Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 520 . mál.


810. Tillaga til þingsályktunar


um endurskoðun á launakerfi ríkisins.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

Kristín Einarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða launakerfi ríkisins. Hlutverk nefndarinnar verði að einfalda launakerfið, auka hlut umsaminna grunnlauna, draga úr eða afnema með öllu yfirborganir og aukagreiðslur af ýmsu tagi og endurskoða röðun í launaflokka. Sérstaklega ber nefndinni að benda á leiðir til að hækka lægstu laun og draga úr launamun kynjanna. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar fjármálaráðuneytisins og samtaka opinberra starfsmanna.

Greinargerð.

    Samskipti ríkis við starfsmenn sína hafa vægast sagt verið með sérkennilegum hætti undanfarin ár. Grunnlaunum hefur markvisst verið haldið niðri þannig að lægstu laun ríkisstarfsmanna eru á sultarmörkum meðan hvers kyns yfirborganir og sérgreiðslur hafa aukist til ákveðinna hópa. Samskipti ríkisins og háskólamenntaðra starfsmanna þess hafa verið afar slæm enda bráðabirgðalögum beitt til þess að taka til baka umsamdar launahækkanir. Eins og kunnugt er reyndist sú lagasetning lögleysa og hefur þegar kostað ríkissjóð um 400 millj. kr. Þegar Kjaradómur kvað upp úrskurð sumarið 1992, þar sem reynt var að taka á margföldu og óréttlátu launakerfi ríkisins, brást ríkisstjórnin enn við með bráðabirgðalögum í kjölfar mótmæla úti í þjóðfélaginu. Sú lagasetning er nú fyrir dómstólum og óvíst hvort enn einn reikningur fellur á ríkissjóð.
    Á undanförnum árum hefur fjöldi mála verið rekinn fyrir dómstólum vegna samskipta ríkisstarfsmanna við vinnuveitanda sinn sem gefur til kynna að mikið er að launakerfi ríkisins og samskiptum við ríkisstarfsmenn. Þá má nefna það fjaðrafok sem varð sl. haust vegna launamála bankastjóra ríkisbankanna sem ekki eru í neinu samhengi við það sem tíðkast í öðrum ríkisstofnunum. Í því sambandi má minna á þá yfirlýsingu iðnaðarráðherra að launakerfi ríkisins sé handónýtt. Undir þá lýsingu tökum við kvennalistakonur, enda höfum við margoft bent á þá staðreynd. Enn má bæta við þessa lýsingu á launakerfinu því launamisrétti milli karla og kvenna sem tíðkast hjá ríkinu og á meðal annars rætur að rekja til úrelts starfsmats og forréttinda sem karlar njóta.
    Það er löngu tímabært að hefja endurskoðun á launakerfi ríkisins með þau markmið í huga að draga úr launamisrétti, hækka lægstu laun, einfalda kerfið og gera það gagnsærra þannig að ljóst sé hver launakjörin eru í raun og veru.
    Margt þarf að endurbæta í ríkiskerfinu, svo sem í mennta- og heilbrigðisgeiranum, þannig að rekstur ríkisins verði sem hagkvæmastur og þjóni landsmönnum sem best. Árangur næst ekki nema ríkisstarfsmenn séu sáttir við sinn hlut og séu hafðir með í ráðum. Það gengur ekki lengur að ríkisvaldið standi í eilífum styrjöldum við starfsmenn sína og beiti lögum og dómstólum gegn þeim ef það kallar ekki sjálft yfir sig málaferli. Besta leiðin til að bæta samskiptin er að ganga í það nauðsynjaverk að stokka upp launakerfi ríkisins í góðri sátt við ríkisstarfsmenn.



Fylgiskjal I.


Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristínar

Ástgeirsdóttur um launagreiðslur ríkisins.

(431. mál 116. löggjafarþings.)


    Hversu margir einstaklingar fengu greidd laun frá ríkinu árið 1992 að upphæð 3 millj. kr. eða meira (átt er við samanlögð grunnlaun, fasta yfirvinnu, aðra yfirvinnu, þóknunareiningar, aðrar þóknanir, bílastyrki, nefndarlaun og önnur laun)?
    744 einstaklingar fengu greidd laun að upphæð 3 millj. kr. eða meira á árinu 1992, svo sem nánar er sundurgreint í fskj. I. Þeir eru allir í fullu (100%) starfi.

