Minning Jónasar G. Rafnars

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 13:33:40 (4247)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Jónas G. Rafnar, fyrrverandi bankastjóri og alþingismaður, andaðist í fyrradag, sunnudaginn 12. febrúar, 74 ára að aldri.
    Jónas Gunnar Rafnar var fæddur á Akureyri 26. ágúst 1920. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Rafnar, yfirlæknir á Kristneshæli í Eyjafirði, sonur Jónasar prófasts á Hrafnagili Jónassonar, og Ingibjörg Bjarnadóttir prófasts í Steinnesi í Austur-Húnavatnssýslu Pálssonar. Hann brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1940 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1946. Að prófi loknu rak hann lögfræðiskrifstofu á Akureyri frá hausti 1946 til ársloka 1962, varð héraðsdómslögmaður 1947. Jafnframt var hann erindreki Sjálfstfl. á Norðurlandi og Austurlandi 1946--1960. Hann var settur bankastjóri Útvegsbanka Íslands í Reykjavík frá hausti til ársloka 1961 og aftur 1963--1967, en var þá fastráðinn bankastjóri og gegndi því starfi til 1984.
    Jónasi G. Rafnar voru falin margs konar trúnaðarstörf. Hann átti sæti í síldarútvegsnefnd 1953--1955, var formaður milliþinganefndar um brunatryggingar utan Reykjavíkur 1954, í flugráði 1955--1963, í stjórn Laxárvirkjunar 1956--1961 og var kjörinn í yfirmatsnefnd um stóreignaskatt 1957. Hann var bæjarfulltrúi á Akureyri og í bæjarráði fyrir Sjálfstfl. kjörtímabilið 1958--1962. Í stjórn Útgerðarfélags Akureyringa var hann 1958--1960, í bankaráði Seðlabanka Íslands 1961--1963 og árið 1962 var hann skipaður formaður nefndar til að endurskoða lög um Iðnlánasjóð, formaður endurskoðunarnefndar laga um síldarútvegsnefnd og formaður nefndar til að endurskoða lög um loftferðir. Árið 1965 var hann skipaður í stóriðjunefnd og átti þar sæti meðan hún starfaði. Hann var kosinn í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis 1966, stjórnarformaður Lánasjóðs ísl. sveitarfélaga frá stofnun hans 1966--1983, í stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands 1967--1973 og í stjórn Iðnþróunarsjóðs 1973--1977. Hann var stjórnarformaður Sambands ísl. viðskiptabanka 1977-- 1978, í hafnaráði 1984--1992 og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands frá nýári

1985 til ársloka 1986.
    Jónas G. Rafnar átti sæti á Alþingi fyrir Sjálfstfl. Hann var þingmaður Akureyringa 1949--1956 og 1959 og Norðurl. e. 1959--1971. Vorið 1957 tók hann sæti á Alþingi í þinglok og var þá varamaður landskjörinna þingmanna. Hann sat á 21 þingi alls. Hann var varaforseti neðri deildar á allmörgum þingum, fyrst 1949, síðast 1967. Forseti efri deildar Alþingis var hann 1967--1971. Hann var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1962 og 1970.
    Jónas G. Rafnar kaus að nema lögfræði til undirbúnings ævistarfi sínu og á þeim vettvangi hóf hann störf sín að loknu námi. Hann var jafnframt áhugasamur um stjórnmál, var kvaddur til trúnaðarstarfa fyrir flokk sinn og ávann sér vaxandi traust. Hann naut vinsælda í heimabæ sínum og innan þrítugs var hann kjörinn fulltrúi hans á Alþingi. Honum var lagið að fylgja málum fram til sigurs, var hófstilltur og gagnorður í ræðustól og greindi vel kjarna hvers máls. Í forsetastörfum á Alþingi var hann röggsamur og réttsýnn. Hann var kjörinn í stjórnir og nefndir og átti í þeim störfum sínum drjúgan þátt í lagasmíð og umsýslu fjár. Hann var kominn laust yfir fimmtugt þegar hann lét af þingmennsku. Fyrir rúmum áratug hætti hann föstum störfum, kominn nokkuð á sjötugsaldur. Síðustu æviárin tók hann þátt í félagsstörfum aldraðra og voru honum falin þar stjórnarstörf.
    Ég bið hv. alþm. að minnast Jónasar G. Rafnars með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]