Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 611 . mál.


1299. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um kostnað við snjómokstur yfir Fjöllin veturinn 1993–94.


    Hver er orðinn heildarkostnaður við snjómokstur á leiðinni yfir Fjöllin milli byggða í Mývatnssveit og á Jökuldal veturinn 1993–94?
    Kostnaður er um 9,6 millj. kr.

    Hvaða tækjakostur er notaður við moksturinn og hvernig er að honum staðið að öðru leyti?
    Aðallega er notast við vörubíla með snjóplógum og snjóblásara af stærstu gerð.
    Snjóplógarnir moka á meðan þeir geta en síðan taka snjóblásararnir við. Blásararnir eru einnig mikið notaðir við útmokstur.

    Hversu oft hefur leiðin verið opnuð og hversu lengi hefur hver opnun notast til umferðar að meðaltali?
    Frá því í desember og til aprílloka var vegurinn opnaður 27 sinnum og hann hélst opinn að meðaltali í fjóra daga. Geta má þess að unnið var við snjómokstur mun fleiri daga vegna útmoksturs og frágangs á snjó.

    Hvernig hafa snjóalög verið á þessu tímabili miðað við meðaltalsaðstæður á liðnum árum?
    Snjóalög hafa verið í rúmu meðallagi en óstöðugt tíðarfar hefur valdið því að kostnaður við snjómoksturinn er trúlega í hærra lagi. Þar sem þetta er fyrsti veturinn sem þessi vegur er opnaður reglulega frá hausti til vors vantar samanburð á kostnaði við önnur ár.