Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 16:44:19 (3953)


[16:44]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson heldur því fram að hann sé hlynntur flutningi

stofnana út á land. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fella dóm yfir þá staðhæfingu hans sem leyfir öðrum mönnum að draga þær ályktanir sem þeir kjósa af þessum tillöguflutningi.
    Ég segi það hins vegar, virðulegi forseti, að það er dapurlegt að sjá mann með jafnvandaðan feril og hv. þm. Hjörleif Guttormsson detta niður á það stig sem hann hefur gert með þessari tillögu. Það segir sína sögu að þegar horft er yfir þingsalina þá sé ég af þessum sex meðflm. hans aðeins einn í salnum. Hvar eru hinir? Ég spyr. Getur það verið að þeir hafi séð að sér og séð hversu hátt yfir markið er skotið með þessari fáránlegu tillögu, virðulegi forseti? Það kemur mér til hugar. Því miður er sú þáltill. sem hér liggur fyrir byggð á hrapallegum misskilningi og grg. sem með henni fylgir og ýmis fylgiskjöl eru með sama marki brennd. Það er dapurlegt líka að sú leið er farin í greinargerð og textum sem fylgja tillögunni að í stað þess að segja hlutina hreint út er ýjað að þeim. Menn þurfa að lesa vel á milli línanna til að skilja hvert hv. 1. flm. er í rauninni að fara. Það var t.d. athyglisvert að hlusta á hv. 1. flm. tillögunnar segja það hreint út í viðtali, sem segir þó ekki í þessari tillögu sem hann hefur lagt fram, að af hans hálfu þá sé tillagan ekkert annað en vantraust á umhvrh., eða svo vitnað sé orðrétt í hv. þm. Hjörleif Guttormsson í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins, þann 26. okt. 1994, með leyfi forseta:
    ,,Ja, þetta er auðvitað vantraust á ráðherrann þannig af hálfu minni. Ég vil ekki tala fyrir aðra flm.``
    Það er fróðlegt að heyra þetta sér í lagi vegna þess að hv. þm. lagði ekki í að segja það beint út í tillögunni. Það er rösklega að verki staðið, hv. þm. Það væri hins vegar fróðlegt að heyra viðhorf annarra þeirra þingmanna sem hafa stutt tillöguna og flutt með hv. þm. og eru staddir í þingsalnum, ( KE: Það er bara einn.) heyra viðhorf þeirra til þessarar yfirlýsingar hv. þm. Hjöleifs Guttormssonar um hinn ranverulega tilgang með þessari tillögu. Það er líka alveg ljóst þrátt fyrir þá miklu áherslu sem hv. þm. lagði á það áðan að hann væri alls ekki að vega að ákvörðuninni sjálfri um flutning stofnunarinnar. Hann hélt því fram. Auðvitað vegna þess að það er búið að hundskamma hann af öllum í hans eigin flokki og í öðrum flokkum líka vegna þess að hann veit hvað hann er búinn að gera með þessari tillögu. Það er nákvæmlega það og slík vinnubrögð sem gera að verkum að fólk er að ryðjast út úr flokknum í hans eigin kjördæmi vegna þess að hann sinnir allt öðrum verkum en sem snúa að því.
    Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegur forseti, að þessi tillöguflutningur hv. þm. er ekki fallinn til þess að stuðla að flutningi ríkisstofnana út á land. Það er alveg ljóst þegar maður les texta greinargerðarinnar að þar er líka dregið í efa, ég vísa til greinargerðarinnar á fyrstu bls., að umhvrh. hafi heimild til að taka einhliða ákvörðun um flutning þessarar stofnunar. Það er hins vegar alrangur skilningur hvað varðar embætti veiðistjóra. Í lögum sem giltu um embættið og sem gilda um það eftir að þeim var breytt er ekkert kveðið á um staðsetningu embættisins og ráðherra hefur fulla heimild til að breyta henni. Ég vil vekja sérstaka eftirtekt á því að hin fræðilega greinargerð með tillögunni virðist einkum vera fólgin í áliti laganefndar BHMR. Þar kemur fram, með leyfi forseta, að ráðherra getur sennilega breytt staðsetningu stofnunar án lagabreytingar ef ekki er kveðið á um staðsetninguna í lögum. Sama sinnis voru allir aðrir lögmenn sem um þetta voru spurðir, þar á meðal Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður sem veitti ráðuneytinu umsögn um þessa þáltill. sem hér liggur fyrir en það er ágætt að nefna hann hér vegna þess að hv. flm. vísaði einmitt í hann. Það er því engum blöðum um það að fletta að umhvrh. hafði fulla heimild til að taka þessa ákvörðun.
    Eins og ég sagði, virðulegur forseti, þá úir og grúir að missögnum og misskilningi í þessari tillögu og auðvitað sætir það furðu að jafnvandaður þingmaður og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skuli kasta höndunum til verka með þessum hætti. Mér finnst það dapurlegt því ég hafði álit á honum og hef raunar enn.
    Meginstef þessarar tillögu er að ákvörðuninni um flutning á embætti veiðistjóra hafi stjórnsýslulög verið brotin. Og takið eftir að það var nákvæmlega það sem var burðarásinn í málflutningi hv. þm. Í þessu felst einmitt alvarlegasti misskilningur tillöguflytjenda vegna þess að hér speglast í rauninni fullkominn rangskilningur á eðli og tilgangi þeirra laga. Þessi rangskilningur speglaðist vel í máli þingmannsins. Stjórnsýslulögin gilda um samskipti almennings við stjórnvöld en þau gilda ekki um innri málefni stjórnsýslunnar. Í athugasemdum með 1. gr. stjórnsýslulaganna, sem fjallar um gildissvið þeirra, kemur fram að lögunum er einungis ætlað að ná til ákvarðana stjórnvalda sem beinast að borgurunum. Ákvörðunin verður að beinast að tilteknum aðila eða aðilum svo hún teljist stjórnvaldsákvörðun og falli undir svið þessara laga. Ákvörðunin um að flytja embætti veiðistjóra var í rauninni ákvörðun æðra stjórnvalds sem varðaði lægra sett stjórnvald. Hún er því alveg skýrt dæmi um mál sem er ómögulegt að flokka undir annað en innri mál stjórnsýslunnar. Hún er ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi laganna.
    Ég vil, virðulegi forseti, vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson dró fram lagaspekinginn Eirík Tómasson til að styðja mál sitt, vitna líka í greinargerð Eiríks Tómassonar sem er nýlega orðinn prófessor í réttarfari við Háskóla Íslands og virtasti sérfræðingur landsins einmitt á sviði stjórnsýslunnar. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin`` --- þ.e. laganefnd BHMR --- ,,gætir þess ekki í álitsgerð sinni að greina þá ákvörðun að flytja aðsetur stofnunar á borð við embætti veiðistjóra frá þeirri ákvörðun að breyta vinnustað einstakra starfsmanna stofnunarinnar. Að sjálfsögðu leiðir síðari ákvörðunin af þeirri fyrri en samt sem áður verður að gera skýran greinarmun á þessum tveimur ákvörðunum í lagalegum skilningi vegna þess að fyrri ákvörðunin er almenns eðlis og beinist að innra skipulagi stjórnsýslunnar á meðan sú síðari beinist að einstökum starfsmönnum og réttindum þeirra.``
    Síðan segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:   ,,Skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, taka lögin ekki til þeirrar almennu ákvörðunar að flytja embætti veiðistjóra frá Reykjavík til Akureyrar.``
    Þetta er sama vitnið og hv. þm. leiddi hér fram áðan. Það er sem sagt skilningur Eiríks Tómassonar, hæstaréttarlögmanns og prófessors í réttarfari við Háskóla Íslands, að þetta falli ekki undir þessi lög. Þegar ákvörðunin um flutninginn er tekin þá gilda hins vegar ákvæði stjórnsýsluréttar um þær einstöku ákvarðanir sem kunna að leiða af hinni almennu ákvörðun, þar á meðal um að breyta vinnustað einstakra starfsmanna við embætti veiðistjóra vegna flutnings frá Reykjavík til Akureyrar. Þetta þýðir með öðrum orðum að það ber að gefa starfsmönnum kost á því skv. 13. gr. stjórnsýslulaganna að koma á framfæri persónulegum sjónarmiðum vegna fyrirhugaðs flutnings alveg á sama hátt og þegar um er að ræða aðrar veigamiklar breytingar á þeirra störfum. Þetta verða menn að skilja.
