Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 521 . mál.


943. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur um skýrslu Ríkisendurskoðunar um stjórnsýsluendurskoðun hjá Landgræðslu ríkisins frá janúar 1993.

    Hvað hefur verið gert til að framfylgja þeim ábendingum og athugasemdum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá janúar 1993 um stjórnsýsluendurskoðun hjá Landgræðslu ríkisins þar sem m.a. er bent á:
    að nauðsynlegt sé að endurskoða lög um Landgræðslu ríkisins,
    að endurskoða beri samstarf og verkaskiptingu Landgræðslunnar og RALA,
    að gera þurfi könnun á því hvort hagkvæmt geti verið að sameina Skógrækt ríkisins og Landgræðsluna,
    að gera þurfi skipurit af Landgræðslu ríkisins og skipta stofnuninni upp í ákveðin svið,
    að loka ætti skrifstofunni í Reykjavík og flytja alla starfsemina í Gunnarsholt,
    að efla þurfi fjármálasvið Landgræðslu ríkisins og ráða sérstakan fjármálastjóra,
    að endurskoða flugrekstur Landgræðslu ríkisins þar sem nýting flugvélanna er lítil,
    að gera þurfi úttekt á bifreiðamálum Landgræðslunnar?

    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá janúar 1993 segir m.a.: „Þess ber þó að geta að margt er með ágætum í rekstri stofnunarinnar, enda þótt í skýrslu þessari sé aðallega að finna athugasemdir er varða reksturinn.“
    Landbúnaðarráðuneytið og Landgræðsla ríkisins hafa markvisst tekið á þeim atriðum er Ríkisendurskoðun benti á:
    a. Endurskoðun laga um Landgræðslu ríkisins hefur verið rædd og niðurstöður þeirra sem um málið hafa fjallað eru að það sé ekki sjálfgefið að brýn þörf sé á þeirri endurskoðun. Enn fremur er rétt að benda á að þegar lög um landgræðslu verða endurskoðuð verður nauðsynlegt að endurskoða einnig lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 42/1969.
    b. Samstarf og verkaskipting RALA og Landgræðslunnar hefur verið í mikilli umfjöllun og endurskoðun hjá stofnununum. Samstarfssamningur stofnananna frá 1991 hefur nú verið endurskoðaður.
    c. Sameining Skógræktarinnar og Landgræðslu ríkisins hefur verið til umfjöllunar í landbúnaðarráðuneytinu. Ekki er tilefni til að breyta núverandi verkaskiptingu.
    d. Nýtt skipurit Landgræðslunnar var samþykkt af landbúnaðarráðherra fyrir nokkrum mánuðum eftir mikla umfjöllun hjá stofnuninni og fagráði í landgræðslu í samráði við Ríkisendurskoðun og landbúnaðarráðuneytið.
    e. Í samræmi við áðurnefnt skipurit er nú héraðsmiðstöð með aðstöðu fyrir starfsfólk Landgræðslunnar sem þarf að sinna erindum í Reykjavík þar sem skrifstofan var áður. Þar er ekki skrifstofurekstur, höfuðstöðvar Landgræðslunnar eru og hafa verið í Gunnarsholti í 65 ár.
    f. Fjármálasvið Landgræðslunnar hefur verið eflt og rekstur síðasta árs var vel innan marka fjárlaga eins og hann hefur verið að undanskildu árinu 1992.
    g. Flugrekstur Landgræðslunnar hefur verið til athugunar. Ein vél var notuð á síðasta ári og verður sami háttur hafður á á þessu ári.
    h. Akstursmál stofnunarinnar hafa verið endurskoðuð og sparnaður varð á því sviði 1993. Óhjákvæmilegt er að starfsmenn stofnunarinnar ferðist um landið vegna skipulags starfsins, úttekta, kortlagningar jarðvegseyðingar og fjölþættra almannatengsla. Óþarft er að minna á að vinna við græðslu landsins krefst mikilla ferðalaga. Þessi mál eru eðli sínu samkvæmt ávallt til endurskoðunar til þess að halda kostnaði sem lægstum.