Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 12:06:04 (3845)


[12:06]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim sem báðu um þessa skýrslu, hv. þm. Alþb. sem á sínum tíma báðu um skýrsluna og hæstv. landbrh. fyrir þá skýrslu sem nú er komin fram.
    Í skýrslu hæstv. landbrh. segir að erfitt sé að setja fram staðhæfingar um þróun íslensks landbúnaðar sl. þrjú ár og segja til um það hvort landbúnaður sé hagkvæmur og öflugur.
    Að sjálfsögðu eru allar slíkar alhæfingar vafasamar en mér hefur virst að slíkt hafi ekki alltaf vafist fyrir þeim starfsmönnum sem hér ganga um þingsali. Ég tel því það til sóma að hæstv. landbrh. geri

sér grein fyrir því að það er vafasamt að hægt sé að koma með slíkar yfirlýsingar.
    Þróun íslensks landbúnaðar meginhluta þess tíma sem íslenska lýðveldið hefur staðið hefur falið í sér ýmis óheillaspor þó margt fleira hafi orðið til góðs. Af því sem til óheilla horfir og skeði snemma í tilveru lýðveldisins má nefna niðurbútun jarða á Íslandi. Fjölmargar stórar jarðir voru skornar niður í smáskika og urðu þar af leiðandi þegar til lengdar lét mjög óhagkvæmar í rekstri.
    Annað var það að bændur voru hvattir til þess að nota fyrst og fremst tilbúinn áburð. Einmitt þann áburð sem verið var á þessum morgni að kvarta undan hvað kostaði að flytja. En jafnvel að vannýta þann lífræna áburð sem þeir höfðu við fjósdyrnar hjá sér og aðrar húsadyr. Þetta var líka þróun sem gekk allt of langt og fór í vitleysu.
    Hagræðing og samvinna t.d. um samnýtingu tækja og því um líkt var ekki heldur höfð á oddi nema bara fyrstu árin á þessu 50 ára skeiði sem ég er að tala um. Þá var það mjög algengt að bændur slógu sér saman um dýrar vélar og nýttu þær saman. Síðan hefur þróunin gengið í þá átt að hver bóndi út af fyrir sig þurfti að eiga dýrar vélar og samnýting varð minni og minni. Ég held að tækjakostur í íslenskum landbúnaði og kostnaðurinn við hann hafi farið fram úr öllum eðlilegum mörkum. Það er eitt af því sem hefur valdið því hversu erfið staðan er í íslenskum landbúnaði í dag.
    Sá niðurskurður eða fækkun gripa sem hefur verið boðaður og knúinn fram hefur orðið til þess að bændur eru orðnir láglaunastétt. Sums staðar virðist farið offari þannig að skortur á nýmjólk er yfirvofandi á vissum stöðum í landinu og einnig er það kunnugt að Íslendingar hafa eða höfðu um hríð möguleika á að flytja út mjólk og mjólkurafurðir til Grænlands en höfðu ekki afl til þess, svo mikill var niðurskurður nautgripa orðinn á Suðurlandi.
    Það hafa miklar framfarir orðið í framleiðslu mjólkurafurða og tilboðin eru margvísleg. Framboð á kjötvöru hefur einnig orðið fjölbreyttara en áður en miklar framfarir og hagræðingu þarf enn til þess að bændur geti lifað mannsæmandi lífi, einkum á það við um sauðfjárbændur. En það er sannfæring mín að sauðfjárbú þurfa að stækka en fækka til þess að hver bóndi geti haft sæmandi lífsafkomu og hver bændafjölskylda. Því miður erum við Íslendingar aðeins 260 þús. og neysla okkar er því vissum takmörkunum háð. Við það bætist svo að neysluvenjur almennings, einkum ungs fólks, hafa gjörbreyst. Neysla á vörum úr innfluttu hveiti og kornvörum hefur aukist mjög mikið vegna þess að slíkur matur er bæði auðetinn, auðmeltur og ódýr. Í samkeppni hallar því enn á kjötframleiðendur. Þetta er vandamál sem allir hljóta að standa frammi fyrir og gera sér grein fyrir.
