Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 390 . mál.


588. Tillaga til þingsályktunar



um skipulega ræktun íslenska fjárhundsins.

Flm.: Guðni Ágústsson.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að skipa nefnd sem gerir tillögur um aðgerðir til að vernda íslenska fjárhundinn og hreinrækta stofninn.

Greinargerð.


    Íslenski fjárhundurinn er þjóðararfur og þjóðargersemi Íslendinga, hann er lifandi listaverk sem okkur ber að varðveita.
    Nú er í gangi á vegum Hundaræktarfélags Íslands skráning á íslenska hundinum og nær fullmótað er ræktunartakmark. Þar mun mest hafa unnið Guðrún Guðjohnsen og telur hún að nú séu skráðir á fjórða hundrað hundar, reyndar mismunandi að gerð, þar sem starfsemi þessi á ekki langa sögu að baki. Vegna þess hve íslenski hundastofninn er fáliðaður og sundurleitur er nauðsynlegt að hafa sem flesta einstaklinga með í ræktuninni, ekki síst vegna þess að duldir erfðagallar eru til staðar hjá sumum einstaklingum. Hefur það valdið verulegum áhyggjum og vanda við val undaneldisdýra og nauðsynleg grisjun af þeim sökum ávallt verið erfið. Hér við bætist að ekki hefur gengið auðveldlega að ná samkomulagi um þau tegundareinkenni sem hundar þurfa að hafa til að teljast „íslenskir“ en þar sem skipulögð ræktun hefur verið fátækleg til þessa er brýn þörf á að hafa slíkan staðal til viðmiðunar ef skipuleg ræktun með nauðsynlegri ættbókarfærslu verður tekin upp fyrir alla „íslenska“ hunda.
    Hér er um mikilsvert mál að ræða og hefur allt of lengi verið látið reka á reiðanum. Íslenski fjárhundurinn er vissulega í útrýmingarhættu og stafar hættan sennilega mest af síauknum innflutningi til landsins af erlendum hundakynjum. Af nýjungagirni taka margir Íslendingar þessa erlendu hunda fram yfir íslenska hundinn og áhuginn á íslenska hundinum dvínar. Reynslan undanfarna áratugi hefur sýnt að það eru tiltölulega fáir sem lagt hafa sig fram um ræktun og uppeldi íslenska hundsins en því miður hefur samstarf þessara aðila ekki ávallt gengið sem skyldi. Fjárskortur hefur einnig háð þessari ræktunarstarfsemi enda þótt flest störf séu unnin í sjálfboðavinnu.
    Útlendingar hafa sýnt íslenska hundinum mun meiri sóma en við sjálf. Íslenski hundurinn er nú kominn í ræktun víða um lönd þar sem hann nýtur mikillar virðingar og síaukinna vinsælda. Bæði Norðmenn og Danir rækta stofninn og þar fjölgar ört í stofninum. Einnig hefur hann vakið mikla athygli á hundasýningum bæði í Evrópu og Ameríku.
    Hreinræktaðir íslenskir hvolpar hafa verið seldir á háu verði úr landi. Eftirspurn er eftir hvolpum í fjölmörgum löndum eins og Bandaríkjunum, Sviss, Þýskalandi, Kanada og annars staðar á Norðurlöndunum. Það hefur víða orðið að tísku að eiga íslenskan hest og íslenskan hund og klæðast íslenskri lopapeysu. Hugsanlegt er að þessar tvær búgreinar, hundarækt og hrossarækt, kunni að styrkja hvor aðra og ef vel tekst til með markvissu átaki, sem stjórnað væri af okkar besta ræktunarfólki og sérfræðingum, yrði íslenski hundurinn enn betri auglýsing á erlendum vettvangi og skapaði þannig gjaldeyristekjur.
    Fyrir nokkrum árum þegar Hundaræktarfélagið varð 20 ára gáfu hundaræktunarfélögin annars staðar á Norðurlöndunum félaginu peningagjöf sem verja skyldi til að gera myndband um íslenska hundinn. Allt ber þetta að sama brunni. Hugsjónafólkið, sem er að reyna að vernda íslenska hundastofninn frá útrýmingu, fær oftar aðstoð frá áhugafólki erlendis meðan íslenskir aðilar láta sér fátt um finnast. Einnig voru fluttir hingað til lands fyrir fáeinum árum þrír hvolpar frá Danmörku til undaneldis. Það er ekki vansalaust að miðstöð um ræktun íslenska hundsins skuli ekki vera rekin með glæsibrag hér á landi og þegar ræktendur hundsins óska eftir erfðaefni til að bæta stofninn hjá sér sæki þeir það ekki hingað heldur öfugt. Á þessu þarf að verða breyting til batnaðar sem fyrst.

