Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 608 . mál.


999. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 64/1958, um útflutning hrossa, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



1. gr.


    3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Á tímabilinu frá 1. nóvember til 1. maí er óheimilt að flytja hross til útlanda nema í sérstökum gripaflutningaskipum eða með flugvélum enda hafi þau áður verið fóðruð inni á heyfóðri og skulu nánari reglur settar um það í reglugerð.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Útflutningur hrossa hefur aukist mjög mikið á undanförnum árum og hefur í raun tífaldast á síðasta áratug. Þessi aukni útflutningur hefur leitt af sér að nú eru mun fleiri hross flutt út á veturna og á vorin en áður var. Samhliða hefur orðið mikil breyting á allri flutningatækni, ekki síst í flutningi á lifandi dýrum. Aðbúnaður í flutningsförum fyrir hross hefur batnað mikið og flutningsför eru mun öruggari en áður var.
    Hér er lagt til að lengdur verði um einn mánuð sá tími sem leyfilegt er að flytja hross með venjulegum áætlunarskipum. Þegar notast er við sérútbúna gáma við flutninginn er engin hætta á að aðbúnaður hrossanna sé verri en í gripaflutningaskipum og hvergi er slakað á kröfum um dýravernd. Þessir flutningar eru auk þess einn ódýrasti flutningsmátinn og geta því orðið til að auka útflutning hrossa og arð af honum enn frekar.