Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 14:48:55 (3877)


[14:48]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það voru þung orð sem hv. 2. þm. Norðurl. v. hafði um mín störf hér áðan sem ég vil algerlega mótmæla. Sú reglugerð sem hann minntist á var gerð samhliða samningi og forsenda fyrir samningi sem gerður var við Stéttarsamband bænda og undirritaður 28. ágúst 1985 af fulltrúum Stéttarsambandsins, þeim Inga Tryggvasyni, Magnúsi H. Sigurðssyni, Hermanni Sigurjónssyni og Þórarni Þorvaldssyni, með fyrirvara um samþykki aðalfundar Stéttarsambands bænda og þar var þessi samningur staðfestur. Að segja að ég hafi þar komið aftan að bændum er því algerlega rakalaus fullyrðing.
    Það sem hv. þm. mun reyna að finna stoð í sínu máli var það að í þessari reglugerð var gengið út frá því að miða við framleiðslu síðustu ára þannig að heimildum yrði úthlutað til þeirra sem stæðu í búrekstri en ekki til hinna sem væru hættir eða hefðu dregið saman. Sú hugsun sem þarna lá að baki var að þeir nytu þessa magns, sem var það mesta sem hægt var að ná, en ekki þeir sem ekki væru með búreksturinn. Ég er sannfærður um að það var rétt því að að öðrum kosti hefði það orðið þá þungt í skauti að úthluta til hinna sem ekki höfðu framleiðslu á bak við sinn rétt. En að öðru leyti hef ég ekki tíma til að fara frekar út í þetta mál.