Ferill 457. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 457 . mál.


687. Tillaga til þingsályktunar



um eflingu menntunar í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar.

Flm.: Árni R. Árnason, Guðjón Guðmundsson, Vilhjálmur Egilsson,


Matthías Bjarnason, Guðmundur Hallvarðsson, Tómas Ingi Olrich,


Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen, Egill Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að efla menntun í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar með stofnun námsbrauta og þróun námsefnis er njóti forgangs við framkvæmd nýrrar menntastefnu.

G r e i n a r g e r ð .


    Að undanförnu hefur á vegum menntamálaráðherra starfað nefnd um mótun menntastefnu. Um þessar mundir eru drög hennar að frumvarpi til laga um framhaldsskóla til umfjöllunar hjá samtökum skólastarfsgreina og annarra aðila að skólastarfi. Nefndin heldur áfram störfum og mun í lokaskýrslu gera grein fyrir þeirri stefnu sem frumvarpið og væntanlegt frumvarp til laga um grunnskóla byggja á. Af því sem fram hefur komið er ljóst að nefndin vinnur mikið verk sem leggur grundvöll að nýjum starfsháttum og áherslum í skólastarfi með ákvæðum um framkvæmd þess eftir markmiðum menntunar, aukin tengsl skóla og atvinnulífs og eflingu starfsnáms og verkmenntunar.
    Flutningsmenn taka heilshugar undir þessi sjónarmið. Efling starfsnáms og verkmenntunar, aukin tengsl skóla og atvinnulífs, samspil skólanáms og vinnustaðaþjálfunar munu kynna námsmönnum og uppvaxandi æskufólki atvinnulífið og gera þeim það sjáanlegt ásamt því að árétta mikilvægi námsins og hversu raunhæft það er fyrir lífsstarfið sem fram undan er. Af efnahagslegum árangri þeirra þjóða, sem lagt hafa meiri áherslu á starfsnám og tengsl skóla og atvinnulífs en aðrar þjóðir, má álykta að það leiði til árangursríkara náms og skólastarfs í þágu atvinnumöguleika námsmanna og efnahagslegrar afkomu þjóðarinnar allrar. Hér skapast færi á að auka veg og virðingu menntunar sem gefur þekkingu og þjálfun til starfa í mikilvægasta atvinnuvegi okkar, sjávarútvegi, og við nýtingu auðlinda okkar í hafinu. Því leggja flutningsmenn það til að menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar njóti sérstaks forgangs í þeirri endurmótun námsframboðs og skólastarfs sem hafin verður með nýrri löggjöf um framhaldsskóla og hrint í framkvæmd á grundvelli hennar. Nám, sem býðst á þessum sviðum, fái sem fyrst sess sem mikilvægi þessara starfa hæfir, t.d. með hæfnisprófun að tilteknum námsáföngum loknum, t.d. er samsvari framhaldsskólaprófi með þetta sérsvið eða að loknu námi réttindi sem bera megi saman við réttindi iðnmenntaðra. Í boði verði samfellt nám og þjálfun er leiði til viðurkenndrar kunnáttu við almenn framleiðslustörf og meira nám og þjálfun veiti þekkingu til að taka nokkra ábyrgð og vinna flóknari störf, svo sem stjórn framleiðsluvéla og tækja. Þá veiti fullt nám og starfsþjálfun réttindi til framleiðslueftirlits, verkstjórnar og annarra ámóta ábyrgðarstarfa. Einnig bjóðist samfellt framhaldsnám er leiði til stúdentsprófs á sviði þessara námsgreina og aðgengi að háskólanámi er veiti enn meiri þekkingu og réttindi.
