Ferill 401. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 401 . mál.


603. Skýrsla



Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins fyrir árið 1993.

1. Almennt um Norður-Atlantshafsþingið.
    Í þingmannasamtökum Norður-Atlantshafsþjóðanna, sem voru stofnuð árið 1955, eru 188 þingmenn frá öllum aðildarríkjum Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO). Norður-Atlantshafsþingið hefur enga formlega stöðu innan NATO, en samstarfið á milli þessara aðila er náið og virkt og hefur tekið á sig fastara form með tímanum. Samtökin eru vettvangur þar sem þingmenn frá Norður-Ameríku og Evrópu koma saman til að ræða mál er varða sameiginlega hagsmuni. Fulltrúatala aðildarríkja er í hlutfalli við mannfjölda og eru þingmenn tilnefndir af þjóðþingum sínum samkvæmt reglum viðkomandi þings.
    Aðildarríki Norður-Atlantshafsþingsins eru: Bandaríkin, Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Ítalía, Kanada, Lúxemborg, Noregur, Portúgal, Sambandslýðveldið Þýskaland, Spánn og Tyrkland.
    Norður-Atlantshafsþingið hefur brugðist við þeim gífurlegu breytingum, sem orðið hafa á alþjóðavettvangi á undanförnum árum, m.a. með því að bjóða þingmönnum ríkja Sovétríkjanna fyrrverandi og ríkja Austur-Evrópu til samstarfs. Markmið þessa samstarfs er annars vegar að aðstoða við lýðræðisþróun og eflingu lýðræðis í Austur-Evrópu og hins vegar að efla skoðanaskipti og samstarf við þessi ríki. Þetta samstarf er orðið mjög mikilvægur hluti af starfi þingsins. Aukaaðild ríkja í Austur-Evrópu hefur aukið mjög umfang og skipulag þingsins og breikkað verulega starfssvið þess.

2. Hlutverk og starfssvið Norður-Atlantshafsþingsins.
    Meginverkefni Norður-Atlantshafsþingsins er að upplýsa og efla samstöðu. Þingið gerir fulltrúum þjóðþinga Atlantshafsbandalagsríkja og nú einnig ríkja Mið- og AusturEvrópu kleift að koma á framfæri áhugaefnum ríkja sinna og skiptast á upplýsingum um þau mismunandi viðhorf sem uppi eru í hinum ýmsu löndum og svæðum varðandi mikilvæg sameiginleg hagsmunamál. Enn fremur er Norður-Atlantshafsþingið mikilvægur tengiliður milli bandalagsins og þjóðþinga aðildarríkja þess. Með umræðum sínum veitir Norður-Atlantshafsþingið góða innsýn í álit þingmanna á málefnum bandalagsins. Á þennan hátt má segja að þingið gegni mikilvægu hlutverki í stefnumótun þótt áhrif þess séu óbein. Ályktunum þingsins er vísað til Atlantshafsráðsins eða viðkomandi ríkisstjórna, þjóðþinga eða alþjóðastofnana eftir eðli þeirra.
    Þingið kemur saman tvisvar á ári, á vorfundi og haustfundi, í hinum mismunandi aðildarríkjum. Fimm nefndir eru starfandi innan þingsins: stjórnmálanefnd, öryggis- og varnarmálanefnd, efnahagsmálanefnd, vísinda- og tækninefnd og félagsmálanefnd og fer málefnavinna þingsins fram innan nefndanna. Nefndirnar skipa undirnefndir til að skoða afmörkuð mál og funda þær reglulega. Undirnefndirnar skila skýrslum, samþykktum og ályktunum til þingsins og eru þau rædd og afgreidd á þingfundum.
    Þó að Norður-Atlantshafsþingið hafi ekki formlega stöðu innan NATO hefur samstarfið þróast og tekið á sig fast form eins og fyrr segir. Framkvæmdastjóri NATO setur fram álit fyrir hönd Atlantshafsráðsins á tillögum þingsins, hann ávarpar þingið á haustfundum þess, í febrúar eru haldnir nefndarfundir í Brussel með fulltrúum frá NATO og fundur formanna landsdeilda með fulltrúum úr Atlantshafsráðinu.

