Varnir gegn mengun af útblæstri bifreiða og brennslu olíu og bensíns

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 16:43:35 (4520)


[16:43]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að beina svolátandi fsp. á þskj. 663 til hæstv. umhvrh.:
    ,,Með hvaða hætti hyggst ráðherra vinna að því að efla varnir gegn mengun:
    a. af völdum útblásturs bifreiða,
    b. frá brennslu olíu og bensíns í vélum og við upphitun?``
    Mengun sem við mannfólkið eigum við að stríða og sköpum oftast sjálf er margs konar og mismunandi eftir menningarsvæðum veraldarinnar. Við á Vesturlöndum höfum bæði verið iðin við að skapa mengun en erum líka nokkuð meðvituð um að eitthvað þurfi að gera til þess að hindra að skaðinn verði og að okkur beri skylda og jafnvel lífsnauðsyn til þess að bæta þann skaða sem orðið hefur. Fsp. mín til hæstv. umhvrh. beinist að tveimur veigamiklum þáttum mengunarvarna, mengun af völdum útblásturs úr bifreið og frá brennslu bensíns og olíu í vélum og til upphitunar.
    Í hugum almennings er mengun frá útblæstri bifreiða einstaklega hættuleg og hvimleið, ekki síst vegna þess að börn verða oft illilega fyrir blæstrinum, lítil börn í kerru eða við hönd foreldra sinna á ferð um göturnar ber oft við hæð útblástursröranna og verða því beint fyrir mekkinum. Bifreiðar í lausagangi fyrir utan leikskóla og skóla bera vitni skelfilegu hugsunarleysi hinna fullorðnu sem eiga erindi á þessa staði. Það er líka dapurlegt að sjá og finna á lygnum sumardögum í höfuðborginni hve mengunin frá útblæstri bifreiða er hrikalega mikil.
    Nú liggur fyrir Alþingi lagafrv. um reykingavarnir og er það vel en það skýtur nokkuð skökku við að við megum koma akandi til vinnu spúandi eitri út í andrúmsloftið en megum síðan hlíta ströngum reglum um varnir gegn reykingum innan húss. Hér þarf sannarlega samræmingu og varnir á öllum sviðum.
    Í annan stað varðaði fyrirspurn mína um mengun frá brennslu olíu og bensíns í vélum og við húshitun. Það er öllum ljóst sem sjá reykinn sem leggur frá ýmsum dísilvélum að hér er um mikla mengun að ræða. Sú mengun er e.t.v. ekki eins algeng því að dísilvinnuvélar eru a.m.k. ekki eins oft fyrir augum okkar en fnykurinn er þeim mun sterkari þegar hann finnst. Líka sögu má segja um olíubrennslu til upphitunar.
    Nokkrir þingmenn hafa vakið athygli á þessum vanda á undanförnum árum, síðast með umfjöllun um vissa þætti mengunarvarnanna og er það vel, en aldrei er of oft brýnt fyrir okkur öllum að við þurfum að gera eitthvað í málinu. Þeir sem síðast hafa lagt fram athugasemdir --- ég þarf kannski ekki að vera að telja þá upp að svo stöddu --- en það má gjarnan koma inn á þau mál sem þeim lá á hjarta vegna þess að þau eru nátengd því sem ég spyr um.