Ferill 269. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 269 . mál.


1294. Nefndarálit



um till. til þál. um rannsóknir á ástæðum og afleiðingum ofbeldis gegn konum á Íslandi.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn til viðræðna frá dómsmálaráðuneytinu Drífu Pálsdóttur skrifstofustjóra, Árna Hauksson verkfræðing, Hjalta Zóphóníasson skrifstofustjóra og Guðmund Guðjónsson yfirlögregluþjón, frá félagsmálaráðuneytinu Ingibjörgu Broddadóttur deildarsérfræðing, Jenný Baldursdóttur frá Samtökum um kvennaathvarf, Annie Haugen frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Guðrúnu Agnarsdóttur lækni.
    Í tillögunni felst að dómsmálaráðherra verði falið að skipa nefnd sem undirbúi og hafi umsjón með rannsóknum á ofbeldi gegn konum hér á landi.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingum sem birtar eru á sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingarnar á 1. gr. felast í því að rannsóknirnar taki ekki aðeins til ofbeldis gagnvart konum heldur einnig börnum og tekið verði fram að þær nái bæði til ofbeldis sem á sér stað innan og utan heimila. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að ofbeldi inni á heimilum þarf ekki að snúa beint að þolendum heldur geta þeir sem búa við slíkar fjölskylduaðstæður einnig orðið fyrir óbeinum sálrænum og félagslegum áhrifum.
    Nefndin telur rétt að í nefnd ráðherra sitji m.a. fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti auk fulltrúa samtaka sem starfa á þessu sviði. Enda þótt stærstur þáttur verkefnasviðs nefndarinnar falli undir ráðuneyti dómsmála hafa aðilar sem starfa á vettvangi fyrrgreindra tveggja ráðuneyta einnig með höndum mikilvægar upplýsingar um ofbeldi gagnvart konum og börnum. Má m.a. nefna félagsmálastofnanir sveitarfélaga, heilsugæslustöðvar og slysamóttökur. Þá búa fulltrúar ýmissa samtaka yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði og má þar nefna Samtök um kvennaathvarf og Stígamót.
    Lagt er til að 1.–3. tölul. 2. mgr., þar sem fjallað er nánar um einstök verkefni hinnar ráðherraskipuðu nefndar, falli brott úr texta tillögunnar. Í umfjöllun félagsmálanefndar kom fram að dómsmálaráðuneytið hefur nú þegar hafið upplýsingaöflun í þessum málaflokki. Nefndin telur mikilvægt að upplýsingar, sem ráðuneytið aflar, komi einnig fram í skýrslunni sem tillagan gerir ráð fyrir. Því er horfið frá því að telja verkefni nefndarinnar upp þannig að tæmandi sé. Félagsmálanefnd telur þó eðlilegt að þau atriði, sem talin eru upp í 1.–3. tölul. komi, auk annars, fram í lokaskýrslunni. Þá er lagt til að 3.–4. tölul. 2. mgr. verði sameinaðir, en þar kemur fram að nefndin skuli ganga frá skýrslu um málið sem lögð verði fyrir Alþingi og geri tillögur um úrbætur.
    Lagt er til að gerð verði breyting á 3. mgr. þannig að lokaskýrsla um málið verði lögð fram á haustþingi 1995.
    Loks er lögð til breyting á fyrirsögn tillögunnar í samræmi við efnisbreytingar á 1. mgr.

Alþingi, 9. maí 1994.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Gísli S. Einarsson.


form., frsm.



Ingibjörg Pálmadóttir.

Jón Kristjánsson.

Einar K. Guðfinnsson.



Kristinn H. Gunnarsson.

Eggert Haukdal.

Guðjón Guðmundsson.