3. Samstarf við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
    Norður-Atlantshafsþingið hefur, eins og NATO, á undanförnum árum þurft að bregðast við gífurlegum breytingum á alþjóðavettvangi. Þótt enginn vafi leiki á áframhaldandi þörf fyrir Atlantshafsbandalagið og samvinnu Bandaríkjanna og Evrópu á sviði varnar- og öryggismála er engin skýr og yfirvofandi ógnun úr austri lengur til staðar. Samstarf og upplýsingaskipti einkenna nú samskipti austurs og vesturs á sviði öryggismála. NATO brást við nýjum aðstæðum með því að setja á stofn Norður-Atlantshafssamstarfsráðið og nú síðast með því að bjóða ríkjum Sovétríkjanna fyrrverandi og Mið- og Austur-Evrópu að taka þátt í áætlun um samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace). Í þingmannasamvinnu hefur Norður-Atlantshafsþingið tekið forustuna á sviði öryggismálasamvinnu við þessi ríki.
    Norður-Atlantshafsþingið hóf samskipti við ríki Mið- og Austur-Evrópu árið 1987 er stjórnmálanefndin skipaði undirnefnd um Austur-Evrópu og Sovétríkin fyrrverandi. Á næstu árum heimsótti undirnefndin nokkur fyrrverandi austantjaldsríki og þingmenn og
embættismenn þessara ríkja tóku þátt í nokkrum fundum Norður-Atlantshafsþingsins. Samskiptin urðu formlegri árið 1990 er þingið veitti nokkrum ríkjum Mið- og Austur- Evrópu aukaaðild. Sú þróun hefur haldið áram og hafa nú alls þrettán ríki fengið aukaaðild að þinginu, nú síðast Albanía sem var veitt aukaaðild á vorfundi þingsins 1993. Þau ríki, sem hafa nú aukaaðild að þinginu, eru nú auk Albaníu Búlgaría, Eistland, Hvíta-Rússland, Lettland, Litáen, Pólland, Rúmenía, Rússneska ríkjasambandið, Slóvakía, Tékkland, Úkraína og Ungverjaland. Aukaaðildin veitir þessum ríkjum rétt til þátttöku í vor- og haustfundum þingsins og í nefndarfundum.
    Norður-Atlantshafsþingið hefur haft frumkvæði að margvíslegri starfsemi sem snýr að ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Rose-Roth-námsstefnur eru mikilvægur liður í samstarfi þingsins við þessi ríki. Þær hófust árið 1991 og fást við afmörkuð vandamál ríkja Mið- og Austur-Evrópu þar sem Norður-Atlantshafsþingið og meðlimir þess hafa þekkingu og reynslu og geta lagt eitthvað af mörkum. Jafnframt tekur Norður-Atlantshafsþingið starfsfólk frá ríkjum Mið- og Austur-Evrópu til þjálfunar á skrifstofu þingsins.
    Af ofangreindu er ljóst að Norður-Atlantshafsþingið leggur nú áherslu á evrópsk öryggismál í víðara samhengi auk hinnar hefðbundnu starfsemi sinnar varðandi samvinnu Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu í varnar- og öryggismálum. Markmið samstarfsins við ríki Mið- og Austur-Evrópu er í raun þríþætt. Í fyrsta lagi er meðlimum þingsins ljóst að breytingar á sviði efnahags- og stjórnmála í Austur-Evrópu kalla á stuðning og aðstoð frá ríkjum Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, ekki síst í mótun þingræðis. Löggjafi, sem hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu og veitir því aðhald, er einn af hornsteinum lýðræðisins. Löggjafarþing í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðisþróuninni þar. Samskipti þingmanna frá mismunandi löndum munu ekki leysa þau erfiðu vandamál á sviði efnahags- og félagsmála sem ríki Mið- og Austur- Evrópu horfast nú í augu við, en þau munu auðvelda þingmönnum að taka þátt í umbótaferlinum. Þetta er mikilvægt, ekki síst í dag þegar talsverð óvissa ríkir í stjórn- og efnahagsmálum í ríkjum Sovétríkjanna fyrrverandi og í sumum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu sem getur leitt til ólgu og átaka á þessum svæðum.
    Í öðru lagi er mikilvægt í þessu samstarfi að taka heils hugar á móti nýjum lýðræðisríkjum, að þau finni að þau er hluti af samfélagi vestrænna lýðræðisríkja og eigi þar heima. Síðast en ekki síst ber að stuðla að auknu öryggi í Evrópu. Samskipti þingmanna stuðlar að auknum skilningi og trausti landa á milli. Þingið mun leitast við að gegna uppbyggilegu hlutverki við að koma á nýrri skipan öryggismála í Evrópu, en kjarni þess verður áfram samstarfið yfir Atlantshafið.

