Lánasjóður íslenskra námsmanna

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 15:42:20 (4082)


[15:42]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að lesa upp allar tölurnar sem ég var með sem sýna það auðvitað bersýnilega að það er um að ræða, t.d. ef við skoðum verknámið, verulega fækkun frá því sem var áður á heildarbreytingunni á námsmannafjöldanum og lánþegafjöldinn fer úr 8.100 niður í 6.000. Það er bara þannig. Það þýðir ekkert fyrir ráðherrann að koma hér aftur og aftur og berja höfðinu við steininn. Svo má bæta því við að á næstu árum áður en breytingin átti sér stað fjölgaði lánþegum alls um 18,9% en síðan breytingin hefur átt sér stað á jafnmörgum árum hefur lánþegum fjölgað um 8,6% á sama tíma og skólakerfið hefur þanist út, á sama tíma og það hefði átt að vera að gerast að námsmönnum hefði fjölgað enn þá meira. Það er augljóst mál að stöðnunin í skólamálum sem átt hefur sér stað í besta falli hefur þýtt stórfellda afturför að því er háskólamenntun í landinu varðar og það alvarlega er að verknámið, svo veikt sem það hefur verið, hefur fengið enn þá harðari kjaftshögg og erfiðari en háskólanámið hefur fengið.