Ferill 585. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 585 . mál.


915. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um leigubifreiðar, nr. 77/1989.

Flm.: Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon.



1. gr.


    Í stað 4. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Hlutaðeigandi stéttarfélag fólksbifreiðastjóra tilnefnir einn nefndarmann, annan tilnefnir sveitarfélag eða sveitarfélög sameiginlega á félagssvæði og hinn þriðja skipar ráðherra samkvæmt sameiginlegri tillögu viðkomandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna og hlutaðeigandi stéttarfélags fólksbifreiðastjóra. Nefndin kýs sér sjálf formann.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt í framhaldi af samtölum við marga leigubifreiðastjóra. Nú er úthlutunarnefnd þannig skipuð að ráðherra skipar þriðja manninn án tilnefningar. Hefur núverandi ráðherra samgöngumála kosið að skipa formann nefndarinnar pólitískri skipan við mikla óánægju leigubifreiðastjóra. Er nú flokkspólitískur meiri hluti Sjálfstæðisflokksins í úthlutunarnefndinni með allri þeirri hættu á misnotkum sem í slíku felst. Í nefndinni eru nú Sveinn Andri Sveinsson borgarfulltrúi fyrir sveitarfélagið og Ragnar Júlíusson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fyrir ráðherrann. Þessi skipan er óeðlileg.
    Til þess að koma í veg fyrir slíka skipan nefndarinnar í framtíðinni er hér lagt til að tilnefningaraðilarnir tveir, stéttarfélögin og viðkomandi sveitarfélag, verði að koma sér saman um tilnefningu þriðja mannsins áður en hann er skipaður. Jafnframt er lagt til að nefndin kjósi sér sjálf formann. Þannig ætti að vera tryggt að fagleg sjónarmið ein ráði úrslitum um val á fólki í nefndina.
    Nú liggja fyrir Alþingi tvö frumvörp um breyting á lögum um leigubifreiðar. Flutningsmenn telja eðlilegt að þau sjónarmið, sem hreyft er með þessu frumvarpi, komi til afgreiðslu samhliða hinum frumvörpunum tveimur.