Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:52:00 (3599)


[16:52]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hafa aldrei verið mín orð að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki verið að auka fjármuni til vegagerðar, hún hefur hins vegar gert miklu meira úr þeim fjármunum en efni hafa staðið til og verið með talnaleikfimi í því sambandi sem ég tel algjöran óþarfa vegna þess að þessir viðbótarfjármunir til vegamála hafi verið það miklir að það hafi ekki þurft að vera að bæta við það með einhverri talnaleikfimi.
    Það var verulega mikið aukið fjármagn til vegamála, sérstaklega á árinu 1993, og það verður verulega aukið fjármagn til vegamála á árinu 1995. En að öðru leyti er um þetta að segja að þetta hefur verið að fara niður á við og við munum sjá ákaflega mögur ár að óbreyttu þegar á að fara að greiða til baka það lánsfé sem hér er búið að ákveða að nota í þessu framkvæmdaátaki. Það er svo greinilegt að fjármunir til vegagerðar eru raunverulega af skornari skammti en verið hefur á undanförnum árum ef ekki kemur til viðbótarfjármögnun og hæstv. ríkisstjórn hefur verið að burðast við að auka fjármagn til vegagerðar með því að auka skatta á bensín. Það eru náttúrlega töluvert miklir peningar sem þar eru á ferðinni. Hins vegar veit ég ekki hve mönnum helst lengi uppi að bæta við bensínverðið eins og nú hefur verið gert. Það er auðvitað spurning sem hæstv. ríkisstjórn verður að svara eða fylgjendur hennar í þessum kosningum hvort það sé meiningin að halda áfram að innheimta svona mikið gjald af bensíni eins og hér hefur verið innheimt núna. Ég er sannfærður um að það mun vera ein af kröfunum í kjarasamningum að það verði með einhverjum hætti lækkuð útgjöld til þess að gera út heimilisbílinn í landinu því það er orðinn einn af allra stærstu liðum reksturs á einu heimili.