4. Fulltrúar Alþingis á Norður-Atlantshafsþinginu.
    Fulltrúar Alþingis á fundum Norður-Atlantshafsþingsins hafa frá upphafi verið tilnefndir af þeim þingflokkum sem stóðu að samþykkt Alþingis um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þ.e. Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Eru tilnefndir í Íslandsdeildina þrír aðalmenn og þrír menn til vara. Á 114. löggjafarþingi, í maí 1991, voru tilnefnd af viðkomandi þingflokkum til setu í Íslandsdeildinni fyrir yfirstandandi kjörtímabil Karl Steinar Guðnason, Alþýðuflokki, Sólveig Pétursdóttir, Sjálfstæðisflokki, og Jón Kristjánsson, Framsóknarflokki, og til vara Ingi Björn Albertsson og Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki, og Finnur Ingólfsson, Framsóknarflokki. Karl Steinar Guðnason var kjörinn formaður deildarinnar og Sólveig Pétursdóttir varaformaður.
    Í haust hvarf Karl Steinar Guðnason af þingi og tók þá sæti hans í Íslandsdeildinni Petrína Baldursdóttir, Alþýðuflokki. Framsóknarflokkur skipti um varamann sl. sumar og tók Jóhannes Geir Sigurgeirsson sæti Finns Ingólfssonar í Íslandsdeildinni. Í vor skipti Sjálfstæðisflokkurinn um annan varamann sinn og tók þá Árni R. Árnason sæti Tómasar Inga Olrich. 15. nóvember sl. var Sólveig Pétursdóttir kjörinn formaður Íslandsdeildarinnar og Jón Kristjánsson varaformaður. Ritari deildarinnar er Belinda Theriault alþjóðaritari.
    Samkvæmt samþykktum þingsins geta fulltrúar aðildarríkja tekið þátt í öllum nefndum þingsins. Vegna smæðar hefur Ísland þó aðeins atkvæðisrétt í þremur nefndum auk stjórnarnefndar.
    Íslandsdeildin skiptist þannig í nefndir (Karl Steinar Guðnason átti sæti í stjórnarnefnd þingsins fram á haust, en þá tók Sólveig Pétursdóttir sæti í nefndinni):

    Stjórnmálanefnd:     Sólveig Pétursdóttir.
    Félagsmálanefnd:     Petrína Baldursdóttir.                    
    Efnahagsmálanefnd:     Jón Kristjánsson.
    Varnar- og öryggismálanefnd:     Ingi Björn Albertsson.
                                       Árni R. Árnason.
    Vísinda- og tæknimálanefnd:     Enginn.
    
    Karl Steinar Guðnason átti sæti í undirnefnd félagsmálanefndar um Ráðstefnuna um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE). Jón Kristjánsson á sæti í undirnefnd efnahagsmálanefndar um samvinnu austurs og vesturs.

5. Starfsemi ársins 1993.
    Norður-Atlantshafsþingið heldur tvo allsherjarfundi árlega, svokallaðan vorfund og ársfund að hausti. Auk þess er haldinn einn sérfundur stjórnarnefndar. Þá eru haldnar námsstefnur og fundir í nefndum og undirnefndum þingsins reglulega á milli þinga og febrúarfundir eru haldnir með framkvæmdastjóra NATO og Atlantshafsráðinu. Jafnframt er árlega farið í kynnisferð til eins aðildarríkis NATO til að skoða ýmis hernaðarmannvirki og búnað. Þá voru haldnar sjö Rose-Roth-námsstefnur á árinu. Íslandsdeildin tók aðeins þátt í sérfundi stjórnarnefndar og vor- og haustfundum þingsins á árinu 1992 auk þess sem einn nefndarfundur var sóttur í efnahagsmálanefnd.

