Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 584 . mál.


903. Tillaga til þingsályktunar



um lýsingu á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Salome Þorkelsdóttir, Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta nú þegar hefja undirbúning að því að setja upp lýsingu við Reykjanesbraut á milli Hafnarfjarðar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Greinargerð.


    Sambærilegar þingsályktunartillögur voru fluttar á 111. og 113. löggjafarþingi, en þær gengu þó eingöngu út á kostnaðar- og framkvæmdaáætlun við lýsingu Reykjanesbrautar.
    Nokkrar þingsályktanir hafa komið fram á umliðnum löggjafarþingum varðandi Reykjanesbraut sem allar hafa beinst að sama markmiði, þ.e. að auka öryggi þeirra hundruða þúsunda vegfarenda sem fara um Reykjanesbraut árlega.
    Mikil næturumferð er um Reykjanesbraut allan ársins hring vegna tímaáætlunar flugs til og frá útlöndum, svo og þeirra fjölmörgu sem sækja vinnu til og frá Suðurnesjum um Reykjanesbraut.
    Um Keflavíkurflugvöll fara árlega um 700 þúsund farþegar (þar af eru aðeins um 130 þúsund „transit“-farþegar), um 20 þús. tonn af vörum og pósti og um 80 þús. tonn af flugvélabensíni. Langmestur hluti þessarar umferðar fer um Reykjanesbrautina til viðbótar annarri umferð farþega og vöruflutninga sem tengist Suðurnesjunum. Umferðarþungi á Reykjanesbraut er gífurlegur af þessum sökum. Hin mikla umferð um þennan 50 km langa þjóðveg hefur á liðnum árum leitt af sér rúmlega 12% allra umferðarslysa sem á landinu verða og gengur í raun kraftaverki næst að slysatíðnin er ekki hærri. Þessi háa slysatíðni hlýtur að vera alvarleg áminning um að óbreytt ástand umferðarmála Reykjanesbrautar er óviðunandi.
    Í skammdeginu og tíðum veðrabrigðum geta skapast hrikaleg akstursskilyrði á Reykjanesbraut. Flutningsmenn eru þess fullvissir að með lýsingu Reykjanesbrautar, sem þingsályktunartillagan kveður á um, mun umferðaröryggi aukast til muna og slysum fækka.