Ferill 579. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 579 . mál.


898. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    Á eftir 3. mgr. 40. gr. laga nr. 99/1993 kemur ný málsgrein er verður 4. mgr., svohljóðandi:
    Landbúnaðarráðherra er heimilt að semja við Stéttarsamband bænda um önnur fráviksmörk greiðslumarks en um getur í 3. mgr. fyrir landsvæði eða einstök lögbýli þar sem sérstök ástæða þykir til gróðurverndar eða uppgræðsluaðgerða að höfðu samráði við umhverfisráðherra. Enn fremur vegna framleiðenda sem náð hafa 67 ára aldri eða hafa skerta starfsgetu vegna örorku. Þá er í slíkum samningi heimilt að ákveða að efri mörk greiðslumarks séu mishá eftir landsvæðum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Landbúnaðarráðherra hefur leitað eftir viðræðum við Stéttarsamband bænda um endurskoðun á vissum þáttum búvörusamnings frá 11. mars 1991. Sú endurskoðun mun einkum beinast að fráviksmörkum við greiðslumark sauðfjárafurða sem tilgreind eru í 3. mgr. 40. gr. laga nr. 99/1993.
    Markmið endurskoðunarinnar kemur fram í erindi sem ráðherra ritaði formanni Stéttarsambands bænda í lok febrúar 1993. Þar segir m.a.:
    Sauðfjárbændur á skilgreindum svæðum, þar sem talin er þörf á sérstökum gróðurverndar- eða landgræðsluaðgerðum, verði leystir undan þeirri kvöð að framleiða a.m.k. 80% upp í greiðslumark sitt til að eiga rétt á fullum beingreiðslum. Þessi tilteknu svæði séu skilgreind svo þröngt að ekki verði um það deilt að þau hafi sérstöðu í þessu tilliti.
                  Hér er eingöngu verið að tala um valkost til handa bændum, en ekki um það að ræða að þeir verði þvingaðir til fjárfækkunar. Þeir sem á hinn bóginn vildu taka slíku tilboði yrðu jafnframt að undirgangast kvaðir um nokkurt vinnuframlag til gróðurverndar eða uppgræðslu.
    Metið verði hvort ekki sé skynsamlegt að gefa rosknum bændum og öryrkjum rýmri hendur hvað varðar neðri mörk framleiðslu heldur en 80% eins og nú er.
                  Ofangreindar tillögur miða að því að skapa aukið svigrúm til átaka í landgræðslustörfum og veita mönnum með takmarkaða starfsorku möguleika til að draga saman búskap án þess að það hafi tilfinnanlegan tekjumissi í för með sér. Jafnframt skapaðist nokkurt svigrúm til framleiðslu hjá öðrum bændum. Það er síðan sérstakt athugunarefni hvort það svigrúm eigi að deilast hlutfallslega á alla framleiðendur eða deila því út á sérmerkt „sauðfjársvæði“.“
    Leiði viðræðurnar til samkomulags er nauðsynlegt að fyrir hendi sé ótvíræð lagaheimild til að víkja frá áðurgreindum frávikum.