Embættisfærsla umhverfisráðherra

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 17:59:01 (3973)


[17:59]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel það miður að hæstv. ráðherra skuli hafa þá skoðun á málinu að það sé slæmt fordæmi ef Alþingi ákveður að láta rannsaka mál með þessum hætti. Ég tel að út af fyrir sig hljóti það alltaf að verða á hverjum tíma ákvörðun þingsins hvort efni séu til. En það er mín skoðun að í þessu tilfelli væri það heppilegra fyrir hæstv. ráðherra því ég held þrátt fyrir allt að hann hafi ekki brotið þannig af sér að það verði honum til neinnar ævarandi hneisu það sem út úr þeirri rannsókn kemur. En mér finnst það vera kannski vísbending um að menn séu smeykir og vilji ekki láta hlutina koma til skoðunar og þess vegna þykir mér miður að heyra að hæstv. ráðherra er á móti því að þessi tillaga verði samþykkt. Ég hefði talið að hann ætti að fagna því og fá þannig að sjá sig hreinsaðan af þeim ásökunum sem hafa komi fram um hans framgang í þessu máli.
    Annað ætlaði ég ekki að segja, hæstv. forseti, um þetta mál. Mér finnst að það sé miður hve fáir þingmenn hafa verið hér við þessa umræðu. Mér finnst það miður að flm. tillögunnar skuli ekki hafa verið mættir hér fleiri til þess að taka þátt í umræðunni. Mér finnst þetta vera það stórt mál og alvarlegt sem hér hefur verið til umræðu að þingið hefði átt að sýna því þá virðingu að hér hefðu fleiri verið til staðar og fleiri hefðu komið þá með skoðanir sínar á því sem hér hefur verið til umræðu.