hefur verið vitni að á síðustu mánuðum.
Því er breytingartillaga landbúnaðarnefndar frá því í vor flutt hér óbreytt í formi frumvarps til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum. Lagt er til að 52. gr. laganna orðist eins og þar segir.
Flutningsmenn gera sér ljóst að við þinglega meðferð málsins kann að þurfa að gera breytingu á frumvarpsgreininni vegna þeirra laga sem samþykkt voru í árslok 1993 og fleiri atriða. Hún er hins vegar flutt óbreytt þar sem ljóst var að allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Alþýðuflokksins í landbúnaðarnefnd skrifuðu undir hana í fyrra og verður því að ætla að þingmeirihluti sé fyrir henni. Þetta er einnig gert í trausti þess að meiri hluti sé á Alþingi fyrir þeirri málsmeðferð sem lýst er í fyrstu málsgrein athugasemdanna og að þessi breyting muni tryggja að svo muni verða.