Ágrip af sögu íslenska fjárhundsins.
    Saga íslenska hundsins nær eins langt aftur í tímann og saga okkar Íslendinga. Landnámsmenn tóku búsmala sinn með sér til Íslands og þá einnig hunda til aðstoðar við gæslu og smölun. Landið er víðáttumikið og engar girðingar fyrr en á síðustu 100 árum. Lítið er ritað um hunda í Íslendingasögum og engar lýsingar gefnar á fjárhundum. Hins vegar eru til lýsingar á einstökum hundum vegna þess hve ólíkir þeir voru þeim hundum sem algengir voru í landinu, t.d. Sámur Gunnars á Hlíðarenda, sem vafalítið má telja að verið hafi írskur úlfhundur enda er hann þaðan kominn og nokkuð góð lýsing af honum sem slíkum. Um 990 var hungursneyð í landinu og lagði Arnór kerlingarnefur til að lógað yrði flestum eða öllum hundum í landinu þar sem þeir voru svo margir að það gæti bjargað fjölda mannslífa ef ekki þyrfti að fóðra hundana.
    Á miðöldum voru íslenskir hundar orðnir nokkuð vinsæl útflutningsvara frá Íslandi, sérstaklega til Bretlands, og voru þeir vinsælir sem heimilishundar hjá fyrirfólki. Marteinn Beheim skrifar 1492 að Íslendingar selji hunda sína háu verði en gefi börn sín til þess að þau fái mat. Olaus Magnus skrifar 1555 að íslenskir hundar séu vinsælir hjá aðalsfrúm og prestum. Shakespeare nefnir einnig íslenskan hund í leikriti sínu um Hinrik V (skrifað um 1600). John Caius skrifar 1570 um íslenska hunda sem séu mikils metnir og í sérstöku uppáhaldi hjá fyrirfólki í Bretlandi.
    Í ferðabók Eggerts og Bjarna 1744 er fyrst getið um tvenns konar háralag íslenskra hunda, venjulegan feld með löngum árum og einnig mjög þykkan, grófan feld og nefnist þeir hundar lubbar.
    Frá þessum tíma og fram á þessa öld er minnst á íslenska hunda í flestum ef ekki öllum ferðabókum sem skrifaðar eru um Ísland. Lýsing þessara ferðalanga á íslenska hundinum er nokkuð mismunandi en þó er auðsætt að hér er um sama hundakyn að ræða. Þeir eru sagðir ómissandi á hverjum bæ, reka búsmala úr túnum, smala fénu, reka hross, finna fé í fönn og svo mætti lengi telja. Fyrir góða hunda má fá hestverð. 1869 var talið að fjöldi hunda á Íslandi væri 24.000 en á árunum 1883–1887 er talið að hundar séu hér 10.000.
    Fyrstu lög varðandi hundahald voru sett 25. júní 1869 og 1871 var settur hár skattur á alla hunda nema ákveðinn fjölda fjárhunda á sveitabæjum. Voru þessi lög sett til að fækka hundum sem hýstu egg bandorma sem ollu sullaveiki í fólki. Eftir þetta fækkaði hundum mjög hérlendis, enda magnaðist smám saman ótti fólks við sullaveikina. Almennur skortur á hreinlæti meðal þjóðarinnar var þó höfuðsök þeirrar hættu sem af sullaveikinni stafaði.
