Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 546 . mál.


857. Frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    Í stað hlutfallstölunnar „2,85“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 2,95.
    1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. orðast svo: Ferðaþjónusta, nánar tiltekið hótelgisting, veitingarekstur og útleiga bifreiða.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 1994 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds frá og með þeim tíma og álagningu tryggingagjalds á árinu 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með lögum nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, var m.a. gerð sú breyting að álagning virðisaukaskatts á fólksflutninga innan lands og starfsemi ferðaskrifstofa, sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 1994 samkvæmt lögum nr. 111/1992, var felld niður. Jafnframt var í lögunum fallið frá því að lækka tryggingagjald á ferðaþjónustu annarri en hótelgistingu úr 6,35% í 2,85% eins og einnig hafði verið ákveðið í lögum nr. 111/1992 enda var lækkun tryggingagjalds ætlað að draga úr áhrifum þess að tekinn var upp virðisaukaskattur á starfsemina.
    Æskilegt er að sama tryggingagjald taki til starfsemi sem er jafntengd og gisting og veitingasala. Þykir rétt að leggja til lækkun tryggingagjalds á veitingasölu. Samkvæmt því felur frumvarp þetta í sér að auk hótelgistingar verði veitingarekstur og útleiga bifreiða í lægra þrepi tryggingagjalds. Lækkun tryggingagjaldsins nú bætir því rekstrarskilyrði þessara greina.
    Áætlað er að þessi ráðstöfun lækki kostnað þessara greina og þar með skatttekjur ríkissjóðs um 80 m.kr. miðað við heilt ár. Til þess að mæta þessu tekjutapi er gert ráð fyrir að hækka tryggingagjald í lægri gjaldflokki um 0,10%, eða úr 2,85% í 2,95%.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að tryggingagjald í sérstökum gjaldflokki hækki úr 2,85% í 2,95%. Þegar þetta tryggingagjald var lögtekið var gert ráð fyrir að sú ráðstöfun að hafa tilteknar atvinnugreinar í sérstökum lægri gjaldflokki væri tímabundin og stefnt skyldi að því að sami gjaldflokkur yrði fyrir allar atvinnugreinar. Sú stefna er raunar hluti af þeirri almennu stefnu í skattamálum sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár og gengur út á breiða skattstofna með fáum undanþágum. Með því er skapaður grundvöllur fyrir lægri skatthlutföll. Sú breyting sem hér er lögð til er skref í þessa átt. Í þessu sambandi verður og að hafa í huga að tekjum af tryggingagjaldi er varið til tiltekinna málaflokka, þ.e. til að standa straum af Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnueftirliti ríkisins og slysa- og sjúkratryggingum Tryggingastofnunar ríkisins. Stefna ber að því að allar atvinnugreinar beri jafnþunga ábyrgð á þessum málaflokkum að þessu leyti.
    Í b-lið er gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds á veitingarekstri og útleigu bifreiða.

Um 2. gr.

    Samkvæmt þessari grein öðlast lögin gildi 1. maí 1994. Því mun tryggingagjald af veitingarekstri og útleigu bifreiða lækka í staðgreiðslu frá og með þeim tíma. Jafnframt mun almenn hækkun á skattprósentunni koma til framkvæmda frá sama tíma. Við álagningu tryggingagjalds á árinu 1995 mun því þurfa að leggja tryggingagjald á að hluta til með tveimur skattprósentum.