Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:11:13 (4075)


[15:11]
     Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni í þessu sambandi fjölda námsmanna en við umræðu um lánasjóðsfrv. vorið 1992 var því haldið fram af fulltrúum námsmanna og stjórnarandstöðu að menn mundu hrekjast frá námi í stórum stíl vegna laganna og þessu hefur verið haldið fram alveg fram á síðustu daga. Þetta hafa sem betur fer reynst hrakspár því að á milli áranna 1991 og 1992, þ.e. síðasta skólaárs sem eldri lög giltu og svo skólaársins 1994--1995 fjölgaði íslenskum námsmönnum í lánshæfu námi um rúmlega 200. Það er heldur ekki samasemmerki á milli fjölda námsmanna í námshæfu námi og fjölda lánþega lánasjóðsins. Það eru einfaldlega ekki allir sem taka lán þó þeir eigi rétt á þeim. Lánþegum hefur hins vegar fækkað og þeim fækkaði úr rúmlega 8.100 skólaárið 1991--1992 í tæplega 6 þúsund samkvæmt áætlun á þessu skólaári og hlutfall lánþega miðað við fjölda námsmanna í íslenskum skólum hefur lækkað úr 63% á skólaárinu 1990--1991 í 44% skólaárið 1993--1994. En á sama tíma hefur námsmönnum í lánshæfu námi fjölgað. Af þessari staðreynd má draga þá ályktun að fleiri námsmenn sem í raun þurfa ekki á lánum að halda láti vera að nýta sér lánsrétt sinn. Þá má líka í því sambandi minna á að í umræðum um Lánasjóð ísl. námsmanna hafa oft heyrst raddir um að margt fólk hafi nýtt sér þennan rétt þótt það þyrfti ekki endilega á lánsfé að halda vegna námsins.