Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 341 . mál.


696. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta landbúnaðarnefndar.



Inngangur.
    Samkomulag hefur orðið hjá fjórum fulltrúum stjórnarflokkanna um þær breytingartillögur á frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem koma fram á þskj. 672. Ástæða þykir til að gera nánari grein fyrir þeim breytingum í sérstöku áliti, enda er sumt sem kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta ekki í samræmi við efni frumvarpsins.

Dómur Hæstaréttar.
    Eins og frumvarp ríkisstjórnarinnar bar með sér var það flutt í kjölfar dóms Hæstaréttar 20. janúar sl. í Hagkaupsmálinu svokallaða. Dómurinn staðfesti það sem utanríkisráðherra hefur haldið fram að búvörulögin feli ekki í sér sjálfstæða heimild til þess að banna innflutning. Þetta þýðir að innflutningur á landbúnaðarvörum hefur í raun verið frjáls að mestu frá því haustið 1992 þegar innflutnings- og gjaldeyrislöggjöfinni var breytt.

Samkomulag stjórnarflokkanna.
    Samkomulag varð milli stjórnarflokkanna um að tryggja óbreytt ástand í innflutningi landbúnaðarvara til bráðabirgða fram að gildistöku nýs GATT-samnings sem tekur væntanlega gildi á næsta ári. Með breytingu á búvörulögunum í desember sl. hafði áður náðst samkomulag um að landbúnaðarráðherra væri heimilt að leggja verðjöfnunargjöld á innflutning landbúnaðarvara í samræmi við milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Jafnframt skyldi nefnd fulltrúa fimm ráðuneyta gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um breytingar á innflutningslöggjöfinni í samræmi við skuldbindingar GATT. Þetta er orðað svo í frumvarpi ríkisstjórnarinnar:
    „Gildistaka Úrúgvæsamnings GATT leiðir m.a. til kerfisbreytinga í innflutningsmálum landbúnaðarins. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa nefnd með fulltrúum fimm ráðuneyta til að endurskoða í heild ákvæði innflutningslöggjafar í því skyni að tryggja að hún verði í samræmi við skuldbindingar GATT.“
    Landbúnaðarráðherra útskýrði þetta svo þegar hann kynnti frumvarpið:
    „Við erum að tala um það að GATT-samningar gangi í gildi um næstu áramót, kannski á miðju næsta ári. Undirbúningur þeirrar löggjafar er auðvitað hafinn. Við erum þess vegna ekki með þessum lögum að skapa ástand sem á að vara til langs tíma heldur erum við að tala um skamman tíma.“
    Þessi orð landbúnaðarráðherra eru í samræmi við það sem hann sagði í desember sl. þegar hann kynnti búvörulagabreytinguna sem var gerð þá. Hann sagði m.a.:
    „Þar eð ekki liggur endanlega fyrir hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar til að geta uppfyllt þær skuldbindingar sem felast í væntanlegum GATT-samningi var ákveðið að frekari endurskoðun á innflutningsákvæðum búvörulaganna eigi sér stað á árinu 1994 með hliðsjón af þeim samningi.
     . . .
    Það má vera að háttvirtir þingmenn kunni að gagnrýna að frumvarpið skuli ekki taka á þeim atriðum sem lúta að væntanlegum GATT-samningi. Skýringin er auðvitað sú að þeir samningar í einstökum atriðum liggja ekki endanlega fyrir enda þurfa þeir meiri undirbúning en svo að unnt hafi verið að setja saman fullnægjandi lagagreinar um þau efni fyrir jólin.“
    Síðar sagði hann við sama tækifæri:
    „Það hefur verið mjög áberandi í þeim umræðum sem hér hafa farið fram að GATT hefur verið dregið inn í þær. Það kemur alveg skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu og líka í framsöguræðu minni að þessu frumvarpi er ekki ætlað að taka til þeirra samninga heldur verður unnið að samningu nýs lagafrumvarps með fyllri ákvæðum og heimildum jafnóðum og það skýrist hvernig GATT-samningarnir munu vera í einstökum atriðum. Auðvitað hlýtur slíkt frumvarp að vera afgreitt samtímis GATT-samningunum á Alþingi.“

Forsendur frumvarps ríkisstjórnarinnar.
    Það frumvarp, sem ríkisstjórnin lagði fram, er byggt á framangreindum forsendum, þ.e. óbreyttu innflutningsbanni, verðjöfnunargjöldum í samræmi við milliríkjasamninga og skipun nefndar til þess að endurskoða innflutningslöggjöfina vegna nýrra GATT-samninga.

Breytingar formanns landbúnaðarnefndar.
    
Þær breytingar, sem formaður nefndarinnar, lagði upphaflega til gengu þvert á samkomulag stjórnarflokkanna. Þar má nefna sem dæmi að reynt var að miða gjaldaheimildir landbúnaðarráðherra við aðstæður eftir gildistöku GATT-Úrúgvæsamningsins sem á eftir að útfæra nánar; gjaldaheimildir skyldu miðast við GATT-hámarkstolla, þ.e. að lagðir skyldu á tollar auk verðjöfnunar; sett var inn í drögin ákvæði um 50% „jöfnunarálag“; reynt var að skilgreina hugtakið landbúnaðarvörur rúmt þótt samkomulag hafi orðið um að notast við upptalningu á tollskrárnúmerum. Loks var bætt inn nýjum hugtökum eins og „tilsvarandi vörum“ sem einnig útvíkkuðu heimildir landbúnaðarráðherra til gjaldtöku af öllum hugsanlegum vörum sem gætu komið í stað landbúnaðarvara þótt þær innihéldu engin landbúnaðarhráefni.
    Það eru að sjálfsögðu ekki eðlileg vinnubrögð hjá stjórnarþingmanni að leggja til breytingar á stjórnarfrumvarpi án þess að eiga samráð við þá aðila sem hlut eiga að máli. Því síður er eðlilegt að gera slíkar breytingartillögur án þess að tryggja að þær séu í samræmi við það samkomulag sem stjórnarflokkarnir gerðu sín á milli og að skoða þá fjölmörgu milliríkjasamninga sem málið varðaði.
    Alþýðuflokkurinn lýsti sig hins vegar strax reiðubúinn að gera tæknilegar breytingar á frumvarpinu svo framarlega sem efni þess væri ekki breytt. Enda hefur hann ætíð verið reiðubúinn að standa við samkomulag sem hann hefur gert.

