Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 13:50:00 (3995)

[13:50]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Hér á Alþingi hafa í áratugi tíðkast þær siðareglur að stjórn og stjórnarandstaða sameinast um að vísa málum til nefndar þótt menn kunni að vera þeim efnislega ósammála. Þannig hefur t.d. stjórnarandstaðan í vetur hvað eftir annað stuðlað að því að hægt væri að vísa málum ríkisstjórnarinnar til nefndar vegna þess að svo fáir stjórnarliðar voru mættir. Stjórnarandstaðan hefur þess vegna talið það eðlilegt í siðuðu þingi að stuðla að því að mál fengju þinglega meðferð og að ágreiningur, efnislegur ágreiningur, kæmi fram í atkvæðagreiðslu annaðhvort við síðari umr. eða 2. umr. Ég held ég muni það rétt að það sé aðeins eitt dæmi frá fyrri áratugum um það að komið hafi verið í veg fyrir að mál fengi eðlilega meðferð í nefnd og þá varð sú skipting ekki milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að ég hef verið að heyra það hér í salnum að það hafi verið tekin ákvörðun um það af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að í atkvæðagreiðslu um það mál sem nú á að greiða atkvæði um ætli ríkisstjórnarflokkarnir hér á Alþingi að koma í veg fyrir að málið fái þinglega meðferð með því að greiða atkvæði gegn því að málið komi til síðari umr. og verði vísað til nefndar.
    Enginn gat um slíka áætlun í umræðum um þetta mál hér í gær. ( Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Er það ekki rétt? ( Gripið fram í: Ég lagði til að það yrði fellt.) Það er hægt að leggja til að mál verði fellt, hv. þm., það gerum við iðulega hér við 1. umr. Ég vil þess vegna spyrja um það áður en starfið heldur hér áfram og atkvæðagreiðslan hefst: Er þetta rétt? Er það rétt að forustuöfl ríkisstjórnarflokkanna hafi tekið pólitíska ákvörðun um það að beina því til þingmanna sinna að greiða atkvæði gegn því að málið fái þinglega meðferð? Ef svo er þá eru það ný vinnubrögð hér á Alþingi í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu. Og ef það er svo til viðbótar þannig að forustuöfl þingflokka ríkisstjórnarflokkanna hafi ekki haft manndóm eða heiðarleika til að segja frá því fyrir fram formlega að ætlunin sé að brjóta þessa hefð með þessum hætti við þessa atkvæðagreiðslu þá er það enn alvarlegra mál í siðuðu samfélagi hér í þinginu. Ef ætlunin er bara að lauma því hér inn í atkvæðagreiðsluna sjálfa.
    Ég trúi því í raun og veru varla að slíkt sé að gerast hér. Þá er kannski meiri efniviður í þessari tillögu heldur en margir hafa viljað vera láta, ef hún má ekki einu sinni fá þinglega meðferð. (Forseti hringir.) Ég vil þess vegna áður en atkvæðagreiðslan hefst, virðulegur forseti, biðja einhvern af forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, annaðhvort þingflokksformanninn eða sjálfa forustumenn ríkisstjórnarflokkanna að upplýsa okkur um það áður en atkvæðagreiðslan hefst hvort sá orðrómur sem hér gengur um þingsalinn sé réttur og hvort ákvörðun hafi verið tekin (Forseti hringir.) um það að greiða atkvæði gegn þinglegri meðferð þessarar tillögu.