Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:17:46 (4079)

[15:17]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Mér datt svo sem í hug að taka með mér eitthvað af gömlum ræðum hv. þm. Svavars Gestssonar frá því að við ræddum málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna fyrr á þessu kjörtímabili og ræður fleiri þingmanna en ég hætti við það vegna þess að ég reiknaði með að hv. þm. Svavar Gestsson mundi flytja eitthvað af gömlu ræðunum sínum aftur þannig að ég þyrfti ekkert að vera að rifja þetta upp. Sú hefur raunar orðið reyndin. ( VS: Enda full ástæða til þess.) Já, það má vel vera að það hafi verið ástæða til og ég reikna satt að segja fastlega með því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem greip hérna fram í muni líka flytja eina af gömlu ræðunum sínum um lánasjóðinn hér á eftir hafi þingmaðurinn beðið um orðið. ( Gripið fram í: Ráðherrann hlýtur að vilja fá nýja ræðu.) En það kannski þarf ekki. Það er nóg að fletta þessu upp. ( Gripið fram í: Málið er óbreytt.) Málefnið er óbreytt já, en það hefur ýmislegt komið í ljós frá því að lögin voru sett 1992, en hv. þm. Svavar Gestsson sem hér hefur þegar talað virðist ekki í neinu hafa tekið tillit til þeirra staðreynda sem við blasa núna. Ég segi þetta eftir að hafa hlustað á ræðu hans.
    Hann sagði t.d. í andsvari áðan að nemendur hafi verið hraktir þúsundum saman, þúsundum saman hafi menn verið hraktir frá námi vegna þessara nýju laga frá 1992 um Lánasjóð ísl. námsmanna. Nú bið ég hv. þm., vegna þess að ég veit að hann á eftir að tala aftur, að finna þessum orðum sínum stað. Það er nóg til af skýrslum um þetta. Ég skal láta hann hafa eina hérna á eftir og ég efast ekkert um að hann hefur viðað að sér ýmsum gögnum og þá langar mig til þess að vita hvernig í ósköpunum hann fer að því að lesa þetta út úr þeim skýrslum sem eru til. Ég trúi því að hann muni skýra hv. Alþingi frá því hvernig hann fær þetta út.
    Það er sem sagt hamrað á einhverri svakalegri fækkun lánþega eins og hv. þm. orðaði það, einhverri svakalegri fækkun. Það er þegar búið að nefna tölur, hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir gerði það hér áðan í andsvari. En það er ekkert talað hins vegar um fjölgun námsmanna. Það er ekki minnst á það, ekki einu orði, það er bara talað um á sama tíma að námsmenn þúsundum saman hafi verið hraktir frá námi vegna laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta er málflutningur sem er satt að segja ekki sæmandi fyrir hv. alþingismenn og alls ekki fyrir fyrrv. menntmrh. Það er bara ekki hægt að una við svona.
    Ég ætla ekkert að fara að verja hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson sem hv. þm. var að tala um og hans afskipti af menntamálum. En ég hlakka auðvitað til og vona að mér endist líf og heilsa til þess að lesa ævisögu hv. þm. Svavars Gestssonar sem hann var að boða hérna áðan að mundi koma út, hann sagði ekki hvenær, en ég hlakka ekkert sérstaklega til þess til þess að lesa kaflann um hæstv. utanrrh. heldur ýmsa aðra kafla þar sem ég treysti að verði ekkert dregið undan. Það gæti orðið spennandi lesning. ( SJS: Það er aðallega í ævisögu Eggerts Haukdals.) Já.
    Þetta frv. hv. þingmanna Alþb. gengur fyrst og fremst út á það að teknar verði upp samtímagreiðslur að nýju og hv. 1. flm. talaði um að þetta væri einmitt alvarlegasti gallinn á gildandi lögum, samtímagreiðslurnar. Lítum aðeins á hvað hefur breyst eftir að lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna tóku gildi 1992. Það sem hefur gerst er að það hefur tekist að forða LÍN frá greiðsluþroti en þetta greiðsluþrot blasti við í upphafi kjörtímabilsins. Það hefur tekist að treysta fjárhag sjóðsins til frambúðar. Að sjálfsögðu hefur verið dregið úr fjárþörf hans en tekist hefur að veita samt sem áður þá námsaðstoð að sókn íslenskra námsmanna í lánshæft framhaldsnám er síst minni en var áður en lögin voru sett 1992. Ríkisstjórnin og stjórn lánasjóðsins settu sér í raun þríþætt markmið í málefnum sjóðsins á kjörtímabilinu. Það var:
    1. Að tryggja að LÍN gæti haldið áfram að gegna mikilvægu hlutverki sínu í þjóðlífinu og stuðla að jafnrétti manna til náms án tillits til efnahags.
