Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 521 . mál.


814. Fyrirspurn


til landbúnaðarráðherra um skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun hjá Landgræðslu ríkisins frá janúar 1993.

Frá Jónu Valgerði Kristjánsdóttur.


    Hvað hefur verið gert til að framfylgja þeim ábendingum og athugasemdum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá janúar 1993 um stjórnsýsluendurskoðun hjá Landgræðslu ríkisins þar sem m.a. er bent á:
    að nauðsynlegt sé að endurskoða lög um Landgræðslu ríkisins,
    að endurskoða beri samstarf og verkaskiptingu Landgræðslunnar og RALA,
    að gera þurfi könnun á því hvort hagkvæmt geti verið að sameina Skógrækt ríkisins og Landgræðsluna,
    að gera þurfi skipurit af Landgræðslu ríkisins og skipta stofnuninni upp í ákveðin svið,
    að loka ætti skrifstofunni í Reykjavík og flytja ala starfsemina í Gunnarsholt,
    að efla þurfi fjármálasvið Landgræðslu ríkisins og ráða sérstakan fjármálastjóra,
    að endurskoða flugrekstur Landgræðslu ríkisins þar sem nýting flugvélanna er lítil,
    að gera þurfi úttekt á bifreiðamálum Landgræðslunnar?

Greinargerð.

     Skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem hér er vitnað til, er byggð á 9. gr. laga nr. 12/1986, um Ríkisendurskoðun, þar sem segir að Ríkisendurskoðun geti framkvæmt stjórnsýsluendurskoðun hjá ríkisfyrirtækjum, en í slíkri endurskoðun felst að könnuð er meðferð og nýting á ríkisfé. Skal stofnunin vekja athygli hlutaðeigandi stjórnvalda á því sem úrskeiðis fer í rekstri og gera tillögur um úrbætur.
    Þar sem nú er rúmt ár liðið frá því að skýrsla sú, sem hér er vitnað til, kom út er eðlilegt að kanna hvað gert hefur verið af hálfu viðkomandi ráðuneytis til að fylgja eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar.


Skriflegt svar óskast.