Sérfræðingavinna hefst.
    Eftir að tillögur formanns nefndarinnar voru lagðar fram fóru sérfræðingar fjármálaráðuneytisins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins yfir þær og í kjölfarið voru gerðar fjölmargar leiðréttingar. Kjartan Jóhannsson, sendiherra Íslands í Genf, var kallaður heim og sýndi hann fram á að þær væru í ósamræmi við GATT og milliríkjasamninga Íslands. Hann gerði m.a. skýran greinarmun á verðjöfnunargjöldum annars vegar sem eru lögð á iðnaðarvörur til þess að jafna samkeppnisstöðu með tilliti til mismunandi verðs á landbúnaðarhráefnum og tollum hins vegar sem eru lagðir á almennan innflutning og má beita til þess að vernda innlenda framleiðslu.

Breytingar gerðar.
    Hér skulu nefndar nokkrar þær breytingar sem voru gerðar á upphaflegum breytingartillögum formanns landbúnaðarnefndar eftir útskýringar sérfræðinganna:
    Hugtakið „tilsvarandi vörur“ var fellt niður.
    Skilgreining á hugtakinu „landbúnaðarvörur“ var felld niður.
    Verðjöfnun á unnum vörum var látin miðast við hráefnisþáttinn.
    Tekið var fram að verðjöfnunargjöld skyldu eingöngu lögð á vegna hráefna sem eru framleidd á Íslandi.
    50% jöfnunarálag var fellt niður.
    Gjaldaheimildir upp að GATT-bindingum voru felldar niður og komið var í veg fyrir gjaldaálagningu upp fyrir innanlandsverð.
    Viðaukanum var skipt í tvennt í samræmi við upphaflega tillögu Alþýðuflokksins og fjöldi vöruflokka var strikaður út.
    Hugtakið „heimsmarkaðsverð“ var skilgreint.
    Landbúnaðarráðherra var gert skylt að birta viðmiðunarverð.
    Kveðið var á um að álagning verðjöfnunargjalda skyldi vera í samræmi við skilmála milliríkjasamninga.
    Sjá nánar upphaflegar breytingartillögur formanns landbúnaðarnefndar í fylgiskjali.

Niðurstaða.
    
Niðurstaðan í máli þessu er sú að upprunalegt samkomulag stjórnarflokkanna stendur óbreytt. Landbúnaðarráðherra er heimilt að stöðva innflutning landbúnaðarvara, sem hefur ekki verið leyfður hingað til, fram að gildistöku nýs GATT-samnings að svo miklu leyti sem milliríkjasamningar leyfa. Honum er heimilt að leggja verðjöfnunargjöld á þær vörur ef til innflutnings kemur fram að þeim tíma. Honum er einnig heimilt að leggja verðjöfnunargjöld á innflutning samkvæmt fríverslunarsamningum að svo miklu leyti sem þær vörur eru tilgreindar í viðaukum með frumvarpinu.
    
Mat á áhrifum frumvarpsins á vöruverð.
    
Þegar reynt er að meta áhrif frumvarpsins á vöruverð er rétt að gera greinarmun á því hvort verðjöfnunargjöld eru lögð á hreinar landbúnaðarvörur eða unnar/samsettar vörur.
    Hreinar landbúnaðarvörur eru t.d. óunnið kjöt, mjólk, smjör og nýtt grænmeti. Frumvarpið heimilar að leggja gjöld á þessar vörur sem nemur mismuninum á heimsmarkaðsverði og innanlandsverði. Samkvæmt núgildandi GATT-samningi eru engin hámarksgjöld á framangreindum vörum þannig að þau geta verið mörg hundruð prósent, jafnvel mörg þúsund prósent, ef munurinn er nægilega mikill á milli heimsmarkaðsverðs og innanlandsverðs og heimildum er að fullu beitt. Með tilkomu hins nýja GATT-samnings, sem tekur gildi eftir áramót, er sett hámark á þessa tolla . Í prósentum talið geta þeir mest orðið 397% á kindakjöti, 538% á svínakjöti, 467% á kjúklingum, 586% á mjólk, 674% á smjöri, 445% á kartöflum, 240% á tómötum, 377% á gulrótum og 719% á selleríi, svo að dæmi séu tekin. Ef miðað er við krónutölu á kíló gætu þessar prósentutölur orðið enn hærri. Það er til marks um hversu ótæpilegar þessar hámarkstollaheimildir eru að hæstu rauntollar á matvöru í núgildandi tollskrá eru 30%. Verður að vona að svo rúmar skattlagningarheimildir til handa ráðherra fái samrýmst þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem við eiga.
    Ef fluttar eru inn unnar vörur eða samsettar vörur má leggja á þær verðjöfnunargjöld í hlutfalli við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra. Upphæð gjaldanna takmarkast við muninn á lægsta verði innan EES-svæðisins og innanlandsverði ef um er að ræða vörur sem falla undir bókun 3 við EES-samninginn. Sú bókun tekur væntanlega gildi um mitt þetta ár. Ef hinar unnu vörur falla ekki undir bókun 3 má hins vegar verðjafna allt niður í heimsmarkaðsverð viðkomandi hráefnis sem er jafnan lægra en lægsta EES-verð.
    Af framangreindum dæmum sést að frumvarp þetta veitir landbúnaðarráðherra allverulegar heimildir til gjaldtöku á innfluttar landbúnaðarvörur og vörur unnar úr þeim. Nauðsynlegt er að marka stefnu á næstu vikum og mánuðum um hvernig þessar heimildir verða nýttar, enda er það sjálfsögð krafa af hálfu framleiðenda landbúnaðarvara að stjórnvöld kynni það með fyrirvara hvernig þessum málum verði háttað.

Framtíðarskipan eftir gildistöku nýs GATT-samnings.
    Nefnd fimm ráðuneyta mun gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um útfærslu á ýmsum álitamálum sem koma upp við framkvæmd GATT-samningsins. Nefndin mun endurskoða innflutningslöggjöfina í heild, m.a. ákvæði búvörulaga og tollalaga. Í því sambandi verður m.a. að hafa í huga þau markmið GATT-samningsins að innflutningsgjöld verði að vera sýnileg, fastákveðin og fyrirsjáanleg.
    Þau álitaefni eru bæði mörg og flókin sem verður að taka afstöðu til áður en innflutningur getur hafist samkvæmt þeim samningi, m.a. útdeilingar tollkvóta á grundvelli svokallaðs lágmarksmarkaðsaðgangs, óbreytts markaðsaðgangs o.fl. Þessi atriði munu hljóta nánari umfjöllun þegar GATT-Úrúgvæsamningurinn verður lagður fyrir Alþingi. Samningurinn hefur enn ekki verið undirritaður og er margt enn óljóst varðandi það hvernig hann verður framkvæmdur.

Nánar um efni frumvarpsins.
    