    2. Að reisa fjárhag sjóðsins við, efla hann og ná jafnvægi til frambúðar í fjárþörf hans.
    3. Að stuðla að eðlilegri sókn íslenskra námsmanna í lánshæft framhaldsnám þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir sem brýn nauðsyn var að grípa til.
    Þessum markmiðum hefur verið náð. Það eru einfaldlega staðreyndir og ég minni á eftirfarandi meginatriði í því samhengi. LÍN var sem sagt forðað frá greiðsluþroti í byrjun kjörtímabils með margvíslegum aðhaldsaðgerðum og fjárhagsstaða sjóðsins hefur verið treyst. En gjaldþrota sjóður stuðlar ekki að jafnrétti til náms, það hljóta allir menn að skilja. LÍN tryggir námsmönnum eftir aðgerðirnar hliðstæða eða meiri fjárhagslega aðstoð meðan á námi stendur en sambærilegir sjóðir á Norðurlöndum en Norðurlönd eru fremst Evrópuríkja á sviði námsaðstoðar. Sérstaða íslenskrar námsaðstoðar er óbreytt. Námsmönnum með börn á framfæri er tryggð meiri námsaðstoð en um getur í nálægum Evrópulöndum.
    Þrátt fyrir almennar aðhaldsaðgerðir hafa verið settar ýmsar reglur sem eru námsmönnum til hagsbóta. Námsmönnum í lánshæfu framhaldsnámi hefur fjölgað á gildistíma nýrra laga en lánþegum hins vegar hefur fækkað. Þær hrakspár hafa þess vegna ekki ræst að breytt lög um sjóðinn væru til þess fallin að hrekja menn í stórum stíl frá námi eins og hv. 1. flm. sagði hér áðan að hefði gerst. Það er beinlínis rangt. ( SvG: Það er ekki rangt.) Það er víst rangt og nú bíð ég eftir að hv. þm. færi þessum orðum sínum stað hér á eftir. Það er engan marktækan mun að greina á hlutfallslegum fjölda í einstökum hópum lánþega LÍN fyrir og eftir lagabreytingu, t.d. eftir kynferði, búsetu í landinu eða fjölskyldustærð. Hv. þm. hamraði á því að lánþegum utan af landi hefði stórfækkað. ( SvG: 40%.) Ég kannast ekki við þá tölu og langar til að fá að sjá þessa skýrslu, hv. þm. ( SvG: Þetta er í skýrslu háskólaráðs.) Ákvæði laganna um útborgun námslána eftir að árangri er skilað, þ.e. eftirágreiðslan, hefur treyst alla framkvæmd aðstoðarinnar og auðvitað dregið verulega úr fjárþörf sjóðsins. Ákvæðið og reglan um 100% námsframvindu minnkar fjárþörfina um 600--700 millj. kr. á ári. Það munar um minna. Skil á upplýsingum um námsframvindu hafa gerbreyst til batnaðar og ofgreiðslulán eru hverfandi en þau voru áður mikið og kostnaðarsamt vandamál. Það eru staðreyndir sem lágu á borðinu. Námsmönnum hefur verið bættur breyttur útborgunartími með vaxtaábót á öll námslán. Um aðferðir við útreikning vaxtaábótar er nú orðin sátt við fulltrúa námsmanna. Um þetta voru deilur en það er sátt í stjórn lánasjóðsins. Þessi ábót nam tæplega 42 millj. kr. skólaárið 1993--1994.
    Regla um að fullt lán sé einungis veitt fyrir 100% árangur hefur leitt til þess að námsárangur lánþega sjóðsins hefur batnað verulega. Þetta hefur m.a. orðið til þess að virkni stúdenta eins og það er kallað, virkni stúdenta í Háskóla Íslands hefur aukist eins og háskólarektor hefur ítrekað komist að orði. Þjónusta LÍN við námsmenn hefur öll verið endurskipulögð og aukin til muna á kjörtímabilinu og m.a. í samvinnu við námsmannasamtökin.
    Ég ætla að víkja örfáum orðum frekar að þessu sem ég hef þegar nefnt. Í raun og veru var ástand sjóðsins, LÍN, þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda að það hafði skapast hættuástand í fjármálum sjóðsins. Til marks um það nefni ég að ríkisstjórnin þurfti að hækka ríkisframlag til sjóðsins um 700 millj. kr. á árinu 1991 og auka lánsheimildir um 670 millj. frá því sem var árið áður til þess að ná endum saman. En heildarútlán þá urðu 4.650 millj. árið 1991 þrátt fyrir breytingar sem gerðar höfðu verið á úthlutunarreglum. Og hvers vegna skyldi þetta hafa orðið svo, þessi mikla fjárþörf sjóðsins? Jú, námslán höfðu hækkað um 20% umfram verðlag á árunum 1989--1990 með reglugerð sem þáv. menntmrh. Svavar Gestsson setti. En á sama tíma, og menn hafi það nú í huga, voru fjárveitingar af samráðherra hv. þm. Svavars Gestssonar og þáv. hæstv. menntmrh., af samráðherra hans í ríkisstjórn, Ólafi Ragnari Grímssyni, lækkaðar verulega og síðast við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1991 sem vekur auðvitað sérstaka athygli og sýnir skýrt óraunsæi þeirra félaga að því er varðar fjarmögnun þessa mikilvæga aðstoðarsjóðs fyrir námsmenn.