    Um árabil hefur afkoma þjóðarbúsins versnað og lífskjör þjóðarinnar í heild rýrnað, í efnahagslífinu hefur ríkt stöðnun og samdráttur í sjávarútvegi. Hefur þessa gætt í nær öllum mælikvörðum á afkomu þjóðarbúsins allt frá 1986 eða 1987 og eru orsakir nokkrar. Af þeim er varða okkur sem fiskveiðiþjóð eru tvær helstar. Önnur er verðlækkun afurða á mörkuðum helstu viðskiptalanda okkar sem rekja má til mikils framboðs bolfiskafurða frá Barentshafi og minnkandi eftirspurnar sökum versnandi efnahagsástands og lakari afkomu. Þorskbresturinn við Nýfundnaland hefur ekki fært okkur aukna hlutdeild á mörkuðum vestan hafs, m.a. vegna framboðs ódýrari fisktegunda í stað hinna dýrari sem okkar afurðir teljast til. Hin er versnandi afkoma þorskstofnsins á Íslandsmiðum sem er helsti og verðmætasti nytjastofn okkar í hafinu. Hefur það leitt til minnkandi umsvifa í sjávarútvegi, einkum bolfiskveiðum og vinnslu.
    Eftir því sem liðið hefur á þetta stöðnunar- og samdráttarskeið hefur athyglin ekki aðeins beinst að þessum og öðrum ytri skilyrðum sem breyst hafa til hins verra fyrir lífskjör okkar, heldur enn fremur að því hvernig við getum bætt hag okkar við ríkjandi aðstæður, t.d. með aukinni hagkvæmni í starfsemi, en víða í sjávarútvegi hefur farið fram raunverulegt stórátak til hagræðingar á síðustu árum. Síðast en ekki síst hafa augu okkar opnast fyrir aukinni og bættri nýtingu auðlindarinnar í hafinu til aukinnar verðmætasköpunar, annars vegar með veiðum og nýtingu áður ónýttra tegunda og hins vegar með aukinni vinnslu sjávarfangs og fullvinnslu afurðanna, allt upp í framleiðslu tilbúinna rétta.
    Tilkoma Evrópska efnahagssvæðisins, EES, hefur m.a. átt mikinn þátt í nokkurri vakningu hvað snertir fullvinnslu og framleiðslu tilbúinna matvæla. Með því batnar aðgangur okkar að mörkuðum Vestur-Evrópu og við fáum á skömmum tíma miklar umbætur í viðskiptakjörum. Það gerir okkur kleift að auka útflutning þangað — til okkar langstærsta og besta markaðar, bæði fullunninnar vöru og þjónustu á ýmsum sviðum. Ávinningur sjávarútvegs verður mikill vegna breyttra tolla á fullunnum afurðum og tilbúnum réttum.
    Þrátt fyrir þetta höfum við þokast hægt áleiðis og erum í raun enn lítt búnir til að færa okkur þessa möguleika í nyt, a.m.k. á það við um stóran hluta sjávarútvegsins. Enn erum við að stærstum hluta útflytjendur hráefnis í geymsluhæfu ástandi, og flest fiskvinnslufyrirtæki okkar stunda í raun aðeins frumvinnslu — verkun hráefnisins í geymsluhæft ástand. Fullvinnslan fer fram erlendis — atvinnan er flutt út. Þar um má nefna:
—    Við flytjum út óunninn, ísaðan eða kældan „ferskan“ fisk, ýmist í gámum eða fiskiskipum sem sigla með aflann. Oft er jafnvel keypt til viðbótar á innlendum fiskmörkuðum. Rakið hefur verið að þessi fiskur fer að mestum hluta ekki til neyslu, sem þó hefur verið haldið fram, heldur til vinnslu. Einnig hefur verið rakið að þessi fiskur fer ekki í hæsta gæðaflokk, sem þó hefur verið staðhæft, heldur í annan og jafnvel þriðja flokk. Hann er því slæmur vitnisburður um kunnáttu okkar í meðferð, frágangi og kælingu afla og um gæði íslensks sjávarfangs sem hráefnis — en hefði orðið fyrsta flokks hráefni hér heima því að sá tími, sem fer í flutninga, skiptir sköpum um ferskleika aflans.