Skal nú farið nokkrum orðum um hvað felst í frumvarpinu eins og það lítur út miðað við breytingartillögur fjögurra fulltrúa stjórnarflokkanna. Neðangreindar athugasemdir byggjast að verulegu leyti á skýringum sérfræðinga fjármálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.
    Breytingarnar, sem fjórir fulltrúar stjórnarflokkanna hafa orðið sammála um, miða að því að gera greinarmun á tveimur tegundum landbúnaðarvara, annars vegar svokölluðum bannlistavörum, í viðauka I, og hins vegar vörum sem ekki eru háðar innflutningsleyfum en heimilt er að verðjafna fyrir, í viðauka II.
     Um 52. gr. Samkvæmt núgildandi 1. mgr. 72. gr. þarf ekki að leita álits Framleiðsluráðs landbúnaðarins varðandi innflutning samkvæmt milliríkjasamningum. Telja verður að nýtt orðalag 52. gr. breyti þessu ekki vegna heimildar landbúnaðarráðherra til þess að ákveða að innflutningur skuli tímabundið vera frjáls. Landbúnaðarráðherra gæti uppfyllt samningsskuldbindingar Íslands með því að ákveða í reglugerð að innflutningur sam-kvæmt fríverslunarsamningum skuli vera frjáls og þannig ekki háður umsögn Framleiðsluráðsins.
     Um 4. mgr. 53. gr. Þetta ákvæði leiðir til hliðstæðrar niðurstöðu og að framan, þ.e. ekki þurfi meðmæli nefndar skv. 53. gr. til þess að uppfylla skuldbindingar milliríkjasamninga.
    Tekið skal fram að þótt í orðalagi 52. og 53. gr. búvörulaga felist að landbúnaðarráðherra geti leyft innflutning á þar til greindum vörum verður að líta svo á að honum sé það skylt ef um er að ræða vörur sem heyra undir fríverslunarsamninga. Ákvæði 6. gr. tollalaga hafa verið skilin á sama veg. Þar segir að ráðherra sé heimilt að láta koma til framkvæmda ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Litið hefur verið svo á að honum sé skylt að fella niður tolla og að öðru leyti fara eftir milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
     Um 72. gr. Skýrt er tekið fram að heimild landbúnaðarráðherra til álagningar verðjöfnunargjalda er bundin við vörur í viðauka I og II. Heimildin takmarkast við að jafna megi samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara með tilliti til verðs á hráefnum sem þýðir að verðjöfnunargjöldin ættu ekki að leiða til þess að innflutningur verði dýrari en innlendar vörur.
    Varðandi t.d. grænmeti gæti landbúnaðarráðherra lagt gjöld yfir sumarið á innflutta tómata sem mundu jafna verð þeirra og innanlandsverð, að teknu tilliti til 30% tolls sem nú er á grænmeti. Verðjöfnunargjöldin mættu ekki hækka verð tómatanna upp fyrir innanlandsverðið.
    Heimildir landbúnaðarráðherra til þess að leggja á verðjöfnunargjöld ná ekki til allra vara í viðaukum I og II heldur eingöngu þeirra sem jafnframt eru framleiddar hér á landi. Þessa niðurstöðu leiðir einnig af hugtakinu „verðjöfnunargjöld“, en í því felst að jafna megi verðmun á innfluttum vörum sem jafnframt eru framleiddar innan lands. Ekki er því heimilt að beita verðjöfnunargjöldum á vörur sem eru ekki framleiddar hér á landi, t.d. erlendar grænmetistegundir. Ekki væri heldur eðlilegt að beita verðjöfnunargjöldum á grænmetistegundir sem hér eru framleiddar á þeim árstímum sem þær eru ekki á markaðnum. Ef um unnar eða samsettar vörur er að ræða mætti ekki beita verðjöfnunargjöldum á hráefni sem eru ekki framleidd hér á landi, t.d. jurtaolíur í smjörlíki.
    Þær heimildir til handa landbúnaðarráðherra til álagningar verðjöfnunargjalda á unnar landbúnaðarvörur, sem falla undir fríverslunarsamninga og útfærðar eru í breytingartillögum fjögurra fulltrúa stjórnarflokkanna við frumvarp þetta, höfðu áður verið veittar fjármálaráðherra með breytingu á tollalögum, sbr. lög nr. 18/1993, þ.e. í 120. gr. A. Þessar sömu heimildir fjármálaráðherra eru nú felldar niður með því ákvæði sem verður 9. mgr. 72. gr. búvörulaga. Flokka má þetta undir lagalega snyrtimennsku. Á sama hátt hefði verið snyrtilegra að fella niður heimild landbúnaðarráðherra til þess að leggja jöfnunargjald á innfluttar kartöflur og vörur unnar úr þeim skv. d-lið 30. gr. búvörulaga vegna þess að með frumvarpinu yrði sú heimild orðin tvöföld. Væntanlega verður þessu atriði kippt í liðinn við næstu breytingu á búvörulögum.

Athugasemdir við nefndarálit 1. minni hluta.
    Ástæða þykir til að gera nokkrar athugasemdir við álit 1. minni hluta þar sem ýmislegt sem þar kemur fram er ýmist byggt á misskilningi eða er ekki í samræmi við efni frumvarpsins. Við slíkar aðstæður er álitið til þess fallið að ala á réttaróvissu og gæti orðið hvati að óþarfa málshöfðunum.

