Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:06:13 (3941)

[16:06]
     Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Á 117. löggjafarþingi flutti ég till. til þál. um flutning verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ríkissjónvarpinu. Tillgr. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að leita leiða til að flutningur verka Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands geti hafist í ríkissjónvarpinu á árinu 1994. Jafnframt verði athugað með hverjum öðrum hætti starfsemi þessara stofnana og annarra hliðstæðra geti sem best náð til allra landsmanna.``
    Hv. menntmn. afgreiddi þessa tillögu á þann hátt sem hér segir:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að leita leiða til að stuðla að því að leikhúsverk og tónlistarflutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands og aðrir merkir tónlistarviðburðir skili sér betur til sjónvarpsáhorfenda en verið hefur.``
    Í framhaldi af þessum tillöguflutningi og þeirri samþykkt Alþingis, sem ég las hér, hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. menntmrh.:
  ,,1. Er hafinn undirbúningur að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 6. maí 1994 um flutning tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi?
    2. Telur ráðherra mögulegt að hægt verði að framfylgja þeirri ályktun fyrir árið 1996 þegar 30 ár verða liðin frá fyrstu útsendingu íslenska sjónvarpsins?``