Ferill 418. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 418 . mál.


626. Frumvarp til

laga

um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Kristín Einarsdóttir.



1. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar forstjóra og skrifstofustjóra Tryggingastofnunar ríkisins til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum tryggingaráðs.
    Ráðherra skipar tryggingayfirlækni til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum forstjóra og tryggingaráðs. Ráðherra skal einnig skipa tryggingalækna til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum forstjóra, tryggingaráðs og tryggingayfirlæknis.

2. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Forstjóri annast stjórn stofnunarinnar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum sem settar eru. Hann ræður alla starfsmenn stofnunarinnar sem ekki eru skipaðir af ráðherra.
    Deildarstjórar annast venjulega afgreiðslu mála, hver fyrir sína deild. Hvers konar nýbreytni og afbrigði frá venju skal bera undir forstjóra.
    Heimilt er að ráða tannlækni eða semja við aðila utan stofnunarinnar til að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laga þessara er lúta að tannlækningum.
    Um ákvörðun launa fastra starfsmanna samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Skipanir í stöður hjá hinu opinbera eru með mismunandi hætti eftir stofnunum. Sumar eru ótímabundnar, aðrar til fjögurra ára og enn aðrar til sex ára í senn. Þróun undanfarinna ára er þó sú að tímabundnar skipanir forstöðumanna og jafnvel undirmanna þeirra hafa verið lögleiddar í auknum mæli. Þannig kemur eftirfarandi fram í greinargerð með breytingum á lögum um Innkaupastofnun ríkisins þar sem skipunartíma forstöðumanns var breytt úr ótímabundnum í fjögur ár:
    „Það er hins vegar nýmæli að forstjórinn skuli skipaður til fjögurra ára í senn og er það í samræmi við þróun síðustu ára í þá átt að binda skipunartíma forstöðumanna ríkisstofnana í tiltekinn tíma, sbr. t.d. stöðu forstjóra Iðntæknistofnunar Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Landmælinga Íslands.“
    Ýmis fleiri dæmi má nefna um tímabundnar skipanir, svo sem bankastjóra Seðlabanka Íslands og bankastjóra ríkisbankanna til sex ára í senn og framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins til fjögurra ára. Ástæður þessarar þróunar eru fyrst og fremst þær að tímabundnar skipanir í stjórnunarstöður tryggja möguleika til endurnýjunar og geta þannig hindrað stöðnun í starfsemi stofnana hins opinbera. Það er einnig markmið þess frumvarps sem hér er lagt fram, en það felur það í sér að æðstu embættismenn Tryggingastofnunar ríkisins verði skipaðir til fjögurra ára í senn. Slík regla hefur oft komið til tals og á fundi tryggingaráðs 10. desember sl. var til dæmis samþykkt eftirfarandi:
    „Tryggingaráð beinir því til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að þegar auglýstar verði lausar stöður lækna á læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins þá verði ráðið tímabundið í stöðurnar til 4–6 ára. Sé þörf lagabreytinga í þessu skyni er það ósk tryggingaráðs að ráðherrann beiti sér fyrir þeim.“
    Ekki var auglýst í samræmi við tilmæli tryggingaráðs og ekkert bendir til að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hyggist beita sér fyrir lagabreytingu um þetta efni. Þess vegna er þetta frumvarp lagt hér fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum skipar ráðherra forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins að fengnum tillögum tryggingaráðs. Einnig skipar hann skrifstofustjóra, tryggingafræðing, tryggingayfirlækni, aðalgjaldkera og deildarstjóra að fengnum tillögum forstjóra og tryggingaráðs, svo og tryggingalækni að fengnum tillögum forstjóra, tryggingaráðs og tryggingayfirlæknis. Í öllum tilvikum er um ótímabundnar skipanir að ræða.
    Breytingin sem hér er lögð til er tvíþætt. Annars vegar er gert ráð fyrir að ráðherra skipi aðeins forstjóra, skrifstofustjóra, tryggingayfirlækni og tryggingalækna, en forstjóri ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar. Hins vegar er skipunartíma breytt úr ótímabundnum í fjögur ár í senn. Það er skoðun flutningsmanna að ekki sé heppilegt að sami einstaklingur gegni embætti sem tryggingayfirlæknir eða tryggingalæknir lengur en átta ár að jafnaði, eða tvö skipunartímabil.
    Þá er lagt til að 3. mgr. 3. gr. verði færð yfir í 4. gr.

Um 2. gr.


    Eina breytingin frá núgildandi lögum sem hér er lögð til er að 3. mgr. 3. gr. verði 4. mgr. 4. gr.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.