Þrenging heimilda landbúnaðarráðherra.
    Í nefndaráliti 1. minni hluta segir:
    „Sú breyting, sem frumvarpið [ríkisstjórnarinnar] gerir ráð fyrir að verði á 52. gr. búvörulaganna frá því viðhorfi sem uppi var á Alþingi við setningu laga nr. 126/1993 í desember sl. varðandi heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum, yrði til að þrengja verðjöfnunargjaldaheimild landbúnaðarráðherra.“
    Hér er um misskilning að ræða. Við setningu laga nr. 126/1993 var gengið út frá því að landbúnaðarráðherra gæti lagt verðjöfnunargjöld á landbúnaðarvörur sem fluttar yrðu inn í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Ekki stóð til að hann legði á nein önnur gjöld vegna þess að ekki stóð til að opna fyrir innflutning á landbúnaðarvörum sem hafði ekki mátt flytja inn. Enda var 52. gr. búvörulaga ekki breytt, en hún kveður á um að innflutningur landbúnaðarvara skuli því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni innan lands.
    Þær landbúnaðarvörur, sem mátti ekki flytja inn, voru skilgreindar í auglýsingu viðskiptaráðherra um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, nr. 313/1990, sem byggðist á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Þessi sami vörulisti skilgreindi jafnframt hvaða vörur landbúnaðarráðherra mætti leggja á verðjöfnunargjöld ef til innflutnings hefði komið fyrir gildistöku nýja GATT-samningsins, þ.e. landbúnaðarráðherra hefði getað lagt verðjöfnunargjöld á þessar bannlistavörur og vörur sem fluttar voru inn samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamninga en engar aðrar.
    Aldrei stóð til að veita landbúnaðarráðherra heimild til að leggja gjöld á allar landbúnaðarvörur og vörur unnar úr þeim, enda hefði slík ákvörðun kallað á mun meiri umfjöllun, skoðun á því hvort svo víðtækar skattlagningarheimildir stæðust stjórnarskrá, áhrif á vöruverð í landinu o.s.frv. Þess vegna er ekki rétt sem segir í áliti 1. minni hluta að það hafi verið „markmið setningar laga nr. 126/1993 í desember sl. að fela landbúnaðarráðherra að fara alfarið með álagningu verðjöfnunargjalda á innfluttar landbúnaðarvörur.“ Það er heldur ekki rétt að frumvarp ríkisstjórnarinnar hafi þrengt verðjöfnunargjaldaheimildir landbúnaðarráðherra. Mikil vinna var lögð í að tryggja að í viðaukanum við lögin yrðu allar þær vörur sem landbúnaðarráðherra mundi hugsanlega vilja leggja verðjöfnunargjöld á. Landbúnaðarráðherra hefur reyndar viðurkennt að listinn sé tæmandi.
    Við þetta má bæta að stjórnarflokkarnir gerðu með sér pólitískt samkomulag sl. haust, þegar gengið var frá GATT-tilboði Íslands í landbúnaðarmálum, um að engin innflutningsgjöld yrðu lögð á innfluttar landbúnaðarvörur sem voru þá í frjálsum innflutningi.
    Loks verður að hafa í huga í þessu sambandi að í nýja GATT-samningnum eru ákvæði sem er ætlað að tryggja óbreyttan markaðsaðgang („current access“) miðað við tímabilið 1986–1988. Í þeim tilfellum þegar GATT-hámarkstollarnir hafa verið hækkaðir við það að innflutningstakmarkanir hafa verið umreiknaðar í tolla verður að heimila innflutning á sama magni og var á viðmiðunarárunum og á sömu kjörum og þá. T.d. ef flutt voru inn að meðaltali 10 tonn árlega af tómötum með 30% tolli á viðmiðunarárunum mættu innflutningsgjöld ekki fara upp fyrir það á fyrstu 10 tonnunum sem flutt eru inn árlega eftir gildistöku nýja GATT-samningsins.
    Í nefndaráliti 1. minni hluta segir enn fremur að breytingartillögur hans feli „ekki í sér efnislega breytingu á því forræði landbúnaðarráðherra á verðjöfnunargjöldum á innfluttar landbúnaðarvörur sem á var byggt við breytingu á búvörulögunum í desember sl.“ Þetta er einnig rangt með vísan til þess sem að framan segir. Einnig skal bent á að bætt hefur verið vörum í viðauka II sem hafa verið í frjálsum innflutningi hingað til og ekki falla undir fríverslunarsamninga.