    Núv. ríkisstjórn gekk sem sagt í það að reisa við fjárhag sjóðsins. Í fyrsta lagi með nýjum lögum, aðhaldsaðgerðum og eðlilegum fjárveitingum þannig að hægt væri að tryggja íslenskum námsmönnum áfram jafnrétti til náms án tillits til efnahags. Gjaldþrota sjóður tryggir engum jafnrétti til náms, það ítreka ég. Helstu aðhaldsaðgerðir til að draga úr fjárþörf voru þessar: Hækkun lána sem ákveðin var 1989--1990 var dregin til baka. Þetta þýddi 16,7% lækkun framfærslulána. Lán vegna skólagjalda voru takmörkuð og eftirágreiðsla samkvæmt 6. gr. og 100% reglan um námsframvindu lækkuðu fjárþörfina um 600--700 millj. eins og ég sagði áðan. Fjárhagurinn var treystur enn frekar með ýmsum aðgerðum. Ég hef t.d. beitt mér fyrir lækkun á lántökukostnaði sjóðsins og að útvega lán til 15 ára til þess að greiða styttri og óhagstæðari lán. Þessi lán sem þannig hefur verið skuldbreytt eru fyrst og fremst tekin til þess að skuldbreyta lánum sem voru tekin á tímabilinu 1989--1991. Með öllum þessum ráðstöfunum hefur fjárhagsstaða sjóðsins breyst til mikilla muna.

    Ég hlýt að geta þess líka í þessu samhengi að hefði engu verið breytt í lögum eða úthlutunarreglum frá 1991 værum við nú að glíma við 5.000 millj. kr. vanda --- 5 milljarða kr. vanda vegna útlána ef sú upphæð er framreiknuð sem þá þurfti til þeirra þarfa samkvæmt þeim reglum sem þá giltu. Af því hefði þurft að veita 66% framlag úr ríkissjóði samkvæmt útreikningum Ríkisendurskoðunar um kostnað námsaðstoðar samkvæmt eldri lögum, þ.e. 3.300 millj. kr.
    Ég hef þegar getið um sérstöðu íslenskrar námsaðstoðar og skal ekki eyða miklu fleiri orðum um það en við sérstöðu námsaðstoðar á Íslandi, þ.e. miklu fjölskyldutilliti, var ekki hróflað í aðhaldsaðgerðum stjórnar LÍN. Þvert á móti hefur stuðningur við námsmenn með börn á framfæri verið aukinn, t.d. við afgreiðslu úthlutunarreglna fyrir skólaárið 1994--1995 þegar hætt var að líta á barnabætur sem tekjur.
    Stjórn LÍN hefur samtímis verulegum aðhaldsaðgerðum gert margar og mikilvægar ráðstafanir námsmönnum í hag eins og ég sagði áðan og ég skal nefna nokkur dæmi.
    Dregið hefur verið úr skerðingu lána vegna öflunar tekna. Lægra hlutfall af umframtekjum kemur til lækkunar á láni en áður var. Skerðing lána vegna tekna umfram frítekjumark var 75% í tíð fyrri stjórnar en var lækkað í 50% af núv. stjórn og þá var ákveðið að telja ekki barnabætur og barnabótaauka til tekna sem var mjög til hagsbóta fyrir barnafólk. Réttur til sumarlána hefur verið aukinn þegar menn eru að ljúka námi og þetta hefur auðveldað mönnum mjög að flýta námslokum. Svigrúm til aðstoðar í framhaldsskólanámi hefur verið aukið í sumum tilfellum til viðbótar svigrúmi sem menn áttu rétt á samkvæmt fyrri reglum. Mönnum hefur verið veitt lán í eitt viðbótarmissiri ef menn ljúka veigamiklu lokaverkefni, t.d. í mastersnámi. Það hefur verið komið til móts við menn sem hafa verið að ljúka námi eftir að nýjar reglur tóku gildi um námsframvindu. Þeir hafa getað fengið fullt lán þó að einingar sem þeir ljúka nái ekki 100% námsframvindu enda hafi þeir átt eftir meira en 50% af námsárangri eins missiris.