    Í skýrslu hæstv. landbrh. kemur í ljós að fáir vildu selja allan framleiðslurétt sinn og því varð flati niðurskurðurinn þeim mun meiri. Þetta hefur auðvitað bitnað afskaplega illa á bændum og þeirra umsvif hvers um sig hafa því orðið miklu minni en í rauninni var þörf fyrir til að lifa af. En hvert áttu bændur að fara ef þeir hættu búskap? Atvinnuleysið hefur blasað við síðustu árin á Íslandi og verið sífellt vandamál. Þeirra beið því mjög oft ekkert annað en aðgerðaleysi og atvinnuleysi, eitthvað það vonlausasta sem til getur verið fyrir þann sem alla tíð hefur unnið og það meira að segja í frelsi búskaparins því fá störf, þó þau séu bindandi, eru eins frjáls eins og starf bóndans sem getur hagað sínum störfum eftir eigin þörfum, vilja og löngunum að svo miklu leyti sem náttúruleg lögmál búskaparins leyfa.
    Atvinnuleysi hefur þar af leiðandi blasað við þessum bændum og bændafjölskyldum og fjárframlögin hafa brugðist til að skapa önnur störf í sveitunum eins og þegar hefur komið fram í dag. Ég tel að framtíð íslensks sauðfjárbúskapar byggist á því að við getum unnið erlenda markaði. Erlenda markaði getum við aðeins reitt okkur á ef sú vara sem við bjóðum getur talist sérstök eða lúxus. Við verðum því að leggja áherslu á að aðstoða bændur til að fara út í lífrænan búskap. Íslenskt lambakjöt er afburðagott á bragðið eins og við vitum, um það erum við sammála, en við erum ekki samkeppnisfær við Nýsjálendinga og fleiri þjóðir í suðri því þeir geta rekið risabúgarða með þúsundum fjár á meðan við með okkar litlu jarðir höfum aðeins örsmáar einingar.
    Við höfum sem sagt skorið allt of mikið niður. Við höfum aldrei haft slíka risabúgarða eins og þjóðirnar í suðri en þessi niðurskurður jarða sem hófst fyrir 1950, ef ég man rétt, var mjög óheillavænlegur.
    Lífræn framleiðsla á íslensku fjallalambi mun í framtíðinni geta orðið arðuppspretta sem kveður að. Það er líka dapurlegt að lesa um það í skýrslunni hve hægt miðar að skapa bændum störf við landgræðslu og skógrækt. Skógarbændum og landgræðslubændum þarf að fjölga. Landið okkar þarfnast þess. Það þarfnast þess sárlega og fólkið í sveitunum þarf að eiga völ á þessum störfum. Þetta er því höfuðnauðsyn allrar þjóðarinnar.
    Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur í ágætri ræðu hér á undan rakið þá bresti sem orðið hafa í framkvæmd búvörulaga og vonandi á hæstv. landbrh. einhver bitastæð svör við því. En ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvort hann og hans ráðuneyti hafi lagt drög að því að koma á útflutningi mjólkur og mjólkurafurða til Grænlands, næsta nágrannalands okkar, og sé svo hvort bændur á Suðurlandi hafi fengið stuðning til að laga framleiðslu sína að því.
    Einnig vil ég spyrja hæstv. landbrh. um það hvað líði stuðningi hans við eflingu lífrænnar ræktunar með það fyrir augum að afla markaðar fyrir þá úrvalskjötvöru sem við höfum upp á að bjóða.
    Það kom fram í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar að markaðsöflun væri í gangi en gaman væri að vita nánar um það hversu langt það er komið og hversu öflugt það starf er og vona ég að hæstv. ráðherra

muni geta svarað einhverju um það.
    Samdráttur í íslenskum landbúnaði er sorgarsaga. Bæði ég og aðrir þingmenn þekkja sorglega þróun þessa og höfum heyrt sagnir um furðuleg viðbrögð ráðamanna við því þegar markaðir fyrir sauðfjárafurðir virtust vera að opnast. Sagnir um furðulega þröngsýni og fákænsku. Slíkt má ekki henda.
    Íslenskar landbúnaðarafurðir er úrvalsvara og of mikill niðurskurður er það sama og að brjóta eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Ég er sammála hv. þm. Páli Péturssyni um það að bændur þurfi að fá heimildir til að framleiða meira hver um sig. Við eigum góða möguleika og ef rétt er á haldið mun þetta fjöregg reynast okkur hið vænsta.