Heimilar GATT innflutningsbann?
    Nefndarálit 1. minni hluta vísar til c-liðar 2. mgr. 11. gr. GATT sem heimilar innflutningstakmarkanir í vissum tilvikum. Orðalag greinarinnar er fremur torskilið, en hugsunin er í stuttu máli þessi:
     Í fyrsta lagi er ekki heimilt að takmarka innflutning nema einnig séu takmarkanir á innlendri framleiðslu. Þessi regla er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir notkun magnkvóta í venjulegum verndartilgangi. Í öðru lagi verður innlenda framleiðslan að vera takmörkuð að svipuðu marki og innflutningurinn. Þetta skilyrði, sem tengist fyrra skilyrðinu, er nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir að lönd beiti innflutningstakmörkunum til þess að auka innlenda framleiðslu með því að skera niður innflutning. Loks verður að tilkynna með opinberum hætti hvaða innflutningur verður leyfður og það ríki sem beitir takmörkuninni verður að eiga samráð við önnur aðildarríki sem kvarta yfir því að takmörkunin uppfylli ekki þau skilyrði sem lýst er að framan. (The Geneva Charter for an International Trade Organization, Dep't of State Pub. No. 2950, bls. 6 (1947).)
    Þetta þýðir að núgildandi GATT-samningur setur ströng skilyrði fyrir því að beita megi innflutningstakmörkunum á landbúnaðarvörur. Ísland var undanþegið þessari samningsskuldbindingu með ákvæði í bókun um aðild sína að GATT (svokölluðu „afaákvæði“ eða „grandfather clause“). Þar segir að Ísland skuli beita II. hluta samningsins (þar á meðal framangreindri 11. gr.) að svo miklu leyti sem hann er ekki í ósamræmi við lagaákvæði í gildi við dagsetningu bókunarinnar (þ.e. 30. júní 1967). Á þeim tíma var innflutningur á flestum landbúnaðarvörum bannaður með reglugerð nr. 3/1967, sbr. lög nr. 30/1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála.
    Framangreind undanþága féll niður 23. nóvember 1992 með gildistöku laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Þau felldu úr gildi lög um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, nr. 63/1979, sem komu í stað fyrrnefndra laga nr. 30/1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála. Ekki er heimilt samkvæmt GATT að endurvekja innflutningstakmarkanir sem hafa verið felldar niður.
    Samkvæmt þessu er eingöngu heimilt samkvæmt núgildandi GATT-samningi að takmarka innflutning á landbúnaðarvörum sem eru háðar framleiðslustýringu, þ.e. hrárri mjólk og kindakjöti. Ekki er heimilt að takmarka innflutning á öðrum mjólkurvörum en mjólk eða öðru kjöti en kindakjöti. Fjölmargir GATT-úrskurðir hafa fallið sem skýra þetta nánar. Nægir að nefnda deilu Bandaríkjanna við Kanada varðandi innflutningstakmarkanir á ís og jógúrt. GATT-panelúrskurður féll í málinu í október 1989. Málið snerist um það að Kanada beitti innflutningstakmörkunum á jógúrt og ís. Kanada bar m.a. fyrir sig að takmarkanirnar réttlættust af 2. mgr. 11. gr. GATT vegna þess að framleiðslustýring væri á mjólk. Kanada hélt því fram að innflutningur á ís og jógúrt drægi úr neyslu á innlendum ís og jógúrt. Þar með skapaðist hætta á offramleiðslu á mjólk sem torveldaði framleiðslustýringu hennar. Kanada taldi að jógúrt og ís væri í raun mjólk í öðru formi. Framleiðslustýring á mjólk feli þar með í sér einnig framleiðslustýringu á jógúrt og ís. Þessu hafnaði GATT-panellinn sem taldi að jógúrt og ís væru hvorki tilsvarandi vörur eða vörur sem geti beint komið í staðinn fyrir kanadíska mjólk í skilningi 11. gr. GATT. Innflutningstakmarkanir Kanada á ís og jógúrt voru því taldar samningsbrot.
    Framangreindur úrskurður hefur beina þýðingu fyrir aðstæður hér á landi. Hann staðfestir það að landbúnaðarráðherra væri óheimilt að takmarka innflutning á öðrum landbúnaðarvörum en mjólk og kindakjöti. Annað væri brot á núverandi skuldbindingum GATT.
    Alþýðuflokkurinn hefði kosið að fara aðra leið að sama marki sem ekki bryti í bága við núgildandi GATT-samning. Sú leið er fær að hækka tolla hæfilega mikið til bráðabirgða á þeim vörum sem hafa verið bannaðar hingað til fram að gildistöku nýja GATT-samningsins. Flestar þessar vörur eru ekki háðar GATT-hámarkstollum. Ekki náðist hins vegar samkomulag um að beita þessari aðferð heldur varð niðurstaðan að stöðva innflutninginn til bráðabirgða með leyfisveitingarvaldi til handa landbúnaðarráðherra.
    Alþýðuflokkurinn benti á að þessi aðferð skapaði í raun fleiri vandamál en hún leysti. Taka má sem dæmi kjúklingasendinguna sem nú stendur á hafnarbakkanum í Reykjavík. Kanadamenn hafa spurst fyrir um þetta mál á fundi í Genf nýlega þegar viðskiptastefna Íslands gagnvart GATT-samningnum var í fyrsta sinn til skoðunar. Íslensk stjórnvöld fullyrtu að sendingin yrði afgreidd þegar viðeigandi heilbrigðisvottorð hefðu verið lögð fram. Þau héldu því ekki fram að innflutningsbann væri fyrir hendi, enda hefur það verið afnumið. Spyrja má hvernig Kanadamenn bregðist við ef landbúnaðarráðherra beitir þeim heimildum sem hann fær með því frumvarpi sem nú er lagt fram til þess að stöðva þennan innflutning. Lítil von er til þess að Kanadamenn láti þetta mál gleymast, enda hafa þeir nú sent viðskiptafulltrúa sinn í Ósló til Íslands til þess að spyrjast fyrir um gang málsins.
    Ísland flutti út sjávarafurðir fyrir 150 millj. kr. til Kanada árið 1992, landbúnaðarvörur fyrir 9 millj. kr. og iðnaðarvörur fyrir 140 millj. kr. Kanada er okkar tuttugasti mikilvægasti útflutningsmarkaður þannig að það gæti reynst dýrkeypt ef ekki verður staðið við GATT-samninginn í þessu tilfelli. Það er ekki síður mikilvægt að stilla gjaldtöku í hóf á útflutningsvörum Kanada til Íslands eins og frönskum kartöflum, sem nú eru 90%, ef það getur orðið til þess að auðvelda útflutning á verðmætri vöru eins og á tölvuvogum frá fyrirtækinu Marel. Sem kunnugt er hafði landbúnaðarráðherra notað heimildir í 30. gr. búvörulaga sem heimilar gjaldtöku á kartöflur upp að 200% til þess að leggja 120% gjald m.a. á franskar kartöflur. Gjaldtaka þessi var í andstöðu við núverandi GATT-samningsskuldbindingar og voru því lækkaðar í 90% eftir kvörtun frá Kanada. Þetta dæmi sýnir hversu varhugavert það er að atvinnuvegaráðuneytin sjálf fari með innflutningsgjöld á vörur sem falla undir þeirra svið. Enginn skyldi dæma í eigin sök.
    Tekið skal fram að það heyrir til undantekningartilfella að landbúnaðarráðuneytin fari með verðjöfnunargjaldaheimildir í nágrannalöndunum. Að vísu er það svo í Noregi og Svíþjóð, en í Sviss er það utanríkisviðskiptaráðuneytið. Í flestum öðrum löndum eru það fjármálaráðuneytin, m.a. í Austurríki, Finnlandi og, fram til þessa, á Íslandi.
    Það að færa atvinnuvegaráðuneytunum innflutningsgjaldaheimildir býður tvöfaldri hættu heim, að hagsmunum í utanríkisviðskiptum verði stefnt í hættu og að hagsmunir neytenda verði fyrir borð bornir. Mun skynsamlegra er að slíkar heimildir séu á annarri hendi, t.d. hjá því ráðuneyti sem fer með útflutningsmál. Þannig væri best tryggt að haftasjónarmiðum verði haldið í skefjum og að útflutningshagsmunir verði settir öðrum framar, enda er aukinn útflutningur eina vonin til þess að bæta lífskjör á Íslandi á næstu árum.

Takmörkun á innflutningsvaldi Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
    Með breytingartillögum fjögurra fulltrúa stjórnarflokkanna er lagt til að vald Framleiðsluráðs landbúnaðarins til þess að stöðva matvælainnflutning til landsins á vörum, sem innlend framleiðsla fullnægir eftirspurn á, skuli afnumið (vald Framleiðsluráðs er bundið því skilyrði að önnur lög en búvörulög banni innflutning á landbúnaðarvörum, sbr. dóminn í Hagkaupsmálinu sem áður er nefndur). Í staðinn fái Framleiðsluráð umsagnarrétt um innflutning tilgreindra landbúnaðarvara. Sérstök ástæða er til þess að fagna þessari niðurstöðu því að hún er í samræmi við þá stefnu sem Bjarni Benediktsson barðist fyrir í þessu máli árið 1956. Í frumvarpi til laga nr. 40/1956 stóð að leita þyrfti „samþykkis“ Framleiðsluráðs fyrir innflutningi landbúnaðarvara. Því var breytt í meðförum þingsins í að leita skyldi „álits og tillagna Framleiðsluráðs“. Um þetta sagði Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, m.a.:
    „En í ljós kom, að það synjunarvald á innflutningi og útflutningi allra landbúnaðarafurða, einnig annarra en grænmetisafurða, sem í frumvarpsgreininni er fengið þeirri stofnun, sem hér um ræðir, er algerlega nýtt. Slík heimild hefur ekki áður verið í lögum, og ég og nokkrir fleiri þingmenn deildarinnar vorum ákveðnir í því, að ef þessu ákvæði fengist ekki breytt, þá mundum við ekki treysta okkur til þess að fylgja frumvarpinu. Nú hefur málum svo skipast, að landbúnaðarnefnd með þessa vitneskju í huga hefur orðið sammála um að færa greinina í það horf, sem ég tel aðgengilegt, að Framleiðsluráð hafi hér umsagnarrétt. Það er mjög eðlilegt, að fulltrúar bændanna eigi rétt á því að láta uppi sitt álit um þetta. Hitt gat ekki komið til mála, að fela þeim úrslitaákvörðunarvaldið í svo víðtæku málefni.
    Eins og kunnugt er urðu sjónarmið Bjarna Benediktssonar undir árið 1985 þegar núverandi ákvæði um vald Framleiðsluráðs landbúnaðarins var sett í búvörulög.

