Öryggi í samgöngumálum Vestfjarða

91. fundur
Mánudaginn 13. febrúar 1995, kl. 15:52:18 (4170)


[15:52]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. 5. þm. Vestf. sagði og eiginlega undir hvert einasta orð sem hann sagði í sinni ræðu. Ég tel að þetta mál hafi ekkert erindi átt í utandagskrárumræður. Þetta er tillaga Vegagerðarinnar sem er rædd við þingmenn málefnalega og jafnframt er reifað hvað hægt væri að gera líka á móti. Ég vil fá góðan veg um Djúpið, ég vil fá góða vegi um Vestfirði og allt Ísland. Ég hefði aldrei gengið inn á það að Djúpbáturinn yrði lagður niður nema hann yrði gerður út frá Vestfjörðum sem skólaskip. Þannig stendur á að skólaskipið er ónýtt og það hefði þurft að fara annars í stórfelldar framkvæmdir þess vegna. Því ekki að huga að þessari tillögu og setja það að skilyrði að skipið verði staðsett á Ísafirði þannig að ef eitthvað kemur fyrir, eins og hefur komið fyrir í tvö ár í röð, að það gæti gripið inn og það skipti engu máli hvort það héti Djúpbátur eða skólaskip Slysavarnafélagsins. Ef slíkir samningar nást þá er mikill fengur að því að koma því í gegn. Þetta er á viðræðurstigi núna. Ég hefði aldrei hlustað á það að leggja Fagranesið niður ef ekki væri skip aftur við hendina þó það sé skólaskip og ég tel feng að því fyrir Vestfirðinga að fá það. Ég vil því mælast til þess að menn hlaupi ekki upp með tillögu sem ekki er búið að taka neina ákvörðun um og er á viðræðustigi. Ég tel að það hafi verið mikil fljótfærni hjá hv. þm. að biðja um utandagskrárumræðu á Alþingi.