Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 495 . mál.


761. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu breytinga á samningi um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það.

(Lögð fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á samningi frá 29. desember 1972 um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það sem gerðar voru í Lundúnum 12. október 1978.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ísland gerðist árið 1975 aðili að samningi frá 29. desember 1972 um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda nr. 17/1973, þar sem samningurinn er birtur, og 1/1976.
    Á þriðja fundi samningsaðila í Lundúnum 12. október 1978 voru samþykktar breytingar á samningnum. Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu breytinganna af Íslands hálfu. Breytingarnar hafa ekki tekið gildi en 18 aðilar samningsins hafa fullgilt þær. Þær eru birtar sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.
    Breytingarnar fela í sér að 11. gr. samningsins er breytt þannig að samningsaðilum er gert kleift að vísa deilum um túlkun og framkvæmd samningsins til Alþjóðadómstólsins eða til gerðardóms.

Fylgiskjal.