a. Fundur stjórnarnefndar.
    Stjórnarnefnd Norður-Atlantshafsþingsins hélt fund 26.–28. mars í Portúgal. Fundinn sóttu fyrir hönd Íslandsdeildarinnar Karl Steinar Guðnason og ritari deildarinnar. Var aðalumræðuefni fundarins staða ríkja utan NATO innan Norður-Atlantshafsþingsins.

b. Fundur efnahagsmálanefndar Norður-Atlantshafsþingsins.
    Jón Kristjánsson sótti fund efnahagsmálanefndar þingsins sem haldinn var í París 8. febrúar í samvinnu við Efnahags- og þróunarsamvinnustofnunina (OECD). Margir af helstu embættismönnum OECD hittu nefndina að máli og var m.a. rætt um efnahagsástandið í aðildarríkjum OECD og efnahagsþróunina í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.

c. Vorfundur Norður-Atlantshafsþingsins.
    Dagana 20.–24. maí var haldinn vorfundur Norður-Atlantshafsþingsins í Berlín. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Karl Steinar Guðnason, Tómas Ingi Olrich, Finnur Ingólfsson og Árni R. Árnason auk ritara. Staðfest var að fundur stjórnarnefndar 1997 verður haldinn á Íslandi í boði Alþingis. Á fundi stjórnarnefndar var samþykkt samhljóða að veita Albönum aukaaðild að þinginu.
    Fundir voru haldnir í hinum fimm nefndum þingsins og tók Íslandsdeildin fullan þátt í nefndastarfi. Skýrslur voru lagðar fram í öllum nefndum og voru þær ræddar. Var þar í flestum tilfellum um að ræða undirbúningsstarf fyrir haustfund Norður-Atlantshafsþingsins.
    Sameiginlegur þingfundur var haldinn á síðasta degi fundarins. John Shalikashvili hershöfðingi, yfirmaður herja Atlantshafsbandalagsins, flutti erindi um framtíð evrópskra öryggismála og hlutverk NATO.
    Aðalumræðuefni sameiginlega þingfundarins var „NATO og hin nýja Evrópa: áskorunin á Balkanskaga“. Undir þessum lið gafst þingfulltrúum tækifæri til að ræða stríðið í Júgóslavíu fyrrverandi. Voru þingfulltrúar ekki á einu máli um hvernig bregðast ætti við ástandinu þar. Í ræðu sinni sagði Karl Steinar Guðnason, þáverandi formaður Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins, að Evrópa gæti ekki leyst deiluna á Balkanskaga án aðstoðar Bandaríkjamanna. Hann hvatti til þess að NATO yrði beitt með ákveðnari hætti en hingað til í deilunni.