Umfang gjaldaheimilda landbúnaðarráðherra.
    Í nefndaráliti 1. minni hluta er ítrekað að við samþykkt búvörulagabreytingarinnar í desember sl. hafi verið gengið út frá því að landbúnaðarráðherra fengi vald til að leggja verðjöfnunargjöld á allar landbúnaðarvörur. Jafnframt segir að ekkert hámark hafi verið sett á þessar skattlagningarheimildir. Þetta er rangt með vísan til þess sem fyrr segir um þetta mál. Með nefndarálitinu er gefið í skyn að greinargerðir, nefndarálit og þingræður skipti nánast ekki máli varðandi túlkun laga nr. 126/1993 og eru það nýstárlegar lögfræðikenningar. Orðrétt segir: „Var við það miðað að landbúnaðarráðherra fengi með þeim lögum vald til að leggja verðjöfnunargjöld á allar innfluttar landbúnaðarvörur. Deilan um hvort lög nr. 126/1993 hafi átt að ná til Úrúgvæsamnings GATT hefur ekki snúist um þetta atriði, heldur hvort ákvæði laganna um ákvörðun um fjárhæð gjaldanna hafi einnig átt að ná til þeirra sérstöku heimilda sem veittar verða með hinum væntanlega GATT-samningi vegna umreiknings innflutningstakmarkana yfir í heimildir til álagningar gjalda á innfluttar landbúnaðarvörur. Hvað sem líður ummælum í greinargerðum, nefndarálitum og í þingræðum við afgreiðslu þeirra laga er ljóst að texti laga nr. 126/1993 takmarkar ekki heimild landbúnaðarráðherra að þessu leyti.“ Þessi fullyrðing stenst ekki. Gjaldaheimildir landbúnaðarráðherra eru skýrt afmarkaðar í milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Alþingi hefur samþykkt alla þessa samninga. Ekki stóð til að beita verðjöfnunarheimildum fram að gildistöku GATT varðandi aðrar landbúnaðarvörur, en ef á það hefði reynt takmörkuðust gjöldin við „verðjöfnunargjöld til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara í samræmi við 3. mgr. 72. gr.“. Skattlagningarheimildir ber ætíð að túlka þröngt. Í þessu orðalagi felst að ekki er heimilt að leggja gjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem mundi gera þær dýrari en innlendar.
    Ef fullum gjaldaheimildum væri beitt samkvæmt nýja GATT-samningnum væri einmitt hætta á því að innlenda framleiðslan nyti verndar vegna þess að nýju GATT-hámarkstollarnir taka mið af 6–9 ára gömlu verði, þ.e. þegar innflutningsverndin var meiri en hún er nú.

Tilsvarandi vörur.
    Í nefndaráliti 1. minni hluta segir:
    „Við val á vörum, sem taldar eru upp í viðaukunum, hefur verið fylgt því sjónarmiði að um sé að ræða samkeppnisvörur íslensks landbúnaðar hvort sem viðkomandi landbúnaðarhráefni er framleitt hér á landi eða ekki. Er þá byggt á mati á því í hvaða tilvikum íslenskur landbúnaður þarfnist samkeppnisjöfnunar af því tagi sem verðjöfnunargjöld geta veitt.“
    Framangreind lýsing er í senn röng og villandi. Hún er röng vegna þess að vörurnar, sem eru í viðaukum I og II, miðast ekki sérstaklega við samkeppnisvörur íslensks landbúnaðar. Þar eru fyrst og fremst bannlistavörur, þ.e. vörur sem bannaður var innflutningur á, og vissar unnar/samsettar vörur sem fríverslunarsamningar heimila að lögð verði verðjöfnunargjöld á, fyrst og fremst vörur sem innihalda kjöt, egg, ost, mjólkurduft, mjólkurfitu eða kartöflur. Þetta eru hráefnin sem hingað til hefur verið verðjafnað fyrir og koma fram í bókun 3 við EES-samninginn. Ekki hefur staðið til að fjölga þeim hráefnistegundum sem verðjafnað hefur verið fyrir hingað til. Annað væri brot á pólitísku samkomulagi stjórnarflokkanna sem áður er lýst.
    Framangreind lýsing 1. minni hluta er enn fremur villandi vegna þess að samkvæmt frumvarpinu er eingöngu hægt að verðjafna fyrir landbúnaðarhráefni sem jafnframt eru framleidd hér á landi. Skýrt er tekið fram í 1. mgr. 72. gr. að þetta sé eitt skilyrði verðjöfnunar. Þar að auki væri ekki um verðjöfnun að ræða nema viðkomandi hráefni væri framleitt hér á landi heldur verndartolla á samkeppnisvörur. Aldrei hefur staðið til að veita slíkar heimildir.

Undirverð.
    Í tölul. 2.4 í 3. mgr. 72. gr. segir að komi í ljós að framleiðendur vöru eigi kost á að kaupa hráefni á lægra verði en birtu viðmiðunarverði í að minnsta kosti þrjá mánuði sé ráðherra heimilt að ákveða tímabundið að miða við það verð. Þetta ákvæði verður ekki túlkað öðruvísi en svo að ef innflutningur á sér stað á lægra verði en heimsmarkaðsverði megi ekki breyta viðmiðunarverðinu til samræmis fyrr en eftir þrjá mánuði, að því tilskildu að innflutningurinn haldi áfram undir skráðu heimsmarkaðsverði. Ekki er nægilegt, eins og kemur fram í áliti 1. minni hluta, að talið sé fyrirsjáanlegt að innflutningur haldi áfram á undirverði í þrjá mánuði og megi þess vegna breyta viðmiðunarverði strax.

