Ráðstafanir vegna erfiðleika loðdýrabænda

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:25:10 (3632)


[15:25]

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er nú svona með hálfum huga að menn tala um loðdýrabúskap hér á Alþingi. Reyndar er svo með fiskeldi líka. Það hefur verið úthrópað að þar hafi verið gerðar einhverjar sérstakar vitleysur. Þar hafi menn hagað sér með þeim hætti að ekki sé til eftirbreytni. Að vísu er það rétt að í loðdýrabúskap, og þó einkanlega í fiskeldi, réðust menn í sumum tilfellum með of mikilli bjartsýni og vissulega hafa tapast fjármunir. Það er eðlilegt að fella niður skuldir af loðdýrabændum og það ber að þakka sem gert hefur verið. Það er eftir að gera nokkuð og að sjálfsögðu er fjöldi bænda mjög illa kominn fjárhagslega eftir þetta ævintýri. Ég vil þó ekki fara héðan, frú forseti, úr þessum ræðustól að þessu sinni öðruvísi heldur en benda á það að þrátt fyrir að menn hafi básúnað það út seint og snemma að á fiskeldi og loðdýrarækt hafi tapast gífurlegir peningar þá eru þeir peningar sem þar töpuðust ekkert meiri en hafa tapast á verslun á Íslandi á undanförnum árum.