—    Við flytjum út heilfrystan fisk, frystar flaka- og marningsblokkir, tunnusaltaða síld og hrogn, blautverkaðan saltfisk og annan grófunninn fisk frá vinnsluskipum og vinnslustöðvum, ekki neysluvörur heldur hráefni fyrir fullvinnsluverksmiðjur, selt úr landi án fullvinnslu hér heima. Sumt er meira að segja hráefni fyrir erlendar verksmiðjur í eigu Íslendinga, einkum íslenskra sölusamtaka, t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi. Dæmi eru þess að íslenskar fullvinnsluverksmiðjur hafa staðið frammi fyrir hráefnisskorti á sama tíma og hráefnið er flutt út.
    Efla þarf fullvinnslu sjávarafla. Hún mun einnig vinna úr afurðum heilfrystiskipa, saltfisksskipa og annarra grófvinnsluskipa, en þær eru hráefni fullvinnslustöðva. Enn fremur úr grófunnum afurðum landvinnslu sem einnig eru hráefni fullvinnslustöðva, svo sem blautverkuðum saltfiski, saltsíld og salthrognum í tunnum, frystum flaka- og marningsblokkum.
    Sem fiskveiðiþjóð hafa Íslendingar mikla reynslu af fiskvinnslu og því um leið staðgóða þekkingu á matvælaframleiðslu. Á síðustu áratugum hefur fleygt fram þekkingu okkar sem nær lengra en til vinnslu afla yfir í hráefni, lengra en til að gera hráefni geymsluhæft. Þótt enn séum við framleiðendur hráefna höfum við samt orðið mikla þekkingu á mörkuðum, kröfum og neysluvenjum sem getur nýst okkur við að taka skrefið yfir til matvælaiðnaðar, framleiðslu sjávarrétta, tilbúinna fyrir neytendur. Þeir sem hafa á síðari árum haft stjórn eða ábyrgð á meðferð fiskafla og fiskafurða og hlotið tilskilin réttindi þekkja gjörla og hafa unnið eftir ströngum gæðakröfum sem hafa orðið fyrirmynd að gæðakerfum annarra þjóða, svo sem í Bandaríkjunum og Kanada.
    Flestir landsmenn hafa einhvern tíma unnið við fiskveiðar eða fiskvinnslu. Margar fjölskyldur hafa átt allt sitt undir afkomu sjávarútvegs og skynja vel hve mikilvægt er að sjávarafli verði vel nýttur og þannig sköpuð sem mest verðmæti. Nú stefnir hins vegar í það sökum minnkandi atvinnu að ungt fólk alist upp án þess nokkru sinni að komast í beina snertingu við sjósókn eða fiskvinnslu. Þá gætir þess nú af vaxandi þunga að störf við sjávarútveg, bæði veiðar og vinnslu, og þó almenn störf séu, fá einungis þeir sem hafa þjálfun. Verður því mikilvægt að uppvaxandi fólki bjóðist slík kynni af atvinnugreinum og störfum meðan það stundar almennt nám. Ekki síður er mikilvægt að nemendum bjóðist nám til undirbúnings fyrir störf við svo stóran atvinnuveg. Það getur jafnframt orðið undirbúningur frekara náms til réttinda í sérhæfðum störfum fyrir hann. Með slíku námsframboði má styrkja mjög ímynd sjávarútvegs og annarra starfsgreina sem honum tengjast vegna þjónustu og annarra viðskipta við hann. Það mun styðja þann skilning, sem fer vaxandi, að fiskveiðar, fiskvinnsla og framleiðsla matvæla og tilbúinna neyslurétta úr sjávarfangi er atvinnuvegur sem beitir nýjustu aðferðum og tækni, viðhefur ströngustu hreinlætiskröfur og kappkostar að framleiða einungis fyrsta flokks vörur fyrir kröfuharða kaupendur.
