Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:11:29 (4004)


[14:11]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Ég tel eins og ýmsir aðrir sem hér hafa talað að hér sé mjög alvarlegt mál á ferðinni. ( SigG: Vantraust er alvarlegt mál.) Hér er ekki verið að ræða um vantraust. Hér er verið að ræða um það að vísa máli til nefndar. Ég tel að ef það verður ekki gert í dag, þá sé hér um að ræða atlögu að þingræðinu. Það er verið að koma í veg fyrir lýðræðislega meðferð á þáltill., tillögu hér á Alþingi sem sex þingmenn hafa lagt fram. Ég vil bara benda hv. þingmönnum á það ef þeir skyldu vera búnir að gleyma því að við erum að ræða í sérstakri nefnd á vegum Alþingis um að breyta mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég tel að hér sé verið að brjóta mannréttindi ef þingmenn sem leggja fram tillögur fá þeim ekki vísað á eðlilegan hátt til nefndar. Það er bara það sem málið snýst um. Og ég vil leiðrétta hv. 7. þm. Norðurl. sem hér sagði áðan að hv. þm. Kristín Einarsdóttir hefði verið að taka efnislega afstöðu til þessarar tillögu. Hún talaði ekkert um það í sínu máli. Hun sagðist ekki hafa tekið efnislega afstöðu til þeirra tillagna sem hún hafði verið að enda við að greiða atkvæði með að færu til síðari umr. og nefndar þannig að það er allt annað mál sem þar er verið að tala um.