    Ég skal ekki fara út í frekari tölur um að námsmönnum hafi fjölgað í lánshæfu námi. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir nefndi þær tölur áðan en ég vil aðeins nefna eina mikilvæga ástæðu fyrir því að nemendum hefur fækkað erlendis. Það er vafalaust sú meginástæða að lánum vegna skólagjalda hefur verið breytt. Nú eru einungis veitt almenn lán vegna skólagjalda fyrir framhaldsskólanám en lán á markaðskjörum banka vegna sérnáms eða grunnháskólanáms erlendis. Þess vegna má segja að sókn íslenskra námsmanna í dýrt grunnháskólanám og sérnám erlendis hafi minnkað en aukist þeim mun meira í slíkt nám hér heima fyrir.
    Fulltrúar námsmanna og stjórnarandstöðu héldu því fram að menn mundu hrekjast frá námi og því er raunar haldið fram enn eins og menn hafa heyrt hér í dag í þessari umræðu, þeir mundu hrekjast frá námi í stórum stíl vegna laganna. Þessu hefur verið haldið fram alveg linnulaust, alveg fram á síðustu daga og alveg fram á þennan dag. En þetta hafa sem betur fer reynst hrakspár.
    Hlutfallslegur fjöldi einstakra lánþegahópa er svipaður eins og ég sagði áðan. Hlutfall kvenna af heildarfjölda lánþega hefur hækkað jafnt og þétt allan síðasta áratug og hefur verið 49% árið 1991--1992, fór í 48% 1992--1993 og 49% aftur. Hlutfall einstæðra foreldra hefur verið hliðstætt síðustu ár, 7% 1990--1991, 8% 1991--1992 og tvö síðustu skólaár aftur 7%.
    Þá sýnir athugun, sem óskað var eftir af fjárln. Alþingis, að hlutfall lánþega eftir kjördæmum er mjög hliðstætt fyrir og eftir lagabreytingu. Þess vegna spyr ég hv. þm. Svavar Gestsson hvaðan hefur hann þessar tölur sem hann kom áðan með. Þetta eru þær tölur sem ég hef og voru lagðar fyrir fjárln. Alþingis samkvæmt beiðni hennar. Á ég að trúa því að hann sé að búa þessar tölur til? Mig langar að fá frekari upplýsingar.
    Fjölmiðlar hafa oft á kjörtímabilinu fjallað um fjölda námsmanna í lánshæfu námi og er athyglisvert að hafi komið fyrir að fækkað hafi í lánshæfu námi í íslenskum skólum eins og t.d. varð haustið 1992 þegar konum fækkaði lítillega frá fyrra ári. Þá varð mikið fjaðrafok í fjölmiðlum og lögum og reglum LÍN var kennt um. En það má spyrja: Er þá lögum og reglum LÍN svo að þakka að námsmönnum, bæði konum og körlum, hefur nú fjölgað við Háskóla Íslands um rúmlega 500 manns frá skólaárinu 1991--1992? Er það þá að þakka reglum LÍN? Svari nú hver fyrir sig. Um þetta hefur ekkert verið fjölyrt. Ég var búinn að gera grein fyrir hlutfalli kvenna frá 1990--1991. ( SvG: Ég sagði kenna.) Eða kenna? Já, það er nefnilega það. Það má kannski orða það svo.
    Ég hef líka sagt að þjónusta við námsmenn hafi verið stóraukin. ( Gripið fram í: Í góðu lagi?) Já, þetta er nefnilega í góðu lagi þó það sé mjög erfitt fyrir hv. stjórnarandstæðinga að viðurkenna það. Hv. stjórnarandstæðingar viðurkenna engar staðreyndir sem liggja núna á borðinu. Það má vel skilja áhyggjur þeirra þegar við vorum að setja lögin en að þeir skuli ekki taka tillit til neinna staðreynda sem liggja núna á borðinu, það þykir mér svolítið verra.
    Hæstv. forseti. Ég er búinn með tímann en á margt eftir að segja en ég kemst að aftur. Ég vil aðeins í lokin, það tekur mig nokkrar sekúndur, nefna helstu áhrif 6. gr. sem hér er lagt til að verði breytt til fyrra horfs.
    Mikilvægustu áhrifin á framkvæmd námsaðstoðar eru þessi: Skil lánþega á upplýsingum um námsframvindu hafa gjörbreyst og eru mun betri en áður. Ofgreidd lán eru nú hverfandi en voru áður verulegt vandamál. Afköst lánþega LÍN í námi hafa aukist. Útborgunartími lána hefur breyst en lán hækkuð með vaxtaábót. Aðhald hefur aukist í allri framkvæmd útlána sjóðsins. Fjárþörf sjóðsins hefur minnkað verulega eða a.m.k. um 600--700 millj. kr. vegna ákvæðis 6. gr. Að sjálfsögðu styð ég að málið fari til 2. umr.

og hv. menntmn.