Heimildir eftir gildistöku nýs GATT-samnings.
    Formaður landbúnaðarnefndar telur að heimildir til álagningar verðjöfnunargjalda eigi að haldast eftir gildistöku GATT-Úrúgvæsamningsins. Með öllu er óvíst að þetta gangi upp. Upplýsingar liggja ekki fyrir um það að hve miklu leyti megi beita breytilegum gjöldum eftir gildistöku nýs GATT-samnings. Svo virðist sem heimilt verði að beita verðjöfnunargjöldum á unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni innan fríverslunarsamninga, en ekki liggur fyrir hvort beita megi breytilegum gjöldum á hreinar landbúnaðarvörur almennt eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Að þessu leyti er óheppilegt að ekki náðist samkomulag um að gera skýran greinarmun þar á milli eins og eðlilegt hefði verið, þ.e. annars vegar á eiginlegum verðjöfnunargjöldum sem leggjast á framleiðsluvörur sem innihalda landbúnaðarhráefni og hins vegar á breytilegum tollum sem leggjast á hreinar landbúnaðarvörur. Ástæðan er sú að heldur óheppilegt orðalag var notað í lagabreytingunni sem var gerð á búvörulögum sl. desember og var talið rétt að halda því.
    Ekki liggur heldur ljóst fyrir hvort þær rúmu gjaldaheimildir, sem landbúnaðarráðherra er fengið með frumvarpi þessu, standist ákvæði stjórnarskrárinnar, einkum ef þeim er beitt eftir gildistöku hins nýja GATT-samnings. Ekki er ólíklegt að heimildin til álagningar verðjöfnunargjalda á landbúnaðarhráefni í unnum/samsettum vörum sé innan leyfilegra marka, enda oftast um tiltölulega litlar fjárhæðir að ræða, t.d. þau gjöld sem leggjast á 10% kjötinnihald í pítsum. Þegar beita á þessum sömu verðjöfnunargjöldum á hreinar landbúnaðarvörur gegnir hins vegar öðru máli. Ef gjöldin eru tiltölulega lág, t.d. innan hæstu marka samkvæmt núgildandi tollskrá, sem eru 30% á matvæli, gæti það verið í lagi. En verðjöfnunargjaldaheimildir frumvarpsins hlaupa á mörgum hundruðum prósenta og geta farið yfir 1.000%. Spurning er hvort svo rúmt framsal á skattlagningarvaldi standist stjórnarskrána.
    Væntanlega mun ekki á þetta reyna þar sem þessi skipan er ætluð til bráðabirgða og nefnd skipuð fulltrúum fimm ráðuneyta mun hafa það verkefni hvernig málum verði tryggilega fyrir komið eftir gildistöku GATT-Úrúgvæsamningsins á næsta ári.
    Benda má á eftirfarandi hæstaréttardóma í þessu sambandi:
    Í svokölluðu kjarnfóðurgjaldsmáli (Hrd. 1985:1544) var deilt um lögmæti álagningar innflutningsgjalds af erlendu kjarnfóðri og reyndi þar m.a. á 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.“ Í dóminum segir m.a.:
    „Kjarnfóðurgjald þetta verður að teljast skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrárinnar. Með því að ákveða skattlagningarprósentuna svo háa sem raun er á, allt að 200% af innkaupsverði vörunnar, en heimila jafnframt endurgreiðslu gjaldsins að hluta „eftir reglum sem Framleiðsluráð ákveður“ var skattlagningarvaldið í reynd hjá Framleiðsluráði. Slíkt framsal skattlagningarvalds Alþingis til óæðra stjórnvalds, sem þar að auki er skipað með þeim hætti, sem lýst er í héraðsdómi [fulltrúum Stéttarsambands bænda], brýtur í bága við 40 gr. stjórnarskrárinnar.“
    Í svokölluðum búnaðarmálasjóðsdómi (Hrd. 1986:1361) var deilt um lögmæti álagningar búnaðarmálasjóðsgjalds samkvæmt lögum nr. 34/1948. Gjaldið var ákveðið 1 / 2 % með reglugerð. Í dóminum segir m.a.:
    „Við lokafrágang frumvarpsins hefur ákvæðið um skattaprósentuna sjálfa fallið niður. Geta lögin í þeirri mynd ekki verið grundvöllur heimtu gjalds þess í búnaðarmálasjóð sem krafist er lögtaks fyrir í máli þessu.“
    Loks má nefna dóm Hæstaréttar í svokölluðu þungaskattsmáli (Hrd. 1986:462). Deilt var um hvort framsal til ráðherra á skattlagningarvaldi bryti í bága við 40. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar segir m.a.:
    „Ákvæði reglugerðanna um gjaldstiga „kílómetragjaldsins“ eru af stefnda talin hafa stoð í 7. gr. laga nr. 79/1974, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. lög nr. 78/1977, 3. gr. Í lagagrein þessari er ráðherra veitt heimild til að ákveða með reglugerð, að ökumæla skuli setja í bifreiðar, sem nota annað eldsneyti en bensín og greiða skuli sérstakt gjald fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt mælum þessum í stað árlegs þungaskatts. Ekki er að finna í lögunum ákvæði er takmarki heimild ráðherra til ákvörðunar á gjaldastigunum eða breytinga á þeim. Fallast ber á það með áfrýjanda að jafnvíðtækt framsal löggjafans á skattlagningarvaldi og hér um ræðir brjóti í bága við 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33 frá 17. júní 1944 og skatttakan því eigi gild að lögum.“
    Hugsanlega má lesa út úr þessum dómum að þegar skattlagningarvald er framselt til ráðherra verði að tilgreina hámark, t.d. í prósentum. Jafnvel þótt ákveðin prósenta sé tilgreind geta verið takmörk fyrir því hversu há hún megi vera, t.d. getur verið álitamál hvort 1.000% yrði talið of hátt.
    Í því frumvarpi, sem nú liggur fyrir, er hámark verðjöfnunargjaldanna skilgreint sem mismunur á tilteknu innanlandsverði og erlendu viðmiðunarverði. Að vísu er reynt að afmarka skattlagningarheimildina með því að skilgreina þetta verð en á hitt ber að líta að það verð getur verið mismunandi fyrir sömu vörutegund. Í annan stað er m.a. miðað við verð skv. IV. kafla búvörulaga. Það verð er ákveðið af verðlagsnefnd búvara, sem er skipuð sex mönnum, og fimmmannanefnd sem ákveður heildsöluverð búvara. Sú spurning vaknar hvort skattlagningarvaldið sé þar með í raun framselt þessum nefndum og gæti það verið brot á stjórnarskránni, sbr. áðurgreinda dóma.

Samantekt.
    Þau atriði, sem ekki verður fallist á í nefndaráliti 1. minni hluta, eru í meginatriðum eftirfarandi:
    Frumvarp ríkisstjórnarinnar þrengdi ekki heimildir landbúnaðarráðherra til álagningar verðjöfnunargjalda frá því sem var ákveðið með búvörulagabreytingunni í desember sl. Þvert á móti voru þær heimildir heldur auknar.
    Aldrei hefur staðið til að veita landbúnaðarráðherra heimild til að leggja gjöld á allar landbúnaðarvörur og vörur unnar úr þeim.
    Ekki er rétt að breytingartillögur fjögurra fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna feli ekki í sér efnislega breytingu á því forræði landbúnaðarráðherra á verðjöfnunargjöldum á innfluttum landbúnaðarvörum sem var byggt á við breytingu á búvörulögunum sl. desember. Þær eru nokkuð útvíkkaðar miðað við þau lög, en þrengdar miðað við skilning formanns landbúnaðarnefndar.
    Það er á misskilningi byggt að núgildandi GATT-samningur heimili innflutningstakmarkanir á öðrum vörum en hrámjólk og kindakjöti.
    Það er rangt að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar hafi ekki falist hámark á verðjöfnunargjaldaheimildum landbúnaðarráðherra.
    Álit 1. minni hluta er villandi að svo miklu leyti sem gefið er í skyn að með frumvarpinu sé veitt heimild til að leggja gjöld á landbúnaðarvörur eða landbúnaðarhráefni sem ekki er framleitt hér á landi.
    Það er rangt að frumvarpið heimili að miða verðjöfnunargjöld við innflutningsverð sem eru undir skráðu heimsmarkaðsverði áður en þrír mánuðir eru liðnir frá því að slíkur innflutningur fyrst átti sér stað.
    Það er með öllu óvíst hvort verðjöfnunargjaldaheimildir frumvarpsins standist nýja GATT-samninginn.

