Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

100. fundur
Mánudaginn 20. febrúar 1995, kl. 17:27:32 (4537)


[17:27]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi láta það koma fram að ég er fylgjandi afgreiðslu þessa frv. og þeim efnisatriðum sem þar er verið að fjalla um, þó svo að ég hafi því miður ekki tekið þátt í afgreiðslu nefndarinnar á málinu, þótt ég eigi sæti í hv. iðnn., en ég var þá utan þings þegar málið var þar til umfjöllunar og afgreiðslu eins og fram kemur í nál. En eins og fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, frsm. og formanni nefndarinnar, þá fjallaði nefndin lítillega um málið aftur og það er aðeins í framhaldi af því sem mig langar að segja örfá orð.
    En fyrst þetta. Ég er efnislega sammála frv. Ég tel eðlilegt að kísilgúrverksmiðjan við Mývatn greiði svipaða hlutfallstölu í tekjuskatt af sínum tekjuafgangi eða hagnaði eins og önnur fyrirtæki í landinu og einnig það sem hér er rætt um í 2. gr. frv., um að starfrækja sérstakan sjóð til þess að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi félagsins. Þetta tel ég að sé afar mikilvæg grein einnig og væri hægt að fara mörgum orðum út af fyrir sig um hana og það sem kann að vera fram undan hjá þessari verksmiðju og starfsemi hennar.
    Ég leyfi mér að ala enn þá von í brjósti að starfsemi Kísiliðjunnar sé ekki nú þegar að renna sitt skeið. Það séu enn möguleikar á því að vinna áfram kísilgúr úr þessari námu án þess að spilla lífríki eða umhverfi og að Kísiliðjan geti enn starfað af krafti og til hagsbóta fyrir sveitarfélögin, fyrir íbúa þeirra og fyrir auðvitað landið allt, því að afkoma þessarar verksmiðju hefur verið góð flest árin sem hún hefur starfað.
    En það var ekki það sem ég ætlaði að ræða nú, virðulegur forseti, heldur þetta sem hv. formaður iðnn. greindi frá áðan að það hlýtur að verða að telja ámælisvert að fskj. með þessu frv., sem á lögum samkvæmt að fylgja öllum frumvörpum, frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., þar sem gerð er grein fyrir áhrifum frumvarpa á afkomu ríkissjóðs, skuli ekki vera gert af meiri nákvæmni og með betri upplýsingum heldur en hér er um að ræða og hv. frsm. rakti.
    Það verður að koma fram líka að ég átti tal við starfsmenn fjmrn. og innti þá eftir því hvort þetta væri virkilega rétt, að tekjutap sem hér er greint frá komi eingöngu niður á ríkissjóði og hafi engin áhrif á afkomu viðkomandi sveitarfélaga. Starfsmenn ráðuneytisins ítrekuðu þá, þegar átti að fara að afgreiða málið frá hv. Alþingi, að það hefði engin áhrif á afkomu sveitarfélaganna, sem er alrangt eins og fram kom í framsöguræðu hér áðan. Og það er ekki aðeins að þetta hafi áhrif á afkomu sveitarsjóðs Skútustaðahrepps heldur mun þessi lagabreyting einnig hafa áhrif á skattgreiðslu fyrirtækisins sem selur kísilgúrinn eða framleiðsluvöru verksmiðjunnar og tekjuskattur þess fyrirtækis hefur áhrif á skattgreiðslur til Húsavíkurkaupstaðar, svo að þetta hefur áhrif á afkomu fleiri sveitarfélaga.
    Ég vildi aðeins, virðulegur forseti, ítreka það sem hefur komið fram í máli mínu við sveitarstjóra þessara tveggja sveitarfélaga sem ég hef nefnt, Skútustaðahrepps og Húsavíkurkaupstaðar, að það sé eðlilegt að iðnrn. og fjmrn. taki upp viðræður við þessi sveitarfélög og fjalli um það hvernig endurnýja megi þá samninga sem þau hafa gert varðandi tekjur þeirra af starfsemi þessara fyrirtækja, þ.e. kísilgúrverksmiðjunnar annars vegar og sölufyrirtækisins hins vegar.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að það komi hér alveg skýrt fram að það sé álit a.m.k. sumra nefndarmanna og ég vona reyndar allra nefndarmanna í hv. iðnn., að það sé álit okkar að þessi tvö ráðuneyti taki upp viðræður við fulltrúa sveitarfélaganna og geri nýtt samkomulag um það hvernig tekjum verður skipt milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar þar sem um þetta gilti sérstakt samkomulag. Því verði ekki rift einhliða. Og ég endurtek það að ég lýsi undrun minni að það skuli ekki hafa verið ljóst í ráðuneytunum sem um þetta frv. hafa fjallað og samið það í raun og lagt það fram, að það skuli ekki hafa verið ljóst þar eða vitað hvernig þessar tekjur skiptust milli ríkisins og sveitarfélaganna.
    Þetta vil ég að komi skýrt fram sem skoðun mín. Ég get auðvitað ekki talað fyrir munn annarra hv. nefndarmanna, en ég vænti þess þó að eftir umræður í nefndinni þá séu menn sammála um að þetta mál þurfi að skoða sérstaklega og beini ég því til hæstv. ráðherra þessara tveggja málaflokka, þótt þeir séu

því miður ekki viðstaddir umræðuna, en vænti þess að það berist þeim til eyrna, að það sé eðlileg krafa að þeir taki upp viðræður við þessi sveitarfélög.