Yfirtökutilboð

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:16:06 (4509)

[16:16]
     Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég flutti að mig minnir tvívegis þáltill. um yfirtökutilboð og önnur almenn tilboð ásamt hv. 4. þm. Reykv. Þetta mál var afgreitt 19. mars 1992 með þessari samþykkt:
    ,,Alþingi ályktar að fela viðskrh. að undirbúa nú þegar löggjöf um yfirtökutilboð og önnur almenn tilboð í hlutafélög til þess að vernda félagsmenn og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Leggja skal fram frv. um þetta efni fyrir 116. löggjafarþing svo að ný lög um þetta geti tekið gildi eigi síðar en 1. jan. 1993.``
    Það er því orðinn æðilangur tími liðinn að ekki skuli vera komið hér fram, og það fyrir löngu, frv. um þetta mikilvæga atriði. Flest lönd sem við eigum mest samskipti við, bæði viðskiptalega og stjórnmálalega, hafa sett lög um yfirtöku og einstaka lönd hafa sett sérstakar reglur og þá í sambandi við kauphallarviðskipti.
    Ég tek fram að þetta fyrirkomulag um þingsályktanir er heldur hvimleitt fyrirkomulag og væri því nær að Alþingi léti þingmenn hafa til umráða fjármagn til að semja sjálfir frv. sem þarf að leita lagalegra fyrirgreiðslu til. Þetta er aðferð til að ýta þessu inn í ráðuneytin og það er afar ríkt í þeim mörgum hverjum að leggjast á samþykktir löggjafans og þetta er ekkert einsdæmi. Mér finnst leitt til þess að vita að ekki skuli vera hægt að fá unnið jafnþarft verk og hér er um að ræða.
    Tilgangurinn með því að leggja fram þessa þáltill. og vinna að því að fá hana samþykkta var sá að koma í veg fyrir að meiri hluti í hlutafélögum gæti selt hlutafjáreign sína og skilið minni hlutann eftir með tiltölulega verðlítil hlutabréf. Í sumum löndum þarf alls ekki 50% eigenda til þess að slíkar skyldur séu lagðar á.
    Ég læt í ljós mikla óánægju mína með hvernig að þessu máli hefur verið staðið. Ég tel að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða að setja löggjöf um yfirtökutilboð.