Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 513 . mál.


789. Tillaga til þingsályktunar



um sérstakt átak í málefnum barna og ungmenna.

Flm.: Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta gera fjögurra ára framkvæmdaáætlun um úrbætur í málefnum barna og ungmenna. Áætlunin verði byggð á lögum um vernd barna og ungmenna, barnalögum og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Greinargerð.


     Íslenskt þjóðfélag hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum. Þróunin hefur verið ör úr bændasamfélagi, sem staðið hafði öldum saman, í nútíma tæknivætt samfélag. Fjölskyldan var hornsteinn bændasamfélagsins og allir siðir og venjur voru í föstum skorðum. Stórfjölskyldan gat tekist sameiginlega á við mörg þau vandamál sem hin svokallaða kjarnafjölskylda nútímans hefur ekki bolmagn til. Nægir þar að nefna að fjöldi heimilismanna skapaði ákveðna samfélagsgerð. Heimilið var framleiðslueining sem sá meðlimum sínum farborða með sjálfsþurftarbúskap.
    Þær stökkbreytingar sem hafa orðið í fjölskyldugerðinni og þar af leiðandi breyttar aðstæður allra, bæði barna og fullorðinna, hafa leitt til þess að margar fjölskyldur hafa misst fótfestu. Samfélagið hefur ekki brugðist sem skyldi við þessum breyttu aðstæðum. Afleiðingarnar bitna mest á börnunum. Hjónaskilnuðum og sambúðarslitum hefur fjölgað. Kynferðisafbrotum fer fjölgandi ár frá ári. Mörg börn eru vannærð, bæði líkamlega og andlega.
    Leikskólar í stærri bæjum anna víðast hvar ekki eftirspurn. Grunnskólinn er ekki samfelldur nema í undantekningartilfellum og þá helst á smærri stöðum. Sífellt fleiri börn þurfa aðstoðar við af ýmsum ástæðum.
    Atriði sem þarf að hafa í huga við gerð framkvæmdaáætlunar eru t.d. eftirfarandi:
—    Koma á fót skipulegri foreldrafræðslu sem m.a. væri liður í forvarnastarfi.
—    Styðja við starfsemi áhugahópa sem starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum.
—    Huga sérstaklega að stöðu þeirra barna þar sem foreldrar eða forsjármenn hafa búið við langvarandi atvinnuleysi.
—    Nýta sem best starf nefnda á vegum sveitarfélaga, t.d. með sameiningu félagsmálanefnda og barnaverndarnefnda í eina nefnd þar sem það á við og einnig að stækka umdæmi þeirra.
—    Koma á markvissu eftirliti með útleigu myndbanda með ofbeldismyndum og sýningum ofbeldiskvikmynda í sjónvarpi og kvikmyndahúsum.
—    Huga að málsmeðferð og úrlausn á kynferðisafbrotamálum gagnvart börnum.
—    Koma í veg fyrir útbreiðslu barnakláms hér á landi.
—    Koma á skilvirkari og hraðari afgreiðslu dómsmála sem snerta börn og ungmenni.
—    Samræma aðgerðir til að stemma stigu fyrir áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga og auka forvarnir.
    Félagsmálaráðuneytið hafi forgöngu í málinu en hafi samvinnu við önnur ráðuneyti um mál á málefnasviði þeirra.
    Ný barnalög, nr. 20/1992, og lög um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, ásamt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, hafa að geyma fyrirmæli um skyldur foreldra og stjórnsýsluhafa hvað varðar aðbúnað barna og ungmenna. Þar eru ýmis ákvæði sem skylda opinbera aðila til að gæta hagsmuna og velferðar barna og ungmenna í hvívetna. Þá hefur nú nýlega verið mælt fyrir frumvarpi um umboðsmann barna sem væntanlega verður samþykkt fyrir þinglok.
    Alþingi hefur ítrekað sýnt vilja sinn til að sinna betur þörfum barna og ungmenna en gert hefur verið. Um það ber lagasetning nýrra barnalaga og barnaverndarlaga glöggt vitni. Þá má einnig minna á að þingsályktunartillögu um foreldrafræðslu, sem þingkonur Kvennalistans lögðu fram á síðasta löggjafarþingi, var mjög vel tekið. Hún hefur nú verið endurflutt þar sem ekki tókst að ljúka umfjöllun um hana fyrir þingfrestun vorið 1993. Samþykktar hafa verið ýmsar þingsályktanir sem kveða á um sérstakar aðgerðir til verndar börnum, svo sem þingsályktun nr. 7/1990, um átak gegn einelti meðal barna og unglinga, þingsályktun nr. 21/1991, um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla og forvarnir í þeim efnum, og þingsályktun nr. 7/1992, um velferð barna og unglinga. Nýlega hefur verið lögð fram á Alþingi skýrsla félagsmálaráðherra sem byggist á starfi nefndar sem skipuð var samkvæmt síðastnefndri þingsályktun og er þar að finna margar gagnlegar ábendingar um betri skipan mála sem snerta börn og unglinga. Þá hefur félagsmálaráðherra boðað að komið verði á fót fjölskylduþjónustu ríkisins.
    Við berum okkur gjarnan saman við Norðurlöndin í velferðarmálum og því er rétt að geta þess að í Noregi er nú í gangi þriggja ára áætlun í barnaverndarmálum, „Program for nasjonal utvikling av barnevernet“, sem á að leiða til þess að stytta biðtíma fólks sem þarf aðstoð, gera alla afgreiðslu mála skilvirkari og styðja fjölskyldur barna sem eiga í erfiðleikum af ýmsum toga. Áætlunin er unnin í barna- og fjölskyldumálaráðuneyti Noregs.
    Hér á Íslandi erum við skemmra á veg komin í stefnumótun og skipulagningu mála sem snerta börn og unglinga. Allt of oft er gripið til skammtímalausna þegar atburðarásin krefst aðgerða. Það hefur orðið til þess að margar lausnir, sem gripið er til, skila ekki þeim árangri sem til er ætlast og nýting á þeim valkostum, sem í boði eru, er léleg.
    Því er fyllilega tímabært að gera nú áætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna í samfélaginu og vernda þau gegn óæskilegum áhrifum. Til þeirrar áætlunar verði síðan varið sérstökum fjármunum á fjárlögum næstu fjögurra ára þar á eftir. Ár fjölskyldunnar væri vel til þess fallið að koma á fót slíkri framkvæmdaáætlun. Því er hér lagt til að Alþingi lýsi yfir vilja sínum þar að lútandi.
    Hagsýsla ríkisins gerði úttekt á heildarskipan þess málaflokks sem snertir börn og unglinga og skilaði skýrslu í október 1993. Skýrslan var gerð að beiðni félagsmálaráðuneytisins og er þar að finna margar gagnlegar ábendingar og tillögur um markvissara skipulag og leiðir til úrbóta. Þar segir m.a.: „Meginvandi barna- og unglingamála er skortur á samhæfingu, ómarkviss stjórnsýsla, lítill sveigjanleiki og léleg nýting fjármuna. Úrbætur krefjast samstillts átaks allra sem starfa að málefnum barna og unglinga.“