Ferill 70. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 70 . mál.


1186. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið samhliða umfjöllun um tvö stjórnarfrumörp, frumvarp til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, 445. mál, og frumvarp til laga um söfnunarkassa, 446. mál. Fékk hún á fund sinn til viðræðna frá dómsmálaráðuneytinu Ólaf W. Stefánsson skrifstofustjóra og Ara Edwald, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, Þóri Einarsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Esther Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands, Magnús Snæbjörnsson frá Íslenskum söfnunarkössum, Ólaf Poppé frá Landsbjörgu, Theodór S. Halldórsson frá Samtökum áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og frá Rauða krossi Íslands Árna Gunnarsson og Sigrúnu Árnadóttur. Þá bárust nefndinni umsagnir frá fjármálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæði um að Happdrætti Háskóla Íslands greiði 20% af arði í einkaleyfisgjald falli niður en fjármunir þessir hafa runnið til Byggingarsjóðs rannsókna í þágu atvinnuveganna.
    Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að framlag í fjárlögum á árinu 1994 sé 40 millj. kr. Falli þetta ákvæði brott hafi það þau áhrif að Háskólinn hafi meira fé til ráðstöfunar til viðhalds og stofnkostnaðar sem nemi þessum 20% og að framlag til Byggingarsjóðsins falli niður. Muni því kostnaðarauki ríkissjóðs af frumvarpinu velta á hvort veitt verði framlag á fjárlögum til Byggingarsjóðsins í stað happdrættisfjárins og hve hátt það framlag yrði.
    Með tilliti til framansagðs er það mat nefndarinnar að mál þetta þarfnist heildstæðrar endurskoðunar, m.a. með tilliti til ákvarðanatöku um fjárveitingar til Byggingarsjóðs rannsókna í þágu atvinnuveganna og leggur nefndin því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Jón Helgason og Ólafur Þ. Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. apríl 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Anna Ólafsdóttir Björnsson.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Ingi Björn Albertsson.

Kristinn H. Gunnarsson.



Tómas Ingi Olrich.