Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 519 . mál.


809. Tillaga til þingsályktunar


um könnun á atvinnumöguleikum til framtíðar á Íslandi.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Guðjón Guðmundsson,

Guðjón A. Kristjánsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta vinna vænleikaskýrslu um atvinnumöguleika til framtíðar á Íslandi, til skemmri og lengri tíma litið, og hvernig þeir verði best nýttir. Haft verði sem víðtækast samstarf við forustumenn og félagasamtök í atvinnulífi, sérstaklega útflytjendur.
    Skýrslan verði tilbúin og henni útbýtt á Alþingi eigi síðar en 15. desember 1994.

Greinargerð.

     Í tillögunni er gert ráð fyrir því að forsætisráðherra láti vinna svokallaða „vænleikaskýrslu“ um framtíðaratvinnutækifæri á Íslandi, til skemmri tíma litið, til aldamóta og síðan til lengri tíma litið, þ.e. eftir aldamót.
    Mjög margir aðilar hér á landi eru á einhvern hátt að velta fyrir sér framtíðaratvinnumöguleikum okkar Íslendinga. Enginn hefur þó heildaryfirsýn eða hefur tekið saman á einn stað hvaða atvinnutækifæri við munum mögulega hafa í framtíðinni og hvernig viðskiptaumhverfið og þjóðfélagsaðstæður þurfa að vera til þess að tækifærin nýtist sem best.
    Það er afar mikilvægt fyrir framtíðarstefnumörkun ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja að fyrir liggi upplýsingar um hverjir möguleikar okkar eru, hvort þeir eru raunhæfir nú þegar eða verða það síðar og hverju við þurfum að kosta til svo að nýta megi þessa möguleika sem best. Liggi upplýsingar fyrir verður samræming mennta- og rannsóknarstefnu, stefnu ríkisins í peninga- og skattamálum og fjárfestingarstefnu fyrirtækja og fjármálastofnana auðveldari. Öll ákvörðunartaka um hvaða möguleika við eigum helst að nýta okkur verður markvissari og væntanlegar fjárfestingar arðbærari.
    Tillagan gerir ráð fyrir að skýrslan verði unnin í nánu samstarfi við atvinnulífið og hagsmunasamtök, sérstaklega útflytjendur, og fulltrúa annarra ráðuneyta, en hjá þessum aðilum liggur mest af þeim upplýsingum sem á þarf að halda við vinnuna. Það fer hins vegar vel á því að forsætisráðuneytið, ráðuneyti efnahagsmála, hafi forgöngu um þessa vinnu en hún varðar grundvöllinn að efnahag þjóðarinnar í framtíðinni.