    Hversu margir karlar eru í þessum hópi og hve margar konur?
    Karlarnir eru 685 eða 92,1% og konurnar 59 eða 7,9%.

    Hver eru samanlögð grunnlaun þessa hóps, hver eru samanlögð heildarlaun (sjá 1. lið) og hvernig skiptast þessar upphæðir milli kynja?
    Svarið við þessum lið kemur fram í fskj. I.

    Hjá hvaða stofnunum vinna þessir einstaklingar?
    Svarið við þessum lið kemur fram í fskj. II og III. Í fskj. II eru stofnanirnar taldar upp í fjárlaganúmeraröð. Í fskj. III eru þær felldar undir ráðuneytin, þó þannig að stofnanir í A- og B-hluta fjárlaga eru sundurgreindar.



Fskj. I.


Fjármálaráðuneytið,
starfsmannaskrifstofa:


(Repró, 1 tafla)




Fskj. II.


Fjármálaráðuneytið,
starfsmannaskrifstofa:


(Repró, 4 bls.)




Fskj. III.


Fjármálaráðuneytið,
starfsmannaskrifstofa:


(Repró, 4 bls.)




Fylgiskjal II.



Yfirlit yfir mál BHMR og aðildarfélaga þess gegn

fjármálaráðherra fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.


    BHMR og aðildarfélög þess hafa stefnt fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sjö sinnum fyrir héraðsdóm Reykjavíkur vegna mála einstakra félagsmanna. Af þessum málum hafa félögin unnið fimm og eitt gegn Akraneskaupstað (sem stefnt var með ráðherra). Unninn málskostnaður nemur 467.000 kr. Einu máli, sem BHMR vann (1), var ekki áfrýjað og annað mál (7) er enn fyrir Hæstarétti. BHMR hefur unnið hin málin fimm fyrir Hæstarétti, ýmist á aðalkröfu eða varakröfu, og nemur unninn málskostnaður fyrir Hæstarétti 1.130.000 kr. Málin eru þessi:
    1. Kári Einarsson gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Stefnandi var félagsmaður í Kjarafélagi tæknifræðinga/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Aðalkrafa um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar en varakrafa um biðlaun að meðtaldri fastri yfirvinnu og orlofsfé af fastri yfirvinnu.
     Héraðsdómur 13. maí 1985: Fallist á varakröfu stefnanda.
    Málinu var ekki áfrýjað.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 90 þús. kr.
    2. Björn Jónsson gegn fjármálaráðherra og Akraneskaupstað. Stefnandi var félagsmaður í Hinu íslenska kennarafélagi/BHMR og Prestafélagi Íslands/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Krafa um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar úr stundakennslu við grunnskóla, sbr. lög um grunnskóla.
     Héraðsdómur 28. október 1986: Fjármálaráðherra sýknaður af kröfunni en Akraneskaupstaður bótaskyldur.
    Málskostnaður: Akraneskaupstaður greiði stefnanda 25 þús. kr.
     Hæstiréttur 7. nóvember 1988: Akraneskaupstaður sýknaður. Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða skaðabætur.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 90 þús. kr.
    3. Gunnar Johnsen gegn fjármálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Stéttarfélagi verkfræðinga. Málið var rekið af BHMR samhliða málum 4 og 5.
    Ágreiningsefni: Réttur til biðlauna með fastri yfirvinnu og uppgjörs á orlofi samkvæmt kjarasamningi vegna þess að starf var lagt niður.
     Héraðsdómur 11. október 1989: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda biðlaun með fastri yfirvinnu og orlofsfé af yfirvinnu. Kröfu um fasta yfirvinnu í óútteknu orlofi hafnað.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 80 þús. kr.