    Það er rétt að ýmsum reglum sem hafa verið lögteknar með stjórnsýslulögunum, t.d. rannsóknarreglunni sem er að finna í 10. gr., verður einnig beitt sem óskráðum réttarreglum á öðrum sviðum stjórnsýslunnar. Það er t.d. alveg ljóst og það eina sem ég fann rétt í máli hv. þm. að rannsóknarreglan tekur ótvírætt til þeirra ákvörðunar sem fólst í flutningi embættis veiðistjóra frá Reykjavík til Akureyrar. Hvað þýðir það? Það þýðir að ákvörðunin verður að byggjast á því að fram hafi farið málefnaleg könnum á kostum hennar og göllum áður en hún var tekin. Sú ákvörðun fór fram. Hún fór fram í ráðuneytinu. Fór fram af raunvísindamönnum sem samanlagt hafa tvö doktorspróf og fjórar háskólagráður að auki. Niðurstaðan varð sú að það skaðaði ekki embættið að flytja það frá Reykjavík til Akureyrar og raunar tel ég að það styrki embættið og styrki gildi þess fyrir ríkisvaldið.
    Þegar ákvörðunin lá fyrir óskuðu starfsmenn eftir því að fá tiltekinn frest til að ákveða hvort þeir vildu flytja með stofnuninni. Á meðan átti ráðuneytið viðræður við Akureyrarbæ og það náðist samkomulag um ákveðin kjaraatriði, ákveðin stuðningsatriði til að auðvelda starfsmönnunum flutninginn. Ráðuneytinu bar í sjálfu sér engin skylda til þess að gera það vegna þess að það eru engin atriði í kjarasamningi BSRB eða BHMR um það. Það var gert samt sem áður og það lá samkomulag á borðinu. Niðurstaða starfsmannanna varð önnur eins og kunnugt er, að flytja ekki með stofnuninni, og þess vegna kom ekki til kasta þessa samkomulags.
    Þegar flutningur á stofnun á sér stað þá er réttarstaða starfsmanna alveg skýr. Hún liggur ljós fyrir og ég segi þetta vegna þess að það er spurt sérstaklega um það. Ef launakjör eða önnur starfsréttindi eru ekki skert þá ber starfsmönnum að hlíta ákvörðun um flutning. Að öðrum kosti má líta svo á að þeir hafi sagt upp sínum störfum. Í greinargerð ríkislögmanns frá 1989 um flutning á Skógrækt ríkisins segir, með leyfi forseta:
    ,,Komi sú staða upp að starfsmenn neiti að sæta þessum breytingum á störfum sínum`` --- þ.e. flutningi stofnunar --- ,,verður að telja að þeir hafi þar með fyrirgert rétti sínum til starfans. Slíkt feli í sér lögmætar ástæður fyrir veitingarvaldshafa til að veita þeim lausn frá störfum. Þetta á jafnt við um skipaða sem ráðna starfsmenn. Starfsmenn ættu við þessar aðstæður ekki neinn rétt til bóta vegna frávikningar úr starfi né heldur ættu hinir ráðnu starfsmenn rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti við þær aðstæður.``
    Starfsmannaskrifstofa fjmrn. staðfesti þennan skilning með bréfi til umhvrn. Þar segir líka, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði 33. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gerir starfsmanni skylt að hlíta breytingum lögum samkvæmt á störfum hans. Sama gildir um breytingar sem yfirmaður ákveður en þeirri ákvörðun má skjóta til ráðherra. Verði störfum starfsmanna ofangreindra ríkisstofnana breytt með lögum eða ákvörðun á þann veg að þeir skuli gegna þeim á öðrum stað en hingað til ber þeim að hlíta slíkum breytingum, skv. 33. gr. laga nr. 38/1954 enda hafi breytingin ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hans.``
    Þetta er samdóma álit allra lögmanna sem ég hef rætt við. Réttur ráðherra er sem sagt ótvíræður. En hvernig skyldi þá illmennið sem situr í stól umhvrh. hafa komið fram við umrædda starfsmenn?
    Fyrrv. veiðistjóri, mætur og afar góður vísindamaður sem hefur unnið sér gott orð fyrir alþjóðlegar rannsóknir á ref, vildi ekki flytja með stofnuninni, það var hans réttur. Það hefði verið slæmt að missa jafngóðan vísindamann úr heimi íslenskra vísinda, mann sem ætti heima í embætti fræðimanns við hvaða háskóla sem er og kannski miklu frekar í starfi fræðimanns en í embætti veiðistjóra þar sem menn eru að hneppa oft allt öðrum hnöppum en þeim sem tengjast beinlínis vísindunum.
    Ég rifja það upp, virðulegur forseti, að við afgreiðslu fjárlaga var rekstrarframlag til veiðistjóra hækkað. Hækkunin, sem mætti engum andmælum, er skýrð með svohljóðandi hætti í fjárlögum, með leyfi forseta:
    ,,Hækkunin er vegna kennslu- og rannsóknarembættis við Háskóla Íslands og verður staðan kostuð af fjárlagalið embættis veiðistjóra. Miðað er við að staðan verði stofnuð 1. júní 1995.`` Í framhaldi af því, virðulegur forseti, þá ritaði ég fyrrv. veiðistjóra svohljóðandi bréf:
    ,,Eins og yður er kunnugt hefur umhvrn., að höfðu samráði við Háskóla Íslands, ákveðið að vinna að stofnun prófessorsembættis fyrir yður í stofnvistfræði spendýra við Háskóla Íslands á næsta ári sem kostað yrði af umhvrn. og embætti veiðistjóra. Málið hefur jafnframt verð rætt við menntmrh. Rektor Háskóla

Íslands hefur þegar óskað eftir tilnefningum í dómnefnd til að meta hæfni yðar til kennaraembættis af þessu tilefni.``
    Þetta er gert á grundvelli 37. gr. háskólalaganna sem ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er sérfræðingur í.
    Virðulegur forseti. Ég hafði samband og lét kanna það hjá öðrum starfsmanni veiðistjóraembættisins hvort hann myndi taka boði um að verða veiðistjóri annaðhvort til frambúðar eða tímabundið. Hann tók sér frest til umhugsunar og gaf að því búnu það svar að hann treysti sér ekki til að flytja með embættinu norður. Þegar því var lokið var honum í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands boðið starf sérfræðings þar. Því starfi hefur hann tekið og er starfandi núna við Náttúrufræðistofnun Íslands hér í Reykjavík.
    Þriðja starfsmanninum sem einnig var starfandi við embættið hefur líka verið fundið starf. Með öðrum orðum, hvar liggja þessi meintu réttindabrot starfsmannanna? Ég spyr. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég er afskaplega undrandi á þessum tillöguflutningi.
    Mig langar að lokum að lesa upp úr grein eftir mætan bónda, Hjört E. Þórarinsson á Tjörn, sem birtist í Degi 25. jan. 1994.
    ,,Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum þegar ég heyrði í útvarpsfréttum 16. janúar, að umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hefði ákveðið að embætti veiðistjóra yrði flutt til Akureyrar þar sem það tengdist setri Náttúrufræðistofnunar sem starfar þar. En það er ekki um að villast, þetta var ekki misheyrn. Ákvörðunin hefur verið tekin af þar til bærum aðila. Nú á bara eftir að framkvæma hana.`` (Forseti hringir.)
    Síðan segir: ,,En í því máli að flytja brott úr höfuðstaðnum eina litla ríkisstofnun, sem sinnir þó verkefnum um land allt, hefur ráðherra kunngert þjóðinni vilja sinn afdráttarlausan. Eftir er að sjá viljann birtast í verkinu. Slík aðgerð sem þessi gerist ekki þegjandi og hljóðalaust, það sýnir reynslan.``
    Reynslan hér í dag hefur aldeilis sýnt það. Hér er tekin ákvörðun sem styrkir stofnun, sem styrkir rannsóknirnar á Íslandi og þá rjúka menn upp til handa og fóta á Alþingi Íslendinga og rífast. Fyrir nokkrum dögum voru menn að taka ákvörðun um að flytja til Akureyrar 80--100 manns og væntanlega, með sama málflutningi og sömu röksemdafærslu og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur uppi, rífa 80--100 fjölskyldur upp með rótum og flytja til Akureyrar. Hvar voru þingmenn þá? Var ekki verið að ráðast á fólk og flytja það nauðungarflutningi? Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) hvort þetta mál sé e.t.v. sprottið af allt öðrum hvötum en þeim sem tengjast flutningi stofnana út á land.