Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:13:23 (4005)


[14:13]
     Guðni Ágústsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Ég er einn þeirra þingmanna sem áttu kost á því að skrifa upp á þessa þál. en gerði það ekki og við lokaafgreiðslu þessa máls veit ég ekki nema ég greiði atkvæði gegn því. En hér er ég nú kominn upp samt vegna þess að ég undrast ummæli hæstv. forsrh. sem lítur á þáltill. sem hreina vantrauststillögu á ráðherra þegar menn eru að vísa til stjórnarskrárinnar og biðja um athugun á embættisfærslu ráðherrans gagnvart starfsmönnum. Ég fellst á það sem þingmaður og tel eðlilegt sem þingmaður að þetta mál, eins og svo mörg önnur, fái hina þinglegu meðferð og ég tek undir það með hv. þingmönnum að hæstv. umhvrh. verður grunaður um að það séu maðkar í mysunni ef þetta mál fær ekki hina þinglegu meðferð og fær ekki að fara hina réttu leið í þinginu og kemur síðan fullbúið, hæstv. forsrh., úr nefnd þar sem vonandi liggur fyrir að hæstv. umhvrh. verður sýkn saka og málinu þá vísað frá í fyllingu tímans. Við erum alþingismenn á löggjafarsamkomu þjóðarinnar og verðum að bera virðingu fyrir því að sitt sýnist hverjum. Hér er svo, hæstv. forsrh., að einhver hópur hv. þingmanna telur að brotið hafi verið á starfsmönnum og biður um rannsókn sem þeir eiga fullan rétt á samkvæmt stjórnarskránni og þingsköpum. Hví skyldum við berja þá niður áður en málið hefur verið skoðað?
    Svo er einnig um einhvern hluta þjóðarinnar, að hún mun taka undir skoðunina með þessum þingmönnum og segja: Valdið var notað enn einu sinni á Alþingi Íslendinga til þess að fela sannleikann. Það

er vond ríkisstjórn sem fer þessa leið.