Lokaorð.
    Telja verður miður að á sama tíma og önnur lönd eru að færa sig frá miðstýringu í landbúnaði, sem Evrópusambandið er mikið gagnrýnt fyrir og gengur í berhögg við anda nýja GATT-samningsins, er verið að taka upp á Íslandi hliðstætt kerfi og Evrópusambandið notar. Einnig verður að harma með hvaða hætti þessi ákvörðun er tekin. Heppilegra hefði verið að taka ákvörðun um skipan þessara mála í kjölfar ítarlegrar þjóðfélagsumræðu og að vandlega athuguðu máli, í samráði við alla hagmunaaðila. Það kerfi sem nú er verið að boða er bæði flókið og dýrt í rekstri. Það hlýtur að kalla á mikla yfirbyggingu og fjölgun starfsmanna í landbúnaðarráðuneytinu.

Alþingi, 4. mars 1994.



Gísli S. Einarsson.





Fylgiskjal.


Upphafleg breytingartillaga EgJ við frumvarp til laga um


breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu


og sölu á búvörum, með síðari breytingum.



    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                  52. gr. orðist svo:
                  Innflutningur á þeim vörum, sem tilgreindar eru í viðauka með lögum þessum og flokkast í þar til greind tollskrárnúmer, er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra. Ráðherra getur í reglugerð, sem hann setur um nánari framkvæmd leyfisveitinga, ákveðið að innflutningur þessara vara skuli tímabundið vera frjáls.
                  Viðauki með lögum þessum skal hafa lagagildi. Verði gerðar breytingar á flokkun vara í tollskrárnúmerum samkvæmt honum skal innflutningur á vörum í þeim undirflokkum, sem þannig verða til, einnig vera háður leyfi landbúnaðarráðherra.
                  Áður en ákvarðanir eru teknar um innflutning samkvæmt þessari grein skal leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.
    Við frumvarpið bætist ný grein, 2. gr., svohljóðandi, en 2. gr. þess verði 4. gr.:
                  4. mgr. 53. gr. orðist svo:
                  Ráðherra getur þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar heimilað innflutning á þeim vörum, sem greinin tekur til, í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Við frumvarpið bætist ný grein, 3. gr., svohljóðandi:
                  72. gr. orðist svo:
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur, enda séu þær vörur eða tilsvarandi vörur framleiddar hér á landi. Verðjöfnun á unnum samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra. Með landbúnaðarvörum í grein þessari er átt við (ath. nánar).
                  Verðjöfnunargjöld samkvæmt þessari grein skulu innheimt af tollverði við tollafgreiðslu og renna í ríkissjóð.
                  Fjárhæð verðjöfnunargjalds má að hámarki vera mismunur annars vegar á innlendu verði vörunnar, sem ákveðið er samkvæmt IV. kafla laga þessara, en annars í samræmi við reglur 6. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjöld, og hins vegar heimsmarkaðsverði viðkomandi vöru sem lagt er til grundvallar við framkvæmd þeirra fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að, en taki samningar þessir ekki til hinnar innfluttu vöru skal hið erlenda viðmiðunarverð ákveðið eftir hliðstæðum reglum og gilda samkvæmt áðurgreindum fríverslunar- og milliríkjasamningum. Jafnan skal miða við verð vöru á sama sölustigi. Verðjöfnunargjöld má leggja á sem krónutölu á magneiningu eða sem hlutfallslegt gjald.
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt í samræmi við milliríkja- eða fríverslunarsamninga, sem Ísland er aðili að, að leggja á innfluttar landbúnaðarvörur og unnar vörur, sem innihald á landbúnaðarhráefni, sérstakt verðjöfnunarálag umfram þá heimild, sem leiðir af 3. mgr., og mega þau vera allt að 50% ofan á gjöld skv. 3. mgr.
                  Ráðherra ákveður álagningu gjalda samkvæmt þessari grein í reglugerð. Við ákvörðun verðjöfnunargjalda skal ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna. Skal einn skipaður án tilnefningar, annar af fjármálaráðherra og hinn þriðji af viðskiptaráðherra. Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðist við en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.
                  Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum eða reglugerð eða öðrum fyrirmælum settum samkvæmt lögum þessum um ákvörðun tollverðs, vöruflokkun, gjalddaga, innheimtu, lögvernd verðjöfnunargjalda, refsingar og aðra framkvæmd varðandi verðjöfnunargjöld skulu gilda eftir því sem við geta átt ákvæði tollalaga, nr. 55 30. mars 1987, með síðari breytingum.
                  Heimild landbúnaðarráðherra samkvæmt þessari grein skal koma í stað heimildar fjármálaráðherra skv. 120. gr. A í tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, að því er varðar þær vörur sem grein þessi tekur til.

          Kostur A:
                  1. mgr. 72. gr. orðist svo:
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur, enda séu þær vörur eða tilsvarandi vörur framleiddar hér á landi. Verðjöfnun á unnum samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra. Með landbúnaðarvörum í grein þessari er átt við vörur sem falla undir kafla 1–2, 4, 6–7, 15–16, 19 til og með 21 og 23 auk undirliðar 2002.90 úr kafla 22 í tollskrá.

          Kostur B:
                  1. mgr. 72. gr. orðist svo:
                  Landbúnaðarráðherra er heimilt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara að leggja verðjöfnunargjöld á:
        a)    Vörur, sem hann heimilar innflutning á samkvæmt ákvæðum þessara laga.
        b)    Innfluttar unnar, samsettar vörur, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi og innihalda hráefni úr landbúnaðarvörum sem leyfi landbúnaðarráðherra þarf til að flytja inn skv. 52. og 53. gr. laga þessara. Ákvæði þetta tekur einnig til tilsvarandi vara og hráefna. Verðjöfnun á unnum samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra.