Ferill 542. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 542 . mál.


850. Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu samnings um Svalbarða.

(Lögð fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um Svalbarða sem gerður var í París 9. febrúar 1920.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili staðfestingu samnings um Svalbarða frá 9. febrúar 1920. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.
    Meðal þeirra deilna sem ræddar voru á friðarráðstefnunni í Versölum eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri var langvarandi togstreita um yfirráð yfir Svalbarða. Í framhaldi af friðarsamningunum var samningur um Svalbarða gerður 9. febrúar 1920. Upphafleg aðildarríki voru Noregur, Bandaríkin, Danmörk, Frakkland, Ítalía, Japan, Holland, Bretland og Svíþjóð. Fleiri ríki gerðust aðilar að samningnum í kjölfarið og eru aðildarríki nú 40.
    Samningurinn um Svalbarða hefur að markmiði uppbyggingu eyjaklasans og friðsamlega nýtingu hans. Samningurinn kveður á um yfirráð Norðmanna yfir eyjaklasanum, en frá þeirri meginreglu eru mikilvægar undantekningar. Ríkisborgarar aðildarríkjanna og skip þeirra eiga sama rétt og Norðmenn til veiða, á sjó og landi, en Norðmönnum er heimilt að grípa til verndaraðgerða sem þó verða að koma jafnt niður á borgurum aðildarríkjanna. Þá er ríkisborgurum allra aðildarríkja heimil atvinnustarfsemi á Svalbarða og nýting auðlinda, þar á meðal námuvinnsla. Í samningnum er lagt bann við herstöðvum á eyjunum og skattalögsaga Norðmanna er mjög takmörkuð.
    Markmiðið með aðild Íslands að samningnum um Svalbarða er að leitast við að tryggja hlutdeild í aðgerðum á grundvelli samningsins. Norðmenn hafa lýst yfir 200 mílna fiskverndarsvæði umhverfis Svalbarða. Aðild að samningnum felur ekki í sér viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á réttmæti þeirrar aðgerðar, enda er ágreiningur um rétt Norðmanna á svæðinu og almennt um gildi samningsins á hafsvæði utan landhelgi.


..........


    Sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari var birtur samningurinn um Svalbarða sem gerður var í París 9. febrúar 1920.
    Um samninginn vísast til þingskjalsins (lausaskjalsins). Enn fremur verður samningurinn prentaður í C-deild Stjórnartíðinda.