     Hæstiréttur 31. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda fasta yfirvinnu með orlofsfé á biðlaunatíma og óúttekið orlof með yfirvinnu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 100 þús. kr.
    4. Snorri Páll Snorrason gegn fjármálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Félagi íslenskra náttúrufræðinga/BHMR. Málið var rekið af Félagi íslenskra náttúrufræðinga/ BHMR.
    Ágreiningsefni: Aðalkrafa um rétt til biðlauna í sex mánuði með fastri yfirvinnu og uppgjörs á orlofi samkvæmt kjarasamningi vegna þess að starf var lagt niður. En varakrafa um bætur í tvo mánuði, þ.e. út ráðningartíma.
     Héraðsdómur 28. september 1989: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda að mestu samkvæmt varakröfu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 62 þús. kr.
     Hæstiréttur 31. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda fasta yfirvinnu með orlofsfé á biðlaunatíma og óúttekið orlof með yfirvinnu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 80 þús. kr.
    5. Ómar Bjarki Smárason gegn fjármálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Félagi íslenskra náttúrufræðinga/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Aðalkrafa um rétt til biðlauna í sex mánuði með fastri yfirvinnu og uppgjörs á orlofi samkvæmt kjarasamningi vegna þess að starf var lagt niður. En varakrafa um orlofsuppgjör samkvæmt kjarasamningi.
     Héraðsdómur 28. september 1989: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda samkvæmt varakröfu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 40 þús. kr.
     Hæstiréttur 31. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda yfirvinnukaup í óteknu orlofi.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 60 þús. kr.
    6. Bjarnheiður Guðmundsdóttir gegn fjármálaráðherra og menntamálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Stefnandi var félagsmaður í Félagi íslenskra náttúrufræðinga/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Krafa um rétt til launa, þ.e. einn og hálfan launaflokk samkvæmt ákvæðum kjarasamnings frá 18. maí 1989 ásamt vöxtum. Málið snerist um það hvort bráðabirgðalög nr. 89/1990 og síðar lög nr. 4/1991, um launamál, stæðust stjórnarskrá Íslands. Þetta mál fjallaði í reynd um sama efni og félagsdómsmál nr. 4/1990, þ.e. efni 5. gr. samninga frá 1989.
     Héraðsdómur 13. mars 1991: Fjármálaráðherra sýknaður.
    Málskostnaður felldur niður.
     Hæstiréttur 3. desember 1992: Fjármálaráðherra talinn hafa brotið jafnræðisákvæði Stjórnarskrár Íslands og dæmdur til að greiða stefnanda einn og hálfan launaflokk samkvæmt ákvæðum kjarasamnings tímabilið september–desember 1990 og janúar 1991 (uppsagnarfrest) með vöxtum en að frádregnum öðrum launahækkunum á tímabilinu.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 800 þús. kr.
    7. Jóhannes Ágústsson gegn fjármálaráðherra og menntamálaráðherra. Stefnandi var félagsmaður í Hinu íslenska kennarafélagi/BHMR. Málið var rekið af BHMR.
    Ágreiningsefni: Réttur til bóta vegna afturköllunar menntamálaráðuneytis á setningarbréfi.
     Héraðsdómur 11. mars 1992: Fjármálaráðherra dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði stefnanda 170 þús. kr.
    Fjármálaráðherra hefur áfrýjað héraðsdómi.



Fylgiskjal III.


Yfirlit yfir félagsdómsmál BHMR og aðildarfélaga þess

gegn fjármálaráðherra og öfugt.


