Embættisfærsla umhverfisráðherra

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 14:31:11 (4014)


[14:31]
     Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Aðeins vegna þess að mér heyrist að menn hafi misskilið mál mitt hér áðan. Atkvæðagreiðsla um hvort mál skuli fara til nefndar eða ekki felur auðvitað í sér það hvort þingmönnum þykir málið þess virði að um það sé fjallað í nefnd. Svo einfalt er málið og það er auðvitað efnisleg afstaða á sinn hátt. Ég sagði aldrei að í því fælist hvort menn væru samþykkir því sem í tillögunni sjálfri fælist. En það er hægt að hugsa sér að mál séu með þeim endemum að þingmenn telji ekki verjandi að málið fái afgreiðslu í nefnd. Það er til og ég vil aðeins minnast á að einu sinni kom það fyrir að forseti, í því tilviki sú sem hér stendur, hafnaði þingmáli og bar það síðan undir þingheim, en það var fyrirspurn sem fjallaði um það hvort starfsmenn Seðlabankans gerðu ekkert annað en naga blýanta. Forseta þótti þetta ekki mál sem vert væri að ræða og hafnaði fyrirspurninni. Sem betur fer studdi síðan þingheimur þann úrskurð þannig að vel má hugsa sér að mál séu ekki þess virði að fara til nefndar. En um það erum við að greiða atkvæði hvort okkur þyki ástæða til að málið fari til nefndar svo að það sé alveg skýrt hvað ég átti við. Og eins og ég hef áður lýst, þá tel ég að þetta mál eigi að sjálfsögðu að fara til nefndar. ( MB: Eru ekki allir blýantar uppétnir?)