Varnir gegn mengun frá bifreiðum og vélum

99. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:12:34 (4530)


[17:12]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 662 leyft mér að beina svolátandi fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.:
  ,,1. Með hvaða hætti hyggst ráðherra tryggja að varnir gegn mengun af útblæstri bifreiða og vinnuvéla verði skilvirkari?
    2. Hvernig er háttað reglum um gamlar bifreiðar og vélar? Er von á hertum reglum fyrir þær?
    3. Hvernig er séð fyrir því að ný tæki séu lítt mengunarvaldandi?`` --- Þ.e. ný tæki sem flutt eru til landsins eða framleidd hér.
    Fyrir nokkrum vikum vorum við fáeinir þingmenn í heimsókn í erlendu landi þar sem mengun var slík að áhyggjur hlýtur að vekja alls fólks og meðal allra þjóða því að mengunin á sér engin landamæri og þarna sáum við að vörnum var greinilega áfátt. En þessi reynsla varð til þess að mér varð litið í okkar eigin barm. Er ekki ástæða til að við skoðum hvernig málum er háttað hjá okkur?
    Við búum í strjálbýlu landi sem gerir okkur kleift að ráða betur við mengun en þar sem mannmergð og plássleysi er. Því ber okkur skylda til að vera í fararbroddi og kjörorð okkar ætti að vera hraust þjóð í hreinu landi og hreint og ómengað land er fjöregg framtíðar okkar, eins og fram kom í síðustu umræðu, vegna þess að við ætlum að njóta þess og við ætlum að lifa á því. Við ætlum að hafa lífræna ræktun og við ætlum í alla staði að vera hreinasta land Vesturlanda eins og kom fram í máli mínu áðan.
    Undir hæstv. ráðherra heyra umferðarlög og þar með ákvæði um búnað bifreiða. Því hreyfði ég þessu máli við hann þó að önnur hlið sama máls snúi að umhvrn., þ.e. upplýsinga- og áróðursmál og ýmislegt sem snertir sjálft umhverfið. Hér er því um að ræða tvær hliðar á sama peningi og ástæða til að vekja athygli beggja ráðherra og heyra hvað báðir ráðherrar hafa fram að færa um áætlanir í þessum málum.