Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:26:06 (3966)


[17:26]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá till. sem hér er til umræðu. Mín skoðun er sú að það eigi að flytja ákveðnar stofnanir út á land enda er það stefna ríkisstjórnarinnar og kemur skýrt fram í hvítbók hennar. En það er ekki sama hvernig staðið er að samskiptum við starfsmenn þeirra

stofnana sem á að flytja og það er auðvitað stórmál fyrir starfsmenn þegar vinnustaður þeirra er fluttur milli byggðarlaga og full ástæða til að vanda mjög öll samskipti við þá þegar tekin er ákvörðun um flutning stofnunar.
    Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er það sem segir í greinargerð með tillögunni um athugun á flutningi Landmælinga ríkisins. En allt síðasta ár stóð til að sögn umhvrh. að flytja þá stofnun til Akraness. Það mun hafa verið nálægt áramótum 1993/1994 sem athuganir á þeim flutningi hófust og gert ráð fyrir að stofnunin yrði flutt í stjórnsýsluhús sem var í byggingu á Akranesi og er reyndar enn. Haft var samband við eigendur hússins og arkitekt fenginn til að hanna húsnæði fyrir Landmælingar á annarri hæð hússins u.þ.b. 1.300 fermetra. Það mun hafa verði rætt við starfsmenn Landmælinga um þennan hugsanlega flutning. M.a. mun formaður Flokks mannsins hafa tekið það verkefni að sér. Svo leið tíminn og ráðherra sagði Akurnesingum að það stæði bara á samþykki fjmrh. því þetta kostaði á annað hundrað millj. kr. Í júlí mun svo umhvrh. hæstv. hafa kallað eigendur stjórnsýsluhússins á sinn fund og tilkynnt þeim að hann væri ákveðinn í að flytja starfsemi Landmælinga ríkisins til Akraness, en að vísu þyrfti samþykki fjmrh. til að kaupa húsnæðið. Heimamenn brugðust við þessu með því að undirbúa stofnun eignarhaldsfélags til að kaupa húsnæðið og leigja það ríkinu. Í ágúst lá svo fyrir að ríkið gæti fengið leigt húsnæði á annarri hæð stjórnsýsluhússins á svipuðum kjörum og það húsnæði sem stofnunin er nú í í Reykjavík. Nú virtist allt tilbúið og ráðherra ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun um flutning Landmælinga ríkisins til Akraness. Þó taldi ráðherra sig þurfa að leggja málið fyrir ríkisstjórn. Þar var málið svo kynnt af umhvrh. en engin tillaga lögð fram um flutning stofnunarinnar. Málið lá svo vikum saman og ekkert gerðist þangað til sú tillaga sem hér er til umræðu kom fram á Alþingi, líklega í október frekar en nóvember, og þá var hún notuð sem ástæða til að slá flutningi Landmælinga ríkisins á frest. Þannig hefur málið legið síðan.
    En af hverju málið var ekki afgreitt í ágúst, september, október, er mér hulin ráðgáta. Það er því miður hald manna á Akranesi að það hafi ekki verið full meining í því hjá ráðherra að flytja Landmælingar ríkisins til Akraness. Sumir halda jafnvel að það mál hafi orðið til þegar hæstv. umhvrh. var orðaður við framboð á Vesturlandi fyrir rúmu ári. Ég vil satt að segja ekki trúa því og þess vegna spyr ég hæstv. umhvrh.: Er hann tilbúinn að lýsa því yfir hér og nú að Landmælingar ríkisins verði fluttar til Akraness ef þessi tillaga verður felld eða hún dregin til baka?