d. Ársfundur Norður-Atlantshafsþingsins.
    39. ársfundur Norður-Atlantshafsþingsins var haldinn dagana 7.–11. október í Kaupmannahöfn. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Sólveig Pétursdóttir, Jón Kristjánsson, Petrína Baldursdóttir og Ingi Björn Albertsson, auk ritara.
    Á fundi stjórnarnefndar var ákveðið að verða ekki við beiðni Moldóvu um aukaaðild að þinginu fyrr en lýðræðislegar kosningar hefðu farið fram í landinu. Nýr vinnuhópur var settur á laggirnar til að fást við spurninguna um stækkun NATO. Stjórnarnefndin samþykkti ályktun þar sem lýst var yfir stuðningi við aðgerðir Jeltsíns Rússlandsforseta í baráttu hans við andlýðræðisöfl í landinu. Fagnað var áformum um lýðræðislegar þingkosningar og samþykkt lýðræðislegrar stjórnarskrár en jafnframt bent á að mikið starf muni fram undan við að þróa og festa lýðræðið í sessi í Rússlandi. Stjórnarnefndin lýsti Norður-Atlantshafsþingið reiðubúið til að aðstoða Rússa eftir mætti og skoraði á aðildarþjóðir þingsins að veita nauðsynlega aðstoð. Þá var ákveðið að þingið sendi fulltrúa til að fylgjast með þingkosningum í Rússlandi.
    Að öllum nefndarfundum loknum var haldinn sameiginlegur þingfundur. Þar fluttu erindi, auk formanns Norður-Atlantshafsþingsins Loic Bouvard, Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Gerard von Moltke, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO.
    Aðalályktun fundarins hét „EuroAtlantic Solidarity in a Revolutionary Age“ og var að miklu leyti byggð á lokaskýrslu sérskipaðrar nefndar um framtíð NATO og samskipti Evrópu og Norður-Ameríku. Áður en ályktunin var afgreidd gafst þingfulltrúum tækifæri til að tjá sig almennt um efni hennar. Sólveig Pétursdóttir talaði fyrir hönd Íslandsdeildarinnar og skýrði m.a. frá viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna varðandi framtíð Keflavíkurstöðvarinnar. Hún lagði mikla áherslu á mikilvægi samvinnu Evrópu og Norður-Ameríku í varnarmálum. Hún sagði sérstöðu NATO felast í tengingunni yfir Atlantshafið og að ekki mætti rjúfa þá tengingu. Hún fagnaði þeirri þróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu og fjallaði um nauðsyn þess að NATO héldi áfram að aðlaga sig þróuninni í Evrópu en varaði jafnframt við því að of geyst yrði farið í stækkun bandalagsins.
    Við afgreiðslu ályktunarinnar var ágreiningur einna mestur um það hvort NATO ætti að þurfa samþykki Sameinuðu þjóðanna eða RÖSE til þess að grípa til aðgerða utan NATO-landa eða hvort bandalagið gæti einhliða ákveðið að grípa til aðgerða ef það þætti nauðsynlegt. Í endanlegri útgáfu ályktunarinnar er gert ráð fyrir að einungis verði gripið til aðgerða utan NATO-svæðis ef samþykki fyrir því hefur fengist hjá Sameinuðu þjóðunum eða RÖSE. Í ályktuninni eru ríkisstjórnir NATO hvattar til að víkka út skilgreininguna á meginhlutverki NATO og taka upp „crisis prevention and management“ annars vegar og „risk reduction“ í ríkjum Varsjárbandalagsins fyrrverandi hins vegar sem viðbót við hin hefðbundnu meginhlutverk bandalagsins. Meðal þess sem lagt er til í ályktuninni er að stofnað verði Efnahagsmálasamvinnuráð Evrópu og Norður-Ameríku sem hafi það hlutverk að draga úr spennu milli EB og Bandaríkjanna á sviði viðskipta, að gagngerar breytingar verði gerðar á starfsemi Norður-Atlantshafssamstarfsráðsins (NACC) sem miði að áþreifanlegu samstarfi á sviði varnar- og öryggismála, að staða yfirmanns NACC verði búin til innan NATO, að skilyrði fyrir inngöngu nýrra ríkja í NATO verði sett fram með skýrum hætti og að ákveðið verði hvernig innganga muni ganga fyrir sig með skýrum tímatakmörkunum.

e.    Annar hluti þrítugasta og níunda fundar Vestur-Evrópusambandsþingsins (VES-þingsins).
    Fulltrúi Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins sótti fund VES-þingsins 29. nóvember til 2. desember sl. samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar. Árni R. Árnason sótti fundinn fyrir hönd Íslandsdeildarinnar. Var þetta í fyrsta sinn sem Alþingi hefur fulltrúa á slíkum fundi, en VES-þingið bauð Alþingi að senda fulltrúa í tilefni af væntanlegri aukaaðild Íslands að VES og þar með aukaaðild Alþingis að VES-þinginu. Var hlutverk hans einkum fólgið í að fylgjast með umræðum og störfum þingsins og gefa forsætisnefnd skýrslu um málið. Stækkun VES-þingsins var rædd á fundinum og staða þeirra ríkja sem hafa munu aukaaðild að því. Verður þessum ríkjum, þ.e. Íslandi, Noregi og Tyrklandi, boðið að taka þátt í störfum þingsins og verður stærð leyfilegrar sendinefndar miðuð við stærð sendinefndar viðkomandi lands til Evrópuráðsþingsins. Þátttaka miðast á flestum sviðum við full réttindi en þó munu aukaaðilar eðlilega ekki njóta fulls jafnréttis á við ríki með fulla aðild á nokkrum sviðum samstarfsins.