    Árið 1900 hefur hundum fækkað mjög og vegna innflutnings erlendra hundakynja á 19. öld, sem höfðu blandast íslenska hundinum, var svo komið að Christian Schierbeck, læknir í Reykjavík, sem ferðaðist mikið um landið, telur að fáir íslenskir hundar séu eftir og eingöngu á afskekktum bæjum til sveita.
    Árið 1897 er getið um fyrstu íslensku hundana á sýningu í Tívolí í Kaupmannahöfn, Vips, Svartur og Pillar sem fékk tvenn fyrstu verðlaun og bikar. Árið 1905 var íslenskur hundur „Chuck“ ættbókarfærður í The English Kennel Club og um leið var kynið viðurkennt sem slíkt í Englandi og gefin út ræktunarmarkmið sem þýtt var úr dönsku. Íslenskir hundar hafa örsjaldan komið þar fram á sýningum en þó var Vaskur frá Þorvaldsstöðum bestur í sínum flokki og keppti um titilinn „Besti hundurinn á sýningu á Crufts“ árið 1960, þá sjö ára gamall. The Hon. Mark Watson var mikill aðdáandi alls sem íslenskt var og ferðaðist mikið um landið. Hann sagði að á ferðum sínum á Íslandi um 1930 hafi hann séð nokkuð af íslenskum hundum í sveitum landsins en um 1950 mátti segja að íslenskir hundar væru svo til horfnir nema á afskekktum stöðum. Hann ákvað því að flytja út nokkra hunda og tíkur til Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hann bjó þá og freista þess að rækta þá þar til þess að kynið yrði ekki aldauða. Páll A. Pálsson yfirdýralæknir aðstoðaði hann við þennan útflutning en eftir hjá Páli varð tík frá Vestfjörðum. Hundar þeir, sem fluttir voru til Bandaríkjanna, fengu hundapest skömmu eftir komuna þangað og drápust sumir þeirra. Þeir sem af lifðu eignuðust hvolpa og virtust mjög arfhreinir. Þegar Mark fluttist svo nokkru seinna til Englands tók hann hundana með sér og lét halda áfram að rækta þá. Bretar eru duglegir ræktunarmenn og það tók þá ekki langan tíma að gjörbreyta útliti hundsins í þá veru sem þeim þótti fallegt. Þessir hundar voru stuttir, kubbslegir og smábeinóttir!
    Páll A. Pálsson skynjaði manna fyrstur þá hættu sem steðjaði að íslenska hundastofninum og lét rækta kynhreina íslenska hvolpa undan tíkinni sem eftir varð á Keldum. Enn fremur var gerð tilraun til að hefja skipulega ræktun íslenska hundsins í Hveragerði og veittur til þess styrkur frá landbúnaðarráðuneytinu.
    Sigríður Pétursdóttir á Ólafsvöllum í Skeiðahreppi hóf síðar mikið ræktunarstarf í samstarfi við Pál A. Pálsson. Sigríður átti samstarf við Mark Watson og fleiri aðila í Bretlandi sem veittu henni ómetanlega aðstoð og upplýsingar. Sigríður flutti síðan tvo hvolpa hingað frá Bretlandi sem Mark Watson gaf henni. Ræktunarstofninn var mjög fátæklegur á þessum tíma. Íslenski hundastofninn býr yfir mikilli kynfestu og því ætti að reynast auðvelt að snúa vörn í sókn, hefja öfluga ræktun undir leiðsögn vísindamanna og gera sérstæða fjárhundinn okkar að eftirsóttum félaga á íslenskum heimilum og verðmikilli afurð erlendis.