Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 373 . mál.


568. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 57/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Valgerður Sverrisdóttir.



1. gr.


    1. mgr. 7. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 72/1989, orðast svo:
     Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla að loknum sveitarstjórnarkosningum. Skólanefndirnar skulu vera fullskipaðar eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að kosningum lýkur. Skólanefnd heldur umboði sínu þar til ný nefnd hefur verið skipuð. Í skólanefnd skulu sitja sjö menn: tveir fulltrúar starfsmanna kosnir á starfsmannafundi, einn fulltrúi kosinn af nemendum skólans, þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta og einn fulltrúa skipar ráðherra án tilnefningar. Fulltrúi nemenda skal þó kosinn til eins árs. Varamenn skulu valdir með sama hætti. Nefndin velur sér formann til tveggja ára í senn.

2. gr.


    Lög þessi taka þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þær skólanefndir, er nú starfa, skulu halda umboði sínu fram að næstu sveitarstjórnarkosningum, sbr. 1. gr. laga þessara.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að tryggja það að skipunartími skólanefnda við framhaldsskóla og kjörtími sveitarstjórna fari saman.
    Í 7. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, segir að menntamálaráðherra skuli skipa skólanefndir við hvern framhaldsskóla til fjögurra ára í senn.
    Í 15. gr. reglugerðar nr. 105/1990, um framhaldsskóla, sem sett var á grundvelli laganna, segir m.a.:
    „Menntamálaráðherra skipar skólanefnd við hvern framhaldsskóla til fjögurra ára í senn og skal miðað við kjörtímabil sveitarstjórna. Í skólanefndum skulu sitja sjö menn: tveir fulltrúar starfsmanna kosnir á fundi allra starfsmanna skólans, einn fulltrúi kosinn af nemendum skólans, þrír fulltrúar tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta og einn fulltrúa skipar ráðherra án tilnefningar. Fulltrúi nemenda skal þó kosinn til eins árs. Varamenn skulu valdir með sama hætti. Nefndin velur sér formann til tveggja ára í senn, en fulltrúi ráðuneytisins kallar nýja nefnd saman til fyrsta fundar. Fráfarandi nefnd heldur fullu starfsumboði þar til ný nefnd hefur verið skipuð. Miða skal við að skólanefndir framhaldsskóla séu að jafnaði fullskipaðar fyrir júlílok að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Fulltrúar nemenda og starfsmanna skulu þó tilnefndir áður en skólaári lýkur.“
    Í svari við fyrirspurn á Alþingi 7. febrúar sl. kom fram hjá menntamálaráðherra að skipunartími flestra skólanefnda við framhaldsskóla rynni út á tímabilinu janúar til mars 1994. Það eigi ekki við lög að styðjast að framlengja starfstíma nefndanna fram yfir fjögur ár. Lögin kveði skýrt á um það að nefndirnar skuli sitja um fjögurra ára skeið. Það sé því ekki hægt að fara að ákvæðum reglugerðarinnar um samræmingu kjörtímabils sveitarstjórna án þess að ganga gegn ákvæðum laganna um að setja skuli nýja skólanefnd þegar fjögur ár eru liðin frá skipan fráfarandi nefndar.
    Í máli ráðherrans kom enn fremur fram að eðlilegast væri að kjörtímabil skólanefnda og sveitarstjórna færi saman, en ráðuneytið hefði ekki heimild til að framlengja kjörtímabil þeirra skólanefnda sem voru skipaðar í janúar og febrúar og allt fram í mars 1990.     Með samþykkt þessa frumvarps yrði ráðuneytinu veitt þetta svigrúm. Með því að setja inn í 7. gr. laganna ákvæði þess efnis að skipunartími skólanefnda fylgi kjörtímabili sveitarstjórna, skólanefndir skuli vera fullskipaðar eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok sveitarstjórnarkosninga og að fráfarandi nefnd haldi fullu starfsumboði þar til ný nefnd hefur verið skipuð er náð fram því markmiði að skipunartími nefndanna fylgi kjörtímabili sveitarstjórna. Með bráðabirgðaákvæði frumvarpsins ætti jafnframt að vera tryggt að umboð þeirra skólanefnda er nú starfa fram að sveitarstjórnarkosningum, en umboð þeirra rennur út á fyrri hluta þessa árs, framlengdist fram yfir kosningar í lok maí nk. og nefndirnar yrðu skipaðar á ný eigi síðar en tveimur mánuðum eftir kosningar, þ.e. í síðasta lagi fyrir lok júlí.
    Þess má að lokum geta að þetta er í samræmi við eitt af meginmarkmiðum með setningu setningu laga nr. 57/1988, en í greinargerð með frumvarpi að þeim lögum segir að með því að veita framhaldsskólum aukið sjálfstæði sé skólunum veitt aðstaða til þess að taka tillit til staðhátta og þarfa atvinnulífs á hverjum stað.