Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 447 . mál.


660. Frumvarp til

laga

um breytingu á lögum nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, ásamt síðari breytingum.

Flm.: Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson, Finnur Ingólfsson.



1. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða IV, sbr. 17. gr. laga nr. 127/1993, fellur brott. Gjöld, sem sveitarfélög hafa þegar greitt til Atvinnuleysistryggingasjóðs samkvæmt ákvæðinu á árinu 1994, skulu endurgreidd eigi síðar en 1. september 1994.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að afnumin verði greiðsluskylda sveitarfélaga í Atvinnuleysistryggingasjóð á árinu 1994 á fjármagni sem síðan er aftur ráðstafað af sjóðnum til að eflingar atvinnulífi í sveitarfélögunum. Þess í stað er lagt til að gjöld þessi verði endurgreidd sveitarfélögunum sem sjái sjálf um þessa framkvæmd mála.
    Fyrirkomulagi þessu var fyrst komið á árið 1993 með lögum nr. 107/1992, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990. Var þar með bráðabirgðaákvæði komið á skyldu sveitarfélaga til að greiða 500 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð. Samkvæmt ákvæðinu miðaðist framlag hvers sveitarfélags við íbúafjölda og var Atvinnuleysistryggingasjóði heimilt að ráðstafa þessu fjármagni að uppfylltum reglum sem settar voru um úthlutun úr sjóðnum.
    Þrátt fyrir að þessum ráðstöfunum væri aðeins ætlað að ná til ársins 1993 var með lögum nr. 127/1993, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sett nýtt hliðstætt bráðabirgðaákvæði í lögin um atvinnuleysistryggingar fyrir árið 1994 og framlag sveitarfélaganna hækkað í 600 millj. kr.
    Settar hafa verið reglur um úthlutun styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði á grundvelli fyrrgreindra lagabreytinga, fyrir árið 1993 af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og af félagsmálaráðherra 14. febrúar sl. fyrir árið 1994, en þessi málaflokkur hefur sem kunnugt er verið færður til félagsmálaráðuneytisins. Samkvæmt reglunum gerir stjórn sjóðsins tillögur um ráðstöfun fjármagnsins til einstakra verkefna eftir umsóknum sveitarfélaga og eru tillögurnar lagðar fyrir ráðherra sem staðfestir þær eftir atvikum. Framkvæmdin hefur sýnt að afgreiðsla þessi er í mörgum tilvikum ósanngjörn og sýna nýleg dæmi að úthlutun styrkja til fyrirtækja með þessum hætti hefur reynst hæpin leið með tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýslunnar sem nú hefur verið lögfest með 11. gr. nýrra stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
    Af þeim 500 millj. kr., sem sveitarfélögin greiddu í Atvinnuleysistryggingasjóð árið 1993, liggur ekki endanlega fyrir hve mikið sjóðurinn greiddi þeim til baka þar sem enn hefur ekki verið gert endanlega upp hjá sjóðnum. Um áramótin var talið að upphæðin næmi 300 millj. kr. en nú liggur fyrir að sú fjárhæð muni endanlega jafnvel ekki vera nema milli 100 til 200 millj. kr. Eftir stendur því í ríkissjóði umtalsverð fjárhæð sem í rauninni má líta á sem beinan framfærslustyrk sveitarfélaganna til ríkissjóðs.
    Eitt af meginmarkmiðum nýrra sveitarstjórnarlaga var að auka sjálfsstjórn sveitarfélaga og að í sem mestum mæli færu saman ákvörðun, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð þegar sveitarfélögum væru fengin verkefni. Í 6. gr. sveitarstjórnarlaganna, nr. 8/1986, eru talin upp helstu verkefni sveitarfélaga en þar á meðal eru ráðstafanir til að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort. Frumvarp þetta byggir m.a. á því sjónarmiði að eðlilegt sé að sjálfsstjórn sveitarfélaganna sé fyrir hendi hvað þetta ákvæði snertir. Ef ríkið gefur þetta eftir og lætur sveitarfélögin sjálf um þennan þátt mála með tilmælum um að þessu fé verði varið til atvinnuskapandi verkefna má fullyrða að hægt verði að láta átaksverkefnin ná til fleiri atvinnulausra og munu þá útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækka að sama skapi.
    Það er á engan hátt eðlilegt að sveitarfélögin, sem hafa mikla reynslu í atvinnuskapandi verkefnum og hafa lagt til þeirra mikið fjármagn á undanförnum árum, greiði þetta fjármagn í gegnum Avinnuleysistryggingasjóð og því sé úthlutað þar. Mun einfaldara er að sveitarfélögin verji þessu fé beint í atvinnuskapandi aðgerðir án þess að greiða það í gegnum sjóðinn. Fullyrða má að sveitarfélögunum sjálfum er treystandi til að standa fyrir átaksverkefnum til styrkingar nýsköpun í atvinnulífinu í stað þess að hafa slíka miðstýringu sem í raun felur í sér kostnaðarsaman tilflutning á fjármunum frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins sem síðan eru sendir aftur frá ríkinu og til sveitarfélaganna.
    Þar sem reglur ráðherra um úthlutun styrkja, sem vitnað var til hér að framan, fela í sér að aðeins er veitt fé úr Atvinnuleysistryggingasjóði miðað við bótarétt þeirra einstaklinga sem falla af atvinnuleysisskrá vegna þátttöku í viðkomandi verkefni, en sveitarfélögin hafa orðið að bera annan kostnað, svo sem launakostnað umfram atvinnuleysisbætur, efniskostnað, stjórnunarkostnað o.s.frv., hefur raunin orðið sú að kostnaður sveitarfélaganna hefur verið mun meiri en sem nemur framlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ekki eru til nákvæmar tölur um hlutfallslegan kostnað sveitarfélaganna miðað við framlög sjóðsins, en framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs mun jafnvel hafa farið niður í að vera fjórðungur af þeirri upphæð sem viðkomandi sveitarfélag hefur orðið að leggja til verkefnisins.
    Í bráðabirgðaákvæði IV segir að fjármálaráðherra setji reglugerð um innheimtu gjaldsins af sveitarfélögunum. Slík reglugerð hefur, eftir því sem flutningsmenn komast næst, ekki verið sett. Á árinu 1993 var framkvæmdin sú að sveitarfélögin greiddu á 10 mánuðum, frá febrúar til nóvember, jafnar greiðslur til Atvinnuleysistryggingasjóðs í gegnum ríkisféhirði. Búast má við að framkvæmdin verði svipuð í ár og er lagt til að þær greiðslur, sem þegar hafa farið fram þegar lög þessi taka gildi, verði endurgreiddar sveitarfélögunum ekki síðar en 1. september á þessu ári.