    BHMR og aðildarfélög þess hafa stefnt fjármálaráðherra átta sinnum fyrir Félagsdóm en fjármálaráðherra hefur stefnt einu sinni. BHMR hefur unnið sjö málanna (þar af tvö ekki alveg að fullu) en tapað tveimur. BHMR hefur fengið sér dæmdar 640.000 kr. í málskostnað en ekki verið dæmt til að greiða fjármálaráðherra neinn málskostnað.
    1. Mál nr. 7/1987: Hið íslenska kennarafélag (HÍK)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa HÍK að fjármálaráðherra greiði tímakaup í dagvinnu miðað við 5. launaþrep í samræmi við kjarasamning HÍK (og annarra aðildarfélaga BHMR).
    Fordæmismál fyrir öll hlutaðeigandi aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu HÍK (BHMR).
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði HÍK 50 þús. kr.
    2. Mál nr. 5/1988: Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs gegn Hinu íslenska kennarafélagi (HÍK).
    Ágreiningsefni: Krafa fjármálaráðherra að boðað verkfall HÍK verði dæmt ólögmætt þar sem meiri hluti þeirra sem greiddu atkvæði um verkfall félagsins í allsherjaratkvæðagreiðslu hafi ekki samþykkt verkfallið, sbr. 15. gr. laga nr. 94/1986.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu fjármálaráðherra.
    Málskostnaður felldur niður.
    3. Mál nr. 1/1990: BHMR vegna Félags háskólakennara, Félags viðskipta- og hagfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Læknafélags Íslands, Stéttarfélags lögfræðinga í ríkisþjónustu, Dýralæknafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga gegn fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa stéttarfélaganna um að fjármálaráðherra felli af listum yfir forstöðumenn sem undanþegnir eru rétti til þátttöku í verkfalli þá einstaklinga sem ekki falla undir skilgreiningu laganna, sbr. 29. gr. laga nr. 38/1954.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfur BHMR um túlkanir á því hverjir teljist forstöðumenn og listum breytt eftir því, þó þannig að kröfu vegna eins einstaklings var vísað frá þar sem hann var ekki í þeim félögum sem stefndu.
    Málskostnaður felldur niður.
    4. Mál nr. 4/1990: Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa FÍN að fjármálaráðherra greiði einn og hálfan launaflokk 1. júlí 1990 skv. 5. gr. kjarasamnings FÍN (og annarra aðildarfélaga BHMR).
    Fordæmismál fyrir öll hlutaðeigandi aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu FÍN/BHMR.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði FÍN 200 þús. kr.
    5. Mál nr. 1/1991: Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, samtökum stundakennara við Háskóla Íslands og Félagi háskólakennara.
    Ágreiningsefni: Krafa FÍN um að samningsréttur gagnvart fjármálaráðherra vegna þeirra félagsmanna sem kenna í stundakennslu við Háskóla Íslands verði viðurkenndur.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Ekki fallist á kröfu FÍN/BHMR.
    Málskostnaður felldur niður.
    6. Mál nr. 3/1992: BHMR vegna Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga, Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, Meinatæknafélags Íslands, Útgarðs — félags háskólamanna, Röntgentæknafélags Íslands og Hjúkrunarfélags Íslands gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa stéttarfélaganna um að fjármálaráðherra felli af listum yfir þá sem undanþegnir eru rétti til þátttöku í verkfalli vegna nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu þá einstaklinga sem ekki falla undir skilgreiningu laganna, sbr. 19. gr. laga nr. 94/1986.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfur félaganna/BHMR og listum breytt eftir því en fjármálaráðherra féllst undir málssókn á nokkrar af kröfum félaganna.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði BHMR 120 þús. kr.
    7. Mál nr. 4/1992: BHMR vegna Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga í ríkisþjónustu og Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa stéttarfélaganna um að fjármálaráðherra felli af listum yfir forstöðumenn sem undanþegnir eru rétti til þátttöku í verkfalli þá einstaklinga sem ekki falla undir skilgreiningu laganna, sbr. 29. gr. laga nr. 38/1954.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfur BHMR um túlkanir á því hverjir teljist forstöðumenn og listum breytt eftir því.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði BHMR 120 þús. kr.
    8. Mál nr. 7/1992: Hið íslenska kennarafélag (HÍK)/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
    Ágreiningsefni: Krafa HÍK að fjármálaráðherra greiði kennurum við Fjölbrautaskólann í Breiðholti sem starfa við sumarskóla FB laun í samræmi við kjarasamning HÍK ásamt viðaukum og bókunum við hann.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu HÍK/BHMR.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði HÍK 125 þús. kr.
    9. Mál nr. 9/1992: Félag íslenskra náttúrufræðinga/BHMR gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóð.
    Ágreiningsefni: Krafa FÍN/BHMR að fjármálaherra haldi fundi í samstarfsnefnd með félaginu í samræmi við 11. kafla kjarasamnings HÍK ásamt samningi um starfshætti samstarfsnefnda.
    Fordæmismál fyrir öll aðildarfélög BHMR.
    Niðurstaða: Fallist á kröfu HÍK/BHMR.
    Málskostnaður: Fjármálaráðherra greiði HÍK 125 þús. kr.