Ferill 591. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 591 . mál.


1127. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um nýtingu heimilda samkvæmt jarðalögum.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     Hve oft, hvar og hvernig hefur heimild skv. 14. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, verið beitt?

    Tilgangur jarðalaga er sá að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem stunda landbúnað, sbr. 1. gr. laganna. Sum ákvæði jarðalaga eru gagngert sett til stuðnings framangreindu tilgangsákvæði, þar á meðal eignarnámsheimildir 13. og 14. gr. laganna. 14. gr. laganna, sem hér er spurt um, er svohljóðandi:
    „Nú er jörð í sameign, en einn sameigenda rekur bú á jörðinni og hefur þar fasta búsetu, og getur ráðherra þá, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, leyft honum að leysa til sín eignarhluta meðeigenda sinna, enda hafi jarðanefnd og stjórn Búnaðarfélags Íslands mælt með því. Náist ekki samkomulag um verð á hinum innleystu hlutum skal fara um mat og greiðslu bóta eftir lögum um framkvæmd eignarnáms.“
    Í greinargerð með frumvarpi til jarðalaga segir svo um 14. gr.: „Sameign ábúenda og annarra að jörð getur, vegna ólíkra hagsmuna og sjónarmiða, leitt til margvíslegra erfiðleika. Rétt þykir að veita þeim, sem jörð situr, möguleika á að komast út úr þeim erfiðleikum sem sameign getur valdið með því að kaupa samkvæmt eignarnámsmati hluti meðeigenda sinna. Sama regla á við þegar fleiri en einn reka bú á jörð sem er í sameign með öðrum sem ekki reka bú á jörðinni.“
    14. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, sbr. breytingu með lögum nr. 90/1984 er eins og áður sagði ein af eignarnámsheimildum jarðalaga. Frá gildistöku þeirra hefur innlausn á eignarhluta sameiganda í bújörð verið heimiluð í tveimur tilvikum, í Mýrasýslu og Suður-Þingeyjarsýslu. Beiðni um innlausn hefur hins vegar verið hafnað í sex tilvikum. Um er að ræða jarðir í Dalasýslu, Skagafjarðarsýslu, Norður-Þingeyjarsýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og tvær í Rangárvallasýslu. Ástæða synjunar er að beiðni hefur ekki uppfyllt skilyrði 14. gr. eða ekki hefur að mati ráðuneytisins verið nægilega sýnt fram á að hagsmunir sveitarfélagsins krefðust þess að innlausn yrði heimiluð.
    Þá skal þess getið að í nokkrum öðrum tilvikum er um að ræða mál þar sem þeir sem farið hafa fram á innlausn skv. 14. gr. jarðalaga hafa ekki skilað ráðuneytinu þeim gögnum og upplýsingum sem nauðsynleg eru til að unnt hafi verið að taka afstöðu til viðkomandi beiðni.