Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:13:51 (3944)


[16:13]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Svarið kom hv. fyrirspyrjanda svo sem ekki á óvart og ég verð að segja það líka að umsögn Ríkisútvarpsins kom mér í sjálfu sér ekki á óvart. Mér var kunnugt um þessar ( StG: Sú mikla íhaldssemi þar.) --- ég ætlaði nú ekki að segja það þó að íhaldssemi kunni að vera þar ríkjandi, þá var mér kunnugt um þá skoðun Ríkisútvarpsins að flutningur verka af leiksviði hentaði ekki alltaf flutningi í sjónvarpi. Þá skoðun Ríkisútvarpsins þekki ég mætavel.
    Alþingi getur auðvitað sagt Ríkisútvarpinu fyrir verkum. Ráðherra gerir það ekki varðandi dagskrárefni. Ég hef ekki gert það og mun ekki gera það og ég held að forverar mínir hafi heldur ekki gert það. En Alþingi getur vafalaust sagt Ríkisútvarpinu fyrir verkum.
    Ég ítreka það sem kom fram í svari mínu og ég byggði á umsögn Ríkisútvarpsins að þessum þáttum verður hins vegar áfram sinnt þó það megi ekki gera ráð fyrir því að það verði einhverjir fastir liðir hjá Ríkisútvarpinu. Þeim verður sem sagt sinnt áfram. Ég ítreka líka að umsagnir annarra aðila eiga eftir að berast og mér þykir eðlilegt vegna þáltill. sem hér var samþykkt að Alþingi fái frekari skýrslu um málið þegar betur hefur verið unnið úr umsögnunum.