Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 13:11:53 (3861)


[13:11]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þm. Ragnar Arnalds hefur viðurkennt að eyðan er stór að hafa ekki mennina hér sem gerðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fyrrv. búvörusamning. Ég tek undir orð hans að auðvitað ber þeim að vera hér og áttu að vera hér í dag. Ég gerði lítið annað en vekja athygli á að þeirra væri saknað.
    Ég hef ekkert skotið mér undan ábyrgð í þessu máli. Ég hef bent á að skaðinn hvað landbúnaðinn varðar er auðvitað að hafa í framhaldi af því að nýjar vonir kviknuðu, nýir möguleikar, að sitja uppi með ónýta ríkisstjórn gagnvart aðalatvinnuvegi landsmanna, landbúnaðinum. Ég er sannfærður um að ef Framsfl. og Alþb. hefðu náð fylgi áfram og skipað ríkisstjórn saman síðustu fjögur árin þá hefðu þessir flokkar miðað við þá miklu möguleika sem landbúnaðurinn á í útflutningi tekið búvörusamninginn upp á

nýjan leik með það að markmiði að gefa bændunum nýtt tækifæri eins og þeir eiga. Ég er alveg sannfærður um það.
    Hitt er annað mál að Alþb. verður að viðurkenna það að eyðan í búvörusamningnum er afar stór þar sem vantar nafn fyrrv. fjmrh., hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, og á því hef ég vakið athygli. Og vissulega hefur það skaðað búvörusamninginn því að það var kannski agnið sem gerði það að verkum að menn sáu að það var vilji alla vega landbrh. til að koma til móts við bændur en fjmrh. gerði það viljandi eða óviljandi að láta nafn sitt vanta, hæstv. forseti.
[Fundarhlé. --- 13:14]