Alþingi, 10. febr. 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Jón Kristjánsson,

Petrína Baldursdóttir.


form.

varaform.






Fylgiskjal I.

Útgefnar skýrslur Norður-Atlantshafsþingsins 1993.



Stjórnmálanefnd:
European and Transatlantic Security in a Revolutionary Age.
     Öryggismál í Evrópu og yfir Atlantshafið á byltingartímum.
Engaging the New Democracies.
     Þátttaka hinna nýrri lýðræðisríkja í varnar- og öryggismálasamstarfi.
From Stockholm to Budapest: CSCE and the Challenge of Change.
     Frá Stokkhólmi til Búdapest: RÖSE í breyttu umhverfi.
A View from Poland on the New European Security Order.
     Sjónarmið frá Póllandi varðandi nýja skipan öryggismála í Evrópu.

Varnar- og öryggismálanefnd:
The Bosnian Tragedy; Nuclear Weapons in the former Soviet Union.
     Harmsagan í Bosníu; Kjarnavopn í Sovétríkjunum fyrrverandi.
Military Trends within the Atlantic Alliance.
     Þróun hernaðarmála innan Atlantshafsbandalagsins.
Co-operation in Peacekeeping and Peace Enforcement.
     Samstarf við friðargæslu og við að framfylgja friði.
A New European Security Architecture: Reflections on Bosnia, Russia and the Hung    arian Case for Membership in NATO.
     Ný skipan öryggismála í Evrópu: Hugleiðingar um Bosníu, Rússland og rök fyrir aðild Ungverjalands að NATO.
Euroatlantic Security: One Viewpoint from Bulgaria.
     Öryggismál í Evrópu og Norður-Ameríku: Álit frá Búlgaríu.

Félagsmálanefnd:

Democratization in Eastern and Central Europe: an Interim Assessment.
    Lýðræðisþróunin í Mið- og Austur-Evrópu: Bráðabirgðamat.
The CSCE Human Dimension: Principles, Mechanisms & Implementation.
     Mannréttindamál innan RÖSE: Hverjar eru grundvallarreglurnar, hvaða tæki höfum við til að tryggja að mannréttindi séu virt og hvernig virka þau?
Fundamentalist Tendencies and the Future of Democracy in North Africa.
     Tilhneigingin til bókstafstrúar og framtíð lýðræðis í Norður-Afríku.

Efnahagsmálanefnd:
The EC-US Trade Relationship: the Challenge of the Future.
     Viðskiptasamsamskipti EB og Bandaríkjanna: Áskorun framtíðarinnar.
The Economic Reform Process in Russia.
     Ferill efnahagsumbóta í Rússlandi.
Romania and Latvia: Economies at the Crossroads.
    Rúmenía og Lettland: Efnahagur á krossgötum.

Vísinda- og tækninefnd:
Nuclear Proliferation.
     Útbreiðsla kjarnavopna.
Nuclear Weapons in the Former Soviet Union and Nuclear Power in Central and Eastern     Europe.
    Kjarnavopn í Sovétríkjunum fyrrverandi og kjarnorka í Mið- og Austur-Evrópu.



Fylgiskjal II.

Ályktanir Norður-Atlantshafsþingsins 1992.



Resolution on Supporting Democratic Developments in Eastern and Central Europe,
     um stuðning við lýðræðisþróunina í Mið- og Austur-Evrópu.
Resolution on the NATO Summit and Enlargement,
     um leiðtogafund NATO og stækkun bandalagsins.
Resolution on The Proliferation of Weapons of Mass Destruction,
     um útbreiðslu gereyðingarvopna.
Resolution on Euroatlantic Solidarity in a Revolutionary Age,
    um samstöðu Evrópu og Norður-Ameríku á byltingarkenndum tímum.