    Gott nám til undirbúnings lífsstarfi við sjávarútveg, við sjósókn og fiskveiðar ellegar við fiskvinnslu og framleiðslu fullgerðra matvæla og tilbúinna rétta úr sjávarfangi er okkur nauðsyn. Námsefni þarf að vera nokkuð fjölbreytt til að þjóna þörfum nemenda og atvinnuvegarins:
     Um fiskveiðar: Sjómennska, skipstjórn, vélstjórn, útgerð; fisktegundir og mið við Ísland, grunnmið, djúpmið, úthafsmið, fjarlæg mið, veiðar ýmissa tegunda, á ýmsum veiðislóðum og árstímum; veiðarfæri, notkun þeirra og viðgerðir; meðferð og geymsla afla, vinnsla afla í skipum; vélar og búnaður fiskiskipa; fjárfestingar, fjármögnun og rekstur fiskiskipa; aðföng, þjónusta og viðgerðir; sala afla, fiskmarkaðir og útflutningur; almenn verkþjálfun fyrir fiskveiðastörf.
     Um fiskvinnslu og fiskiðnað: Meðferð og geymslu hráefnis, frumvinnsla ýmissa tegunda hráefnis og vöru (reyking, söltun, heilfrysting, söltun í tunnur og þess háttar, skreiðarverkun o.fl.); hreinlætis- og gæðaeftirlit; gæðastjórnun; framleiðsla eða fullvinnsla (fiskiðnaður) úr frumvinnsluhráefnum (heilfrystum fiski, tunnusaltaðri síld og hrognum, blautverkuðum saltfiski, reyktum fiski), um vinnslu- og verkunaraðferðir allt til neytendavöru og tilbúinna sjávarrétta, matvælagerð; vélar, tækjakostur og annar búnaður vinnslustöðva; fjárfesting, fjármögnun og rekstur vinnslustöðva; aðföng, þjónusta og viðgerðir; hráefniskaup, fiskmarkaðir; sala afurða, innanlandsmarkaður og útflutningur; almenn verkþjálfun fyrir fiskvinnslu- og fiskiðnaðarstörf.
     Almennt: Nýjasta tækni, fjarskiptatækni, tölvutækni og notkun tölvustýringa í framleiðsluferlum; umbúða- og flutningatækni; viðskipti við aðrar atvinnugreinar; afkomuútreikningar, verðlagning, fjárfestingar og fjármögnun; verkstjórn og verkaskipti, stjórnun og áætlanagerð; nýir möguleikar og nýjungar; kynni af rannsókna- og þróunarstarfi; kynni af markaðsmálum, innkaupa- og neysluvenjur og staða sjávarafurða gagnvart samkeppnismatvælum á helstu markaðssvæðum okkar; eldi sjávarfiska, t.d. áframeldi undirmálsfisks, eldi annarra sjávardýra og vatnafiska og staða fiskeldis í heildarframboði fiskmetis og sjávarfangs; um stjórnkerfi fiskveiða; um fiskveiðiútgerð sem ekki er stunduð á starfssvæði skólans en stunduð annars staðar; um stofnun og uppbyggingu fyrirtækja; um beitingu framleiðsluaðferða í sjávarútvegi við aðra matvælagerð.
    Flutningsmenn telja eðlilegt að stefna að uppbyggingu námsbrauta á þessu starfssviði við framhaldsskóla í hverjum landshluta. Hinir ýmsu framhaldsskólar eru misjafnlega stórir, starfrækja misjafnan fjölda námsbrauta og áfanga sem ræðst af aðsókn. Þeir eru misjafnlega vel búnir til að hefja starf nýrra námsbrauta og verður að meta aðstöðu hvers og eins við frekari undirbúning og framkvæmd. Eftirtaldir framhaldsskólar, sem allir starfrækja námsbrautir en ekki bekkjakerfi og eru staðsettir þar sem sjávarútvegur er mikilvægastur í atvinnulífi og ráðandi um afkomu, eru að mati flutningsmanna vel til þess fallnir að gegna þessu hlutverki:
—    Fjölbrautaskóli Suðurnesja í Keflavík starfar á atvinnusvæði yfir 15 þúsund íbúa þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla eru mikilvægustu atvinnugreinarnar. Við hann hafa um árabil verið starfræktar vélstjórnar- og veiðarfærabrautir er veita tiltekin réttindi til starfa og framhaldsnáms. Mætti miða við að þær verði hluti af kerfi nýrra námsbrauta í sjávarútvegsfræðum og að nýjar brautir veiti sambærileg réttindi hver á sínu sviði, til starfs og til framhaldsnáms. Skólinn hefur lagt drög að námsbraut í fiskiðn og getur orðið frumherji í þróun námsbrauta og námsefnis á þessu sviði.
—    Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi er öflugasti framhaldsskóli í landshluta sem byggir mjög á sjávarútvegi og getur átt mikla möguleika á fjölbreytni í nýtingu sjávarfangs af grunnslóð og djúpslóð.
—    Menntaskólinn á Ísafirði starfrækir námsbrautir í landshluta sem er viðkvæmur fyrir röskun á atvinnulífi og búsetu. Þar er eingöngu byggt á sjávarútvegi sem enn er háður viðgangi tiltölulega fárra fiskstofna. Því er mikilvægt að efla nám þar á þessu sviði er gæti leitt til aukinnar fjölbreytni í veiðum og vinnslu. Næstu byggingarframkvæmdir við skólann skapa honum nýja aðstöðu til verkmenntunar og henta vel nýjum námsbrautum.
—    Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki starfar í landshluta sem leggur aukna áherslu á sjávarútveg til að tryggja atvinnu og afkomu íbúanna. Hún kallar á námsframboð og skólastarfsemi á því sviði. Byggingarframkvæmdir, sem nú eru að hefjast við skólann, munu skapa honum færi á að rýma nokkurt húsnæði í verkmenntahúsi hans sem kemur að gagni við nýjar námsbrautir.
—    Verkmenntaskólinn á Akureyri nýtur nábýlis við Háskólann á Akureyri sem gegnir stærstu hlutverki í námsframboði á háskólastigi í sjávarútvegsfræðum og hefur þróað námsefni fyrir þau. Verkmenntaskólinn starfar þegar á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar með námsbraut í fiskiðn og skipstjórnarnámi og getur orðið frumherji í þróun námsbrauta og námsefnis á þessu sviði.
—    Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, í Nesjum, virðist vel staðsettur vegna nágrennis við Höfn í Hornafirði, umsvifamikinn og vaxandi útgerðarstað með fjölbreyttar veiðar og vinnslu.
—    Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum starfar í miklu nábýli við sjávarútveg í samfélagi er hefur litla aðra möguleika til atvinnu og tekjuöflunar. Þar eru stundaðar fjölbreyttar veiðar og margháttuð nýting sjávarfangs, allt frá frumverkun til fullvinnslu. Hugsanlegt er að sameina hann og Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og stofna þannig námsbraut á sviði sjávarútvegs sem þegar verður traust í sessi og grundvöllur að fleiri áföngum eða brautum er henni tengjast.
—    Á höfuðborgarsvæðinu starfa þegar sérskólar í sjávarútvegsnámi. Eðlilegt er að þeir fari áfram með sérnám á efstu stigum, t.d. fyrir hin meiri vélstjórnar- og skipstjórnarréttindi. Þá hafi þeir forustu um þróun námsefnis, hver á sínu sérsviði, hafi samstarf við rannsóknastofnanir atvinnuveganna, fylgist með nýjungum sem fram koma og veiti þeim brautargengi inn í námsefni og kynni þær atvinnulífinu. Ásamt sérskólunum virðist henta að einn hinna almennu framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu komi á fót námsbrautum á þessu sviði, samsvarandi þeim sem starfræktar verða í öðrum landshlutum. Ástæða virðist til að huga að sameiningu Fiskvinnsluskólans við Flensborgarskólann sem þá hefji starf slíkra námsbrauta.