Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 419 . mál.


628. Tillaga til þingsályktun

ar

um ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu.

Flm.: Jón Helgason, Ingibjörg Pálmadóttir, Valgerður Sverrisdóttir,


Guðni Ágústsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu eftir að opnað hefur verið fyrir óheftan tollfrjálsan og niðurgreiddan innflutning á ýmsum tegundum grænmetis og blóma í marga mánuði á hverju ári, jafnframt því sem einstaklingum verði bætt það eignatjón sem ekki er unnt að koma í veg fyrir af þeim sökum.

Greinargerð.


    Á Íslandi eru um 17 ha eða 170.000 m 2 gróðurhúsa. Verðmæti húsanna eru um 1,8 milljarðar kr. auk 400 millj. kr. í aðstöðuhúsum og eru þá íbúðarhús ekki meðtalin. Á árinu 1990 var framleiðsluverðmæti blóma og grænmetis um 1 milljarður kr. Heilsársstörf eru talin um 350 auk um 200 sumarstarfa. Ef reiknað er með að tvö störf í þjónustu tengist hverju ársstarfi í frumframleiðslu má reikna með að á annað þúsund manns hafi atvinnu beint af garðyrkju. Framlög hins opinbera til garðyrkju hafa engin verið nú hin síðustu ár eftir að húsabótaframlög féllu niður í raun. Árið 1990 námu þau alls 750 þús. kr. Framleiðslan hefur aldrei notið styrkja né verðábyrgðar.
    Mikil samkeppni ríkir innan græna geirans hér á landi og hefur hún leitt til að skilaverð til framleiðenda hefur lækkað verulega bæði á blómum og á grænmeti. Þessi harða samkeppni skýrist af því að verðmyndun blóma og grænmetis ræðst á frjálsum markaði yfir uppskerutímann. Markaðsaðstæður og fyrirsjáanleg opnun markaðarins hafa hvatt framleiðendur til hagræðingar í rekstri og fjárfestingar í lýsingar- og koltvísýringsbúnaði til að auka nýtingu annarrar fjárfestingar og lækka þannig framleiðslukostnað. Framleiðslugeta fyrirtækjanna er töluvert meiri en eftirspurn. Eins og rekstrarumhverfi græna geirans er um þessar mundir er útflutningur garðyrkjuafurða ekki mögulegur.
    Í Vestur-Evrópu býr græni geirinn við hagstæðara rekstrarumhverfi en hér og þó eru garðyrkjustöðvar, svo sem í Hollandi og í Danmörku, flestar reknar með tapi. Innan EB eru vaxtabætur á lánum að hámarki um 10 milljónir, til bygginga og kaupa á garðyrkjustöðvum 5,5% til 10 ára og til annarra fjárfestinga 4% til sjö ára. Beinir styrkir til bygginga eða kaupa geta numið allt að 16% (í Hollandi) til 20% (í Danmörku) af fjárfestingu. Í ár ver það opinbera í Svíþjóð 25 milljónum sænskra króna í kynningu á sænskum garðyrkjuafurðum, í rannsóknir og skipulagningu í þágu garðyrkjunnar.
    Í skýrslu Markúsar Möller, sem unnin var fyrir landbúnaðarráðuneytið, kemur fram að íslensk garðyrkja keppir við framleiðslu frá löndum þar sem styrkir eru frá um 10–20% af framleiðsluverðmæti hjá samkeppnislöndunum.
    Hérlendis eru lán Stofnlánadeildar landbúnaðarins til bygginga gróðurhúsa allt að 60% af matsverði byggingar með 2% vöxtum til 15 ára en þó að hámarki til byggingar 2.100 m 2 húsa einyrkja. Garðyrkjan hefur hingað til verið þátttakandi í sjóðakerfi landbúnaðarins og mun láta nærri að með framlagi til Stofnlánadeildar sé garðyrkjan að greiða um 5,5% í vexti af lánum til hennar. Að auki eru veitt lán til lýsingarbúnaðar og nema þau 40% af kostnaði við lampa eða 50% af heildarkostnaði og eru til átta ára.
    Byggingarkostnaður hérlendis er mun hærri en í samkeppnislöndunum vegna veðurfars og strangra byggingarreglugerða. Mest öll fjárfesting í gróðurhúsum ber söluskattinn gamla auk tolla sem voru á byggingarefni.
    Launakostnaður garðyrkju í samkeppnislöndunum er lægri en hér og kemur það til af því að algengt er að fólk frá fátækari ríkjum sé ráðið ýmist tímabundið eða „svart“ til starfa í garðyrkju.
    Til að geta framleitt yfir vetrartímann þarf að lýsa ræktunina vegna ónógrar náttúrulegrar inngeislunar. Hérlendis þarf um helmingi meiri orku en í Hollandi til að ná samsvarandi uppskerumagni og gæðum á tímabilinu október til mars. Orkuverð hér er of hár hluti rekstrarkostnaðar garðyrkjustöðva miðað við markaðsaðstæður í garðyrkju og í raforku í dag.
    Tollar á rekstrarvörum námu á síðasta ári 4–6 millj. kr. og munar þar mestu um tolla á smáplöntum til framhaldsræktunar.
    Samhliða samningnum um EES gerðu EFTA-ríkin tvíhliða samning við EB um tollfrjálsan innflutning, svonefndan Cohension-lista með 76 vörutegundum landbúnaðarafurða. Hjá öðrum EFTA-ríkjum en Íslandi var þessi samningur gagnkvæmur; þannig fengu þau einnig betri kjör fyrir útflutning svo að jafnvægi náðist.
    Ísland samdi hins vegar um einhliða innflutningsheimildir og var það réttlætt með því að slíkur samningur bætti stöðu til að ná fram tollalækkun á útfluttum fiski sem mundi færa þjóðarbúinu mikinn auð. Það virðist því óviðunandi ósanngirni að garðyrkjubændur einir séu látnir bera þennan fórnarkostnað bótalaust. Því er þessi þingsályktunartillaga flutt um að ríkisvaldið geri ráðstafanir til að veita íslenskri garðyrkju viðunandi samkeppnisstöðu.



Fylgiskjal.


Bréf Sambands garðyrkjubænda til efnahags- og viðskiptanefndar.


(26. júlí 1992.)



    Svar við bréfi yðar dags. 3. júlí sl. vegna frumvarps til laga um breytingar á tollalögum og vörugjaldi (fylgifrumvarp með samningum um Evrópskt efnahagssvæði).
    Innan Sambands garðyrkjubænda hefur verið reynt eftir megni að fylgjast með þeirri hröðu atburðarás sem tengist umræðum og samningsgerð um EES og GATT. Fylgiskjal I í frumvarpinu er í samræmi við það sem okkur hafði verið kynnt um tollfrjálsan innflutning á nokkrum landbúnaðarvörum frá aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins. Fyrirhugaðar breytingar á tollalögum, sem okkur hafa nú verið sendar til umsagnar, snerta einkum afskorin blóm, a.m.k. ef menn kjósa að horfa fram hjá framþróun í garðyrkju sem m.a. felst í aukinni raflýsingu grænmetis.
    Skert markaðshlutdeild innlendra garðyrkjuafurða á okkar litla og viðkvæma heimamarkað mun án efa hafa mikil áhrif á stöðu íslenskrar garðyrkju í heild. Samningsákvæði sem heimila frjálsan innflutning munu geta stöðvað framfarir í greininni. Má í því sambandi benda á aukna notkun raflýsingar og koltvísýrings í gróðurhúsum í skammdeginu.
    Fjárfestingar í garðyrkju, einkum gróðurhús, er ekki unnt að nýta til annars. Aukinn innflutningur getur því ef til skamms tíma er litið sett skuldugustu stöðvarnar á hausinn og ef til langs tíma er litið gert eldri stöðvar og stöðvar á jaðarsvæðum verðlausar. Heildarframleiðsluverðmæti grænmetis og blóma árið 1990 var tæpur 1 milljarður króna og eru kartöflur þá ekki meðtaldar. Heilsársstörf í garðyrkju eru um 350, auk 200 sumarstarfsmanna. Ætla má að tvö störf í þjónustu tengist hverju ársstarfi í framleiðslu eða um 700 störf.
    Tollar á garðyrkjuafurðum hafa stórlækkað á nokkrum árum og það ásamt harðnandi samkeppni innan lands hefur leitt til þess að verð hefur lítið sem ekkert hækkað á undangengnum árum.
    Frjáls, tollalaus innflutningur fimm tegunda afskorinna blóma frá 1. desember til 30. apríl mun ekki aðeins hafa áhrif á framleiðslu og sölu þessara tegunda heldur hafa víðtækar afleiðingar á sölu og verðlagningu á íslenskum blómum almennt.
    Frjáls innflutningur ótollaðrar vöru inn á lítið markaðssvæði sem lokað er í annan endann (útflutningsmöguleikar eru nánast engir) í fimm mánuði ársins getur haft háskalegar afleiðingar. Því er ljóst að verið er að taka hér mikla áhættu.
    Innan Evrópubandalagsins eru styrkir til garðyrkju vel þekktir, bæði beinir og óbeinir. Styrkirnir skekkja öll verð á garðyrkjuafurðum innan bandalagsins og eftir gildistöku samnings um EES, þá einnig í EFTA-löndunum. Þessir styrkir hafa veruleg áhrif á samkeppnishæfni íslenskra garðyrkjubænda sem hafa hvorki notið styrkja af þessu tagi né verðábyrgðar eins og þekkist á öðrum landbúnaðarvörum hér innan lands.
    Þar sem nú er unnið að breytingum á tollskrá viljum við benda á að áður hefur verið óskað eftir leiðréttingu á tolli á órótuðum græðlingum, sbr. afrit af meðfylgjandi bréfi dags. 24. janúar 1992 til fjármálaráðuneytisins. Að okkar mati er eðlilegt að rótaðir og órótaðir græðlingar og gróðurkvistir falli undir sama tollflokk, þ.e. 0602.1000, og nefnist hann þá „Græðlingar og gróðurkvistir með og án róta.“
         Þá má einnig nefna að á fjárfestingar- og rekstrarvörum eru innheimt vörugjöld og í sumum tilfellum tollar.

Virðingarfyllst,